Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 október 2002

Athyglisverð umræða um ekki neitt
Seinustu daga hefur mikið verið rætt um samtal Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, og Hallgríms Helgasonar. Mér finnst sú umræða ansi undarleg, enda hefði ég ekki talið tilefni til þess að gera einkasamtöl fólks að umræðuefni. Mér sýnist sem svo að Hallgrímur hafi mætt sjálfviljugur og því ekki hægt að segja að hér sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Mér sýnist að vinstrimennirnir séu orðnir svo örvæntingarfullir að þeir gera fjölmiðlamat úr sárasaklausu einkasamtali, þetta er með hreinum ólíkindum. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þessari umræðu sem virðist sett fram einungis til að fólk hafi eitthvað að smjatta á í kjördæmaviku þingmanna, enda ekkert þinghald í þessari viku. Ég ætla að vona að forsætisráðherrann sé sjálfviljugur þess hverja hann vill tala við. Það er hinsvegar þeirra að ákveða hvort þeir mæti og tali við hann. Semsagt; þessi umræða er vitlausari en flest annað sem smjattað er á þessa dagana

Pistill um funda- og málfrelsi forsætisráðherrans
Ég settist niður í kvöld og skrifaði pistil um fjölmiðlaumræðuna sem vaknað hefur í kjölfar greinaskrifa Hallgríms Helgasonar og fundar hans með forsætisráðherra. Í þessum pistli set ég fram skoðanir mínar á þessum málum og er óhræddur við það eins og venjulega að tjá mig opinskátt. Pistill minn birtist á heimasíðu Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, en þar skrifa ég vikulega pistla um stjórnmál. Hvet ykkur til að lesa þennan pistil og kynnast með því skoðunum mínum á þessu máli.

Sigurður Kári í prófkjörsslaginn - Guðlaugur Þór hugsar málið
Mikið ánægjuefni er að ungu fólki fjölgar sífellt í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Félagi minn, Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrv. formaður SUS, hefur tilkynnt framboð sitt. Eins og ég sagði í gær hafa Ingvi Hrafn Óskarsson og Birgir Ármannsson þegar tilkynnt framboð. Einnig liggur fyrir að allir þingmenn flokksins í borginni fara fram á ný. Það er mjög mikilvægt að ungt fólk fari fram og því fagna ég mjög framboði þremenninganna. Þeir eru allir traustsins verðir. Einnig er líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi og fyrrv. formaður SUS, gefi kost á sér í prófkjörinu, bendir flest til þess að svo verði.