Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 nóvember 2005

Sjálfstæðisflokkurinn

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram í dag og á morgun. Það stefnir allt í spennuþrungnasta prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni frá því árið 1981. Þá tókust Davíð Oddsson, Markús Örn Antonsson og Albert Guðmundsson á um leiðtogastólinn. Davíð vann naumlega og Markús Örn varð annar. Sem dæmi um hversu naumur sigurinn varð er að Davíð fékk 3948 atkvæði en Markús 3925. Það munaði því aðeins 24 atkvæðum að Markús Örn Antonsson hefði leitt framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1982. Allavega voru úrslitin söguleg - Davíð varð síðar formaður flokksins og forsætisráðherra, lengur en nokkur annar. Um leiðtogastól flokksins að þessu sinni, í komandi sveitarstjórnarkosningum þann 27. maí 2006, berjast þeir Gísli Marteinn Baldursson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Seinustu vikur hefur baráttan þeirra á milli tekið á sig ýmsar myndir og mikil spenna verið yfir vötnum hvað varðar úrslitin. Það er enda ekki óeðlilegt að áhugi sé á sigri í prófkjörinu og ekki síður úrslitum þessa prófkjörs fyrir áhugamenn um stjórnmál. Ef marka má nýlegar skoðananakannanir mælist Sjálfstæðisflokkurinn með um 60% fylgi í könnunum Gallups á fylgi flokkanna í borginni.

Um er því að ræða mesta fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í könnunum Gallups í einn og hálfan áratug - síðan í borgarstjóratíð Davíðs. Af því leiðir að sá sem sigrar prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um helgina verður næsti borgarstjóri í Reykjavík, ef marka má kannanir. Það er varla furða að tekist sé á um þann sess, það er eftir miklu að sækjast ef marka má kannanir og þetta nýja pólitíska landslag sem blasir við í borginni eftir endalok R-listans. Úrslit verða ljós annað kvöld, en áætlað er að fyrstu tölur í prófkjörinu liggi fyrir á sjöunda tímanum að kvöldi laugardags. Tölur verða eftir það birtar á hálftíma fresti þar til úrslit liggja endanlega fyrir. Stefnt er að því að úrslit séu alveg ljós fyrir miðnættið að kvöldi laugardags. Þá verður ljóst hver leiðir framboðslistann, verði semsagt borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í kosningunum, og hverjir verða í efstu sætum framboðslistans í kosningunum. Kosið er um níu efstu sætin - úrslitin verða bindandi hvað þau varðar. Annars fær uppstillinganefnd það verkefni eftir prófkjörið að velja á listann hvað varðar önnur sæti og gera hann kláran til samþykktar í fulltrúaráð flokksins. Það stefnir því aldeilis í spennandi tíma hjá flokknum og vonandi verður listinn vel mannaður.

Ef marka má fréttir í dag stefnir í sögulegt prófkjör, ekki bara hvað varðar úrslitin heldur þátttöku. Um 20.000 manns hafa gengið í flokkinn og hafa kjörgengi í prófkjörinu og ennfremur blasir við að kosningaþátttakan fari vel yfir 10.000 manns. Ánægjulegt verður ef eldra met um þátttöku í prófkjöri hjá flokknum í borginni verður slegið. Það var í prófkjörinu 2002 þegar að um 12.000 manns greiddu atkvæði. Stefnir allt í að það met falli nú. Mikil smölun virðist í flokkinn í prófkjörinu. Það er mikið gleðiefni að flokksmönnum fjölgi og ánægjulegt ef frambjóðendum tekst að tryggja það öfluga maskínu á bakvið framboð sín að þeir dragi til sín fólk sem gengur í flokkinn. Það er eðli prófkjöra að safna fólki inn í flokkinn - tryggja líf og fjör í framvarðasveit flokksins og efla innra starfið með meiri þátttöku og nýju fólki inn. Fyrst og fremst gleðst ég með það að flokksfélögum í borginni fjölgi. Hvað varðar úrslitin ítreka ég að ég voni að Gísli Marteinn vinni sigur í prófkjörinu. Svo vona ég ennfremur að ungliðum í framboði vegni vel. Svo má ekki gleyma að tryggja þarf konunum sem gáfu kost á sér góða og öfluga kosningu.

