Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 september 2003

Hugsjónir skipta máli!
Kosningabaráttan fyrir Heimdallarkosningar á miðvikudag er komin á fullt. Framboðin keppast þessa dagana við að kynna sig og stefnu sína fyrir þeim sem í félaginu eru. Framboð Atla Rafns Björnssonar og stuðningsmanna hans hefur sett fram ítarleg og greinargóð málefni til að vinna eftir ef Atli nær kjöri, og kynnir þau vel á vef sínum, hugsjonir.is. Annað er hinsvegar hægt að segja um mótframboðið sem hefur veika og efnislitla stefnu og virðist ætla að stunda eitthvað annað en pólitísk skoðanaskipti og beitta umræðu á öllum sviðum. Svo virðist vera að þar skipti eitthvað allt annað máli en hugsjónir og reynsla. Hinsvegar er framboð Atla Rafns með gríðarmikla áherslu á reynslumikið fólk og góð málefni. Það er engin spurning að Heimdalli er best borgið undir stjórn þeirra sem þar fara. Heimdallur á gott skilið - hugsjónir og reynsla eiga að vera aðalsmerki félagsins í heild á næsta starfsári.