Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 nóvember 2005

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson

Merkilegt hefur verið að fylgjast með ritdeilu Morgunblaðsins og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, að undanförnu. Um síðustu helgi voru forsetahjónin, Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff, við embættistöku Alberts fursta af Mónakó. Var forseti Íslands eini þjóðhöfðinginn á staðnum. Fannst mörgum þetta merkilegt. Var ekki fjarri því að margir spyrðu sig að því hvað forsetinn væri að gera á staðnum. Það verður enda vart komið auga á ástæður þess að forseti Íslands af öllum þjóðhöfðingjum ætti þar að vera staddur. Skrifaði Vef-Þjóðviljinn um málið í vikubyrjun og í kjölfarið var fjallað um för forsetans í Staksteinum í Morgunblaðinu. Í gær svaraði forsetinn skrifunum í Staksteina í grein á miðopnu Morgunblaðsins. Þar fór hann yfir málið. Þar kom fram að margar ástæður hafi legið að baki förinni. Ein hafi verið áherslan á tengsl smáríkja, önnur sú að Albert fursti kom til Íslands á Smáþjóðaleikana árið 1997 og sú þriðja að furstinn sé mjög mikill áhugamaður um málefni norðurslóða. Forsetinn sagði í grein sinni það þjóna fjölþættum hagsmunum Íslendinga að vera við athöfnina og að orðalagið í pistli Morgunblaðsins væri ekki við hæfi, er í hlut ætti ríki og furstafjölskylda sem ávallt hefði sýnt Íslendingum vináttu.

Þessi grein forsetans er mjög skondin, svo ekki sé meira sagt. Hana skrifar maður sem vildi ekki fara til Danmerkur við brúðkaup krónprinsins. Það lék enginn vafi á því að þar var komið fram með ómaklegum hætti við konungsfjölskyldu Danmerkur, sem hefði alla tíð sýnt Íslandi mikla tryggð og mikinn sóma í gegnum árin. Ástæðurnar að baki heimveru forsetans í maí 2004 voru enda á miklu reiki. Hann þóttist ekki geta farið vegna aðstæðna hérlendis. Voru þær hreinn fyrirsláttur, enda ljóst að lagafrumvarp það sem orsakaði dramatíska heimkomu hans frá Mexíkó yrði ekki samþykkt á þeim sólarhring sem hann ætti að vera í Kaupmannahöfn. Þingsköp tækju einfaldlega fyrir það að málið færi í gegn með slíkum hraða. Varð enda sú raunin, enda liðu tíu dagar frá áætlaðri för forsetans til Danmerkur þar til lögin voru samþykkt. Þannig að það er greinilegt ósamræmi í tali forseta Íslands. Það er allavega í hæsta máta óeðlilegt að för við embættistöku furstans af Mónakó hafi verið mikilvægari en að fara að brúðkaupi afkomanda þjóðhöfðingja Íslands. Þetta blasir við flestum. Það er þó ekki hægt að segja að ekki sé húmor á Mogganum. Þar er forsetanum svarað í dag með skondnum hætti.

Orðrétt segir: "Staksteinar sjá ástæðu til að þakka forseta Íslands fyrir að bregðast skjótt við tilmælum, sem til hans var beint hér í þessum dálki í fyrradag um að hann upplýsti íslenzku þjóðina um hvers vegna nauðsynlegt væri að forseti, einn þjóðhöfðingja, sækti krýningarathöfn Alberts fursta í Mónakó. Svar forsetans birtist hér í Morgunblaðinu í gær. Nú er sem sagt komið í ljós, að Morgunblaðið hefur ekki áttað sig fyllilega á pólitískri þýðingu þess, að efla tengslin við smáríki á borð við Lichtenstein, Andorra, Kýpur (heimilisfesti þeirra, sem vilja losna undan sköttum á Íslandi) og San Marínó. Og ekki ástæða til að gera lítið úr því. Slík pólitísk tengsl geta t.d. hjálpað til við að finna skattsvikið fé, sem aftur eru rök fyrir því, að Ísland rækti pólitísk tengsl við Tortillaeyjur í Karíbahafinu en þangað liggja t.d. athyglisverðir þræðir úr íslenzku viðskiptalífi. Morgunblaðið hafði heldur ekki áttað sig á því mikilvæga hlutverki, sem Albert fursti gegnir í rannsóknum á norðurslóðum og áhrifum loftslagsbreytinga á lífshætti og náttúru í þeim heimshluta og biðst velvirðingar á því.