Fyrst og fremst vona ég að prófkjörið skili flokknum í borginni góðum og sigurstranglegum lista fólks sem tekur við völdum í borginni að vori.

David Blunkett

Það fór eins og ég spáði fyrr í vikunni. David Blunkett atvinnu- og lífeyrismálaráðherra Bretlands, varð að segja af sér vegna hneykslismálanna sem ég rakti í þeirri færslu. Staða hans var orðin vonlaus í byrjun vikunnar. Það staðfestist svo endanlega er leið fram að miðri viku að hann hafði brotið siðareglur og gat ekki með trúverðugum hætti haldið áfram í embætti. Tony Blair forsætisráðherra, varð að fórna þessum trygga bandamanni sínum. Blunkett baðst formlega lausnar að morgni miðvikudags. Sýnt var þá að Blair gæti ekki annað en skaðast með að hafa hann áfram í embættinu. Flestum þótti þó að Blair hefði varið Blunkett lengur en góðu hófi gegndi fyrir flokkinn í heild sinni. Trúverðugleiki forsætisráðherrans þótti hafa skaddast með því hversu mjög hann neitaði að horfast í augu við stöðu mála og afglöp Blunketts. Þegar þetta var orðið ljóst var honum fórnað. Það gerði Blair ekki með brosi á vör. Eins og ég rakti fyrr í vikunni hefur Blunkett verið einn tryggasti bandamaður Blairs - alltaf varið hann ötullega og haldið utan um hópinn. Nú er Blunkett búinn að missa öll sín pólitísku áhrif og að nýju orðinn óbreyttur þingmaður. Hann mun vart eiga sér endurkomu í ráðherrastól að þessu sinni.

Blair taldi sig eiga honum greiða að gjalda með því að taka hann aftur inn í vor, en nú má flestum verða ljóst að Blair þorir ekki að hygla þessum gamla bandamanni meira. Það sem meira er að völd Blair hafa skaddast með brotthvarfi Blunketts. Það er enginn vafi á því að Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur rétt fyrir sér þegar hann fullyrðir að Blair sé að missa tökin á Verkamannaflokknum. Áhrifastaða hans hefur allavega stórlega breyst. Hann hefur þegar tilkynnt að hann ætli sér ekki að leiða flokkinn að nýju í næstu kosningum en sitja út kjörtímabilið. Það má öllum vera ljóst að svo verður ekki. Hann mun hætta fyrr en síðar sem leiðtogi. Í þau átta ár sem Blair hefur verið forsætisráðherra gat hann lengst af farið sínu fram í ljósi gríðarlega öflugs þingmeirihluta og þurfti ekki í raun að taka tillit til vinstrisinnaðasta arms flokksins. Það breyttist með úrslitum þingkosninganna í maí, þegar að þingmeirihluti flokksins rýrnaði, fór úr 160 niður í tæp 70. Hann hefur síðan orðið að spila fleiri millileiki og venjast því að vera með brothættari meirihluta sem gæti leitt til þess að vissir þingmenn verði honum óþægur ljár í þúfu og leiki meiri sóló - staðan verði óútreiknanlegri og um leið auðvitað erfiðari viðfangs.

Enginn vafi er á því að Tony Blair hefur stefnt að því að slá met hinnar kraftmiklu járnfrúar, Margaret Thatcher, sem sat lengur á forsætisráðherraferli en aðrir í seinni tíma stjórnmálasögu. Vissulega getur Blair náð því, enda náði hann í vor kjöri á valdastól á kjörtímabil sem getur varað í allt að fimm ár. Ef hann situr til loka þess án þess að boða til kosninga áður hefur hann setið samfellt í þrettán ár og hefur þá náð að skáka frú Thatcher. Blair er ekki gamall maður, aðeins 52 ára - en er vissulega orðinn mjög pólitískt þreyttur og mæddur eftir áföll seinustu vikna. Fullyrða má að sú vika sem brátt er á enda hafi verið ein hans erfiðasta á átta ára forsætisráðherraferli. Líkurnar á því að hann sitji allavega tímabilið á enda fara ört minnkandi. Þreyta kjósenda og ekki síður flokksmanna með pólitíska forystu Blairs er orðin mjög greinileg. Vaktaskipti blasa því við á komandi árum. Breytingar eru framundan. Þrátt fyrir sögulegan sigur í vor og nokkurn áfanga þá stendur Blair á krossgötum - hann hefur misst Blunkett og hefur misst eldmóðinn sinn. Óneitanlega nálgast endastöðin hjá Tony Blair á pólitískum leikvangi.

Yitzhak Rabin

Ég mun aldrei gleyma laugardagskvöldinu 4. nóvember 1995. Það kvöld var rólegt á heimili mínu. Ég og þáverandi unnusta mín vorum að horfa á góða kvikmynd heima. Man þetta eins og gerst hafði í gær. Myndin var The Maltese Falcon með Humphrey Bogart - ógleymanleg eðalmynd. Þegar myndinni er lokið rúmlega um miðnættið skipti ég yfir á Stöð 2. Þar er þá nýlega hafinn aukafréttatími þar sem Sigmundur Ernir Rúnarsson situr í fréttasettinu alvarlegur á brá. Ég hef ekki horft á lengi þegar ég geri mér grein fyrir því hvert tilefni útsendingarinnar er. Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og leiðtogi ísraelska Verkamannaflokksins, hafði verið skotinn þrem skotum í návígi af tilræðismanni á útifundi um friðarmáli í höfuðborginni Tel Aviv, þrem klukkustundum áður. Hann hafði lifað sjálfa skotárásina af, en verið mjög illa á sig kominn og stórslasaður. Hann lést svo skömmu eftir komuna á sjúkrahús. Þetta var merkileg útsending. Gleymi ég henni ekki. Dagana á eftir var Rabin minnst um allan heim og hann var kvaddur við virðulega útför í Tel Aviv að viðstöddum fjölda leiðtoga og jarðsettur á tignarlegum stað í borginni. Rabin var að mínu mati merkilegur stjórnmálamaður - að honum var mikill sjónarsviptir.

John Lennon

John Lennon var sá maður sem setti að mínu mati eftirminnilegast mark á tónlistarsögu 20. aldarinnar. Hann og hljómsveit hans, The Beatles, slógu í gegn og unnu sér frægð fyrir ógleymanlega tónlist. Framlag Bítlanna og Lennon varð til þess að breyta gangi sögu tónlistarinnar - ekkert varð samt. Í síðasta mánuði, hinn 9. október, voru 65 ár liðin frá fæðingu Lennons. Einhverra hluta vegna gleymdi ég að fjalla um það. Er það merkilegt, enda hef ég lengi verið mikill unnandi tónlistar hans, sérstaklega áranna með Bítlunum og seinni hluta sólóferilsins. Lennon lifði ekki að komast á elliár - hann varð ekki 64 ára eins og sagði í frægu Bítlalagi. Hann var myrtur af geðsjúkum aðdáanda í byrjun desember árið 1980. Minningu hans er haldið hátt á lofti um allan heim - þó langt sé orðið um liðið frá dauða hans. Í gærkvöldi hlustaði ég enn einu sinni á síðasta meistaraverk hans, Double Fantasy. Þegar hlustað er á þá plötu verður manni ósjálfrátt hugsað til þessa merka tónlistarmanns og hversu margt hann hefði getað áorkað ef hann hefði lifað lengur. Eitt er þó ljóst - ævistarf hans verður lengi í minnum haft.

Derrick

Hef seinustu dagana verið að rifja upp kynni mín af einum besta spennuþætti seinustu áratuga - Derrick. Þættirnir, sem voru þýskir, fjölluðu um lögregluforingjann Stephan Derrick og aðstoðarmann hans, Harry Klein, sem leystu sakamál í München í Bæjaralandi. Þættirnir um Derrick voru alveg frábærir - þeir allavega eiga fastan sess í huga mínum. Maður ólst enda upp með þessum þáttum. Þeir eru vinsælustu framhaldsþættir sem Þjóðverjar hafa gert. Þættirnir voru á dagskrá í tæpan hálfan þriðja áratug, á árunum 1974-1998. Horst Tappert er mjög eftirminnilegur í hlutverki nafna míns, Stefáns Derricks. Allavega eðalþættir - ég er svo heppinn að eiga nokkra þætti á spólu sem ég horfi stundum á. Fjarri því eru þetta bestu þættirnir - en Derrick var alltaf góður og fáir voru betri