Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 júlí 2006

Tími nornarinnar

Tími nornarinnar

Seinustu daga hef ég fylgst af miklum áhuga með útvarpsleikritinu kl. 13:00 á Rás 1. Þar hefur verið flutt alveg hreint stórfengleg útvarpsuppfærsla af hinni frábæru skáldsögu Árna Þórarinssonar, Tíma nornarinnar. Þessi vel skrifaða bók hitti mig alveg í hjartastað þegar að ég las hana í ársbyrjun. Þar segir Árni sögu Einars blaðamanns sem nú hefur vikið af braut drykkju og óreglu og haldið norður til Akureyrar til að vinna sem blaðamaður Síðdegisblaðsins á staðnum. Ekki hefur liðið langur tími frá komu hans norður þar til að hann lendir í miðpunkti spennandi og áhugaverðrar atburðarásar sem hann fjallar um af áhuga í fréttaskrifum og hugsar um mikið þess fyrir utan. Spennandi saga með litríkum persónum.

Tími nornarinnar er áhugaverð og vel rituð saga hjá Árna. Þetta er skemmtilegur krimmi frá sjónarhóli blaðamannsins. Sögusvið bókarinnar er eins og fyrr segir sjálfur höfuðstaður Norðurlands, Vor Akureyri. Hló mikið og skemmti mér yfir lestrinum þegar að ég fór fyrst yfir bókina. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu vel Árni hafði sett sig inn í "akureysk" málefni. Hann er með alla staðhætti á hreinu og talar málið eins og hann væri á staðnum. Sérstaklega fannst mér alveg hreint frábært að heyra hann tala um vandamálin á staðnum og eiginlega eru brandararnir svo kaldhæðnir og lúmskir að erfitt er annað en að hafa gaman af lestrinum og fylgjast með af miklum áhuga.

Útvarpsuppfærslan er mjög vel gerð. Hjálmar Hjálmarsson leikur blaðamanninn Einar með sannkölluðum glæsibrag og nær að túlka gamansemi hans mjög vel. Hjálmar gerði sjálfur leikgerðina eftir sögunni og leikstýrir ásamt Guðmundi Inga Þorvaldssyni. Ennfremur fer Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, algjörlega á kostum í hlutverki fréttastjórans Trausta, sem er eins og Einar segir svo skondið slitinn gúmmítöffari af skjánum sem misst hefur sjarmann og er orðinn fréttastjóri í skjóli ritstjórans. Þórhallur túlkar fréttastjórann frábærlega og minnir á góða leiktakta sína í gamla daga, áður en að hann varð sjónvarpsmaður. Svo er ekki hægt að segja annað en að Örn Árnason sé frábær sem Ásbjörn, fréttastjórnandinn á Akureyri.

Þetta er góð saga hjá Árna sem ég hvet alla áhugamenn um spennusögur til að hlusta á þessa dagana á Rás 1. Skemmtilegar tengingar og spennandi atburðarás sem fléttist vel saman undir lokin. Hvet alla sem ekki hafa hlustað til að smella sér inn á ruv.is og hlusta á þetta magnaða útvarpsleikrit. Hef hlegið mikið af útvarpsleikgerðinni - svo sannarlega vel gert hjá Hjálmari og hans fólki. Frábær saga í glæsilegum búningi útvarpsleikhússins.