Orð forseta Íslands um mikilvægi framlags Alberts fursta verða ekki dregin í efa og sjálfsagt að fylgjast betur með framlagi furstans. Hins vegar er erfitt að skilja athugasemdir forsetans við lýsingu Staksteina á Mónakó. Er það ekki staðreynd, að þar er að finna helztu spilavíti Evrópu og að þar er samkomustaður þotuliðsins? Hvað er ljótt við það? Enginn hefur haldið því fram að forseti Íslands væri orðinn partur af því þotuliði.
" Svo mörg voru þau orð. Eins og flestir vita er ekki vanalegt að forseti og dagblað skrifist á reglulega - nú verður athyglisvert að sjá hvort forseti Íslands pikkar aftur á lyklaborð sitt grein til Morgunblaðsins.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórnarfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 19. nóvember sl., samþykkti eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar samkomulagi milli aðila vinnumarkaðsins um breytingar á kjarasamningum. Þar með er tryggt að almennum kjarasamningum verður ekki sagt upp og stöðuleikanum teflt í tvísýnu. Samvinna og traust á milli launþegahreyfinga og atvinnurekenda er grundvöllur fyrir hagstæðum skilyrðum til frekari hagsældar og velmegunar fyrir fólk í landinu. Þess vegna var það mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðsins öxluðu þá ábyrgð sem á þeim hvíldi og lögðu sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu til handa öllum. Undanfarin ár hefur hið opinbera ekki axlað þá ábyrgð sem til þarf til þess að tryggja stöðuleika á vinnumarkaði. Launahækkanir starfsmanna hins opinbera, langt umfram það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, er frekar til þess að grafa undan stöðuleika og skapa óþolandi togstreitu milli hins opinbera og einkageirans.

Útgjaldaaukning ríkisins undafarin ár er að stærstum hluta að rekja til þessar launahækkana. SUS telur mjög brýnt að framvegis taki ríkið fullt tillit til samkomulags á almennum vinnumarkaði og hagi sínum launasamningum samkvæmt því. SUS mótmælir harðlega því að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar. Samkomulag er meðal fólks að tryggja þurfi sameiginlega velferð þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Samhjálp er mikilvæg og ein undirstaða velferðarsamfélagsins. Því er það mikið óheillaskref að hverfa frá þeirri samstöðu að bæta skuli hag þeirra sem minnst mega sín yfir í það að miða bætur hins opinbera við ákveðin réttindi einstakra hópa burtséð frá efnahag þeirra. SUS lítur svo á að efnameiri einstaklingar séu betur í stakk búnir til að mæta tekjuskerðingu sökum atvinnumissis en þeir efnaminni Jafnframt er mikil hætta á því að tekjutenging atvinnuleysisbóta dragi úr sjálfsbjargarviðleitni og letji fólk til að leita sér að atvinnu.
"

Tony Blair og Angela Merkel

Eins og ég sagði frá hér á þriðjudag hefur Angela Merkel tekið við embætti kanslara Þýskalands. Fyrsta embættisverk hennar var að halda ásamt Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra, til Parísar í opinbera heimsókn til Jacques Chirac forseta Frakklands. Er það til marks um að Merkel vilji halda áfram tryggum samskiptum Frakklands og Þýskalands. Fræg er náin samvinna Helmut Kohl og Francois Mitterrand hér áður og síðar Jacques Chirac og Gerhard Schröder. Frá París héldu Merkel og Steinmeier til Brüssel og ræddu við forystumenn Evrópusambandsins. Í dag héldu þau í Downingstræti 10 í London og ræddu við Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Það er greinilegt að Merkel ætlar í þessari ferð sinni til lykilborga Evrópu að halda í góð tengsl milli Þýskalands og stjórna þessara landa - tryggja trausta brú og efla tengslin. Það kemur því varla á óvart að næst mun Merkel einmitt halda til Washington og hitta George W. Bush forseta Bandaríkjanna, með það að markmiði að efla tengsl landanna. Þau hafa verið nær við frostmörk síðan að Schröder og stjórn hans neitaði að styðja Bandamenn í innrásinni í Írak í mars 2003. Merkel telur mikilvægt að hafa samskiptin við Bandaríkin betri.

Akureyrarkirkja á aðventu 2003

Í dag er mánuður til jóla. Jólaundirbúningurinn er því að fara af stað hjá flestum af krafti. Skammdegið er skollið á með sínu tilheyrandi myrkri, snjórinn sem fallið hefur seinustu daga hefur lýst upp myrkrið. Á stöku stöðum er fólk farið að setja upp jólaljós og bærinn er óðum að verða jólalegri. Starfsmenn Akureyrarbæjar eru nú í óða önn að koma bænum í jólabúninginn. Aðventa hefst á sunnudag - á laugardag verða kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi sem er gjöf frá vinabæ Akureyringa, Randers í Danmörku. Þá hefst jólaundirbúningur flestra Akureyringa með almennum hætti. Flestir telja óhætt að hefja undirbúninginn þann dag. Þessi stund á Ráðhústorginu er jafnan mikil hátíðarstund í bænum og fólk mætir þar og ræðir saman og á notalega stund. Ávörp munu flytja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Preben Smed aðstoðarborgarstjóri í Randers. Lúðrasveit Akureyrar mun leika létt lög við þessa hátíðarstund og stúlknakór Akureyrarkirkju mun syngja nokkur jólalög. Þessi athöfn á torginu er alltaf jafn hátíðleg og fjölmennt er á hana ár hvert. Aðventan er alltaf jafn heillandi og skemmtilegur tími og ekki síður gefandi.

Kvef

Þessi vika hefur verið mjög róleg hjá mér - enda hef ég verið heima nær alla vikuna. Hef verið að ná mér eftir slæmt kvef. Missti ég röddina vegna slæmrar sýkingar í hálsi og var ráðlagt að læknisráði að vera heima meðan það væri að ganga yfir. Er svona að koma allt stig af stigi. Ég er frekar þekktur fyrir það að vera harður af mér og því ekki vanur að slá slöku við þó veikindi sæki að. En það geri ég nú. Annars er merkilegt að vera heima við allan daginn og hafa ekkert fyrir stafni nema lesa bækur eða líta í tölvuna. Það er tilbreytingalaust líf - satt best að segja. En þetta er allt að koma. :)

Saga gærdagsins
1963 Lyndon Baines Johnson tók formlega við embætti forseta Bandaríkjanna, á fyrsta vinnudegi eftir morðið á John F. Kennedy - fyrsta verk Johnson var að skipa rannsóknarnefnd vegna morðsins.
1990 Íslenska alfræðiorðabókin kom út - umfangsmesta bókmenntarit í sögu íslenskra bókmennta.
1995 Björk Guðmundsdóttir var valin söngkona ársins 1995 af áhorfendum tónlistarstöðvarinnar MTV.
1997 Karl Sigurbjörnsson, fimmtugur prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík, var vígður biskup íslensku þjóðkirkjunnar. Karl sem hlotið hafði 58% atkvæða í biskupskjöri, tók við embætti af Ólafi Skúlasyni.
2003 Eduard Shevardnadze sagði af sér embætti forseta Georgíu eftir uppreisn andstöðunnar gegn stjórn landsins. Shevardnadze, sem hafði verið utanríkisráðherra Sovétríkjanna 1985-1990, hafði verið leiðtogi Georgíu í ellefu ár, allt frá árinu 1992. Eftirmaður hans á forsetastóli var Mikhail Saakashvili.

Saga dagsins
1963 Lee Harvey Oswald meintur morðingi Kennedy forseta, myrtur í Dallas - Oswald var skotinn af næturklúbbaeigandanum Jack Ruby í lögreglustöðinni í Dallas í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva er flytja átti hann í alríkisfangelsi Texas. Oswald lést síðar um daginn í Parkland sjúkrahúsinu, á sama stað og forsetinn var úrskurðaður látinn tveim dögum áður. Ruby upplýsti aldrei um tildrög morðsins.
1963 Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna, tilkynnir í ræðu í bandaríska þinginu um helstu áherslur stjórnar sinnar fram að forsetakosningunum 1964. Eitt aðalatriða í stefnunni var að herlið Bandaríkjanna í Víetnam skyldi styrkt til muna - stríðið leiddi til þess að hann varð sífellt óvinsælli. Hann ákvað að hætta sem forseti árið 1968 og gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakjöri það ár.
1989 Kommúnistastjórnin í Tékkóslóvakíu fellur með mildum hætti - bylting stjórnarandstöðuaflanna hefur jafnan verið kölluð flauelsbyltingin sökum þess hversu mildilega hún gekk fyrir sig á endanum.
1991 Freddie Mercury söngvari rokkhljómsveitarinnar Queen, lést úr alnæmi, 45 ára að aldri. Fráfall hans kom mjög óvænt, en aðeins degi áður en hann lést hafði verið tilkynnt formlega að hann væri HIV smitaður. Hann veiktist snögglega af lungnabólgu sem dró hann til dauða. Mercury varð einn af risum rokktónlistarinnar á 20. öld og markaði talsverð þáttaskil með hljómsveit sinni í sögu tónlistar.
1998 Elísabet drottning, tilkynnir um breytingar á starfsemi hinnar sögufrægu bresku lávarðadeildar.

Snjallyrðið
We will always remember. We will always be proud. We will always be prepared, so we will always be free.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)