Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 ágúst 2006

Átök um forystu Samfylkingarinnar í NA

Kristján MöllerEinar Már Sigurðarson

Það er greinilegt að það er komið líf í framboðsmál Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þegar virðist nokkuð ljóst að þingmenn flokksins í kjördæminu, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, hefðu áhuga á að halda sínum sess á framboðslistanum fyrir komandi kosningar og liggur t.d. algjörlega fyrir að Kristján vill halda leiðtogastól sínum. Fyrirfram þótti mér líklegt að einhverjir hefðu áhuga á að leggja í hann, en hann vann stólinn nokkuð auðveldlega í prófkjöri flokksins í október 2002 eftir að Svanfríður Jónasdóttir, þáv. alþingismaður og síðar bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, ákvað að hætta þingmennsku og sinna öðrum verkefnum. Einar Már keppti reyndar við Kristján um að leiða listann en Kristján naut yfirburðarstuðnings og þurfti lítið fyrir sigrinum að hafa í raun.

Síðustu mánuði hefur mikið verið rætt hvað Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður flokksins í kjördæminu, hyggðist fyrir. Lengi vel taldi ég að hún myndi jafnvel vilja fara alla leið og mynda leggja í Möllerinn af fullum þunga, berjast fyrir því að Akureyringur leiddi lista Samfylkingarinnar. Lára þykir hafa margt til brunns að bera og kom t.d. inn með nokkrum krafti (og óvænt) í prófkjörinu fyrrnefnda og náði fjórða sætinu og varð á eftir Örlygi Hnefli Jónssyni. Svo þegar að því kom að leggja listann fram á kjördæmisþingi var ákveðið af uppstillingarnefnd að hækka Láru upp á kostnað Þingeyingsins Örlygs Hnefils við litla gleði stuðningsmanna hans. Svo fór því að Lára varð þriðja og munaði litlu er á hólminn kom að hún næði kjöri á þing. Lengi vel kosninganætur í maí 2003 var Lára inni en undir lokin felldi Birkir Jón hana út.

Lára Stefánsdóttir

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Lára um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í annað sæti framboðslista flokksins í komandi kosningum, en ekki leggja í leiðtogaframboð. Það stefnir því flest í að hún og Norðfirðingurinn Einar Már berjist um annað sætið. Reyndar má fullyrða að austfirskir samfylkingarmenn séu vart sáttir við að láta eftir þingsæti sitt, enda verður að teljast óraunhæft að Samfylkingin fái þrjá þingmenn hér næst ef marka má sorgarsögu þeirra í skoðanakönnunum eftir að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður flokksins fyrir rúmu ári. Þar hefur lítið sem ekkert gengið um verulega langt skeið og eiginlega með ólíkindum að ekki hafi verið meira rætt um sorgarsögu Ingibjargar Sólrúnar en mikið mætti analísa sjálfsagt um mikið fall pólitísks ferils hennar. Pressan á flokksforystuna eykst væntanlega núna þegar að Framsókn hefur klárað sín mál.

Mikið er rætt um Smára Geirsson, sem til fjölda ára var aðalmaðurinn í sveitarstjórnarpólitíkinni í Norðfirði og Fjarðabyggð, en hann er nú ekki lengur leiðtogi Fjarðalistans. Reyndar hefur Fjarðalistinn reynt að fjarlægja sig eins mikið Samfylkingunni og þeir geta. Margoft í kosningabaráttunni í Fjarðabyggð í vor strikaði leiðtogi (og ekki síður frambjóðendurnir allir) Fjarðalistans yfir tengsl við flokka og reyndi með því að tryggja Smára kosningu, en hann var í fjórða sæti og hafðist með herkjum inn. Spurning er hvort Smári sjálfur vilji fara á þing og fari í prófkjör Samfylkingarinnar. Þegar stefnir allavega í slag milli Láru og Einars Más um annað sætið að öllu óbreyttu. Væntanlega mun Lára benda á ágæta stöðu flokksins á Akureyri og benda á mikilvægi þess að Samfylkingin á Akureyri eigi sér fulltrúa í forystusveit.

Benedikt Sigurðarson

En það horfa fleiri Akureyringar til framboðs fyrir Samfylkinguna. Það vakti athygli mína að heyra af því í gær að Benedikt Sigurðarson, fyrrum stjórnarformaður KEA og skólastjóri í Brekkuskóla, sem var mikið í fréttum á síðasta ári vegna starfsloka Andra Teitssonar, þáv. kaupfélagsstjóra, vegna deilna um fæðingarorlof, hafi áhuga á fyrsta sæti flokksins í kjördæminu. Sagði hann í fréttum RÚVAK að skorað hefði verið á sig og hann að hugleiða málin. Benedikt fer væntanlega því í þingframboð fyrst svona yfirlýsingar eru gefnar. Benedikt er mágur Sigríðar Stefánsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa á Akureyri og formannsframbjóðanda í Alþýðubandalaginu árið 1987 sem tapaði nokkuð stórt fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni, síðar forseta Íslands, en Sigríður er nú deildarstjóri hjá Akureyrarbæ. Telur Benedikt þingframboð vænlegt nú, enda ekki lengur stjórnarformaður KEA.

Það má búast við hörðum slag hjá Samfylkingunni og væntanlega hafi fleiri en þessi hug á að fara fram í prófkjöri Samfylkingarinnar sem verður væntanlega fyrir jól, sennilega á svipuðum tíma og prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri var haldið í fyrra, en mig minnir að það hafi verið í nóvemberbyrjun. Væntanlega er Samfylkingin bara að spila um tvö þingsæti, sé staða mála flokksins á landsvísu metin sem heild, svo að væntanlega verður baráttan hörð og sýnt að sótt verður að þingmönnunum tveim úr nokkuð mörgum áttum og þegar t.d. ljóst að tekist verður á um leiðtogasætið.