Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 október 2002

Spennandi prófkjör - ungliðar gefa kost á sér
Í grein minni um prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem birtist í dag á heimasíðu Heimdallar, fjalla ég um þá staðreynd að af þeim 17 sem gefa kost á sér eru 6 einstaklingar úr SUS, ungliðahreyfingu flokksins. Það er mikið ánægjuefni, sérstaklega að þrír formenn SUS gefi kost á sér, núverandi formaður og tveir fyrrverandi formenn. Ég þekki Guðlaug Þór Þórðarson, Sigurð Kára Kristjánsson og Ingva Hrafn Óskarsson af góðu einu og vona að þeim gangi vel í þessum slag. Sem ungur sjálfstæðismaður fagna ég sérstaklega framboði þeirra og vona að þeir nái góðum árangri. Gulli var á árum áður formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, þess góða félags sem ég er í og sit í stjórn nú. Hann hefur sannað að hann er traustsins verður. Hefur staðið sig vel í borgarstjórn og er umfram allt málefnalegur og trúr sannfæringu sinni. Sama má vissulega segja um Ingva Hrafn og Sigurð Kára. Það er mjög gott að tvær ungar konur fari í framboð og vona ég sérstaklega að Soffíu Kristínu Þórðardóttur gangi vel í þessum slag. Ljóst er að helstu sóknarfæri ungs fólks til að ná kjöri við komandi kosningar er í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi, enda mun þingsætum þessara kjördæma fjölga vegna nýrrar kjördæmaskipunar. Á landsbyggðinni mun þingsætum hinsvegar fækka og sitjandi þingmenn flokksins þar hyggja allir á endurkjör og berjast um færri örugg þingsæti en áður og því sýnilegt að lítil endurnýjun verður þar við þessar kosningar. Því er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn og stuðningsmenn hans á höfuðborgarsvæðinu notfæri sér þetta gullna tækifæri og tryggi að ungt fólki verði í þeim sætum sem barist verður um í vor. Ég hvet félaga mína í Heimdalli og alla sjálfstæðismenn í borginni til að tryggja að ungt fólk nái góðum árangri í þessum slag. Hæfileikaríkt ungt fólk þarf að ná góðum árangri í þessum slag.

Hafið tilnefnd til 12 Edduverðlauna
Í dag var tilkynnt um tilnefningar til Edduverðlaunanna, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna 2002. Margt kemur á óvart þegar litið er yfir tilnefningarnar og sumt ekki. Kvikmynd Baltasar Kormáks, Hafið er tilnefnd til alls 12 verðlauna, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og fyrir leik í aðal- og aukahlutverkum karla og kvenna. Er um frábæra kvikmynd að ræða og spái ég því að hún hljóti öll helstu verðlaunin þegar Eddan verður afhent 10. nóvember nk. Ég skrifaði umfjöllun um myndina í kjölfar þess að ég sá hana í september. Ég hvet ykkur til að líta á heimasíðu myndarinnar og lesa umfjöllun mína um myndina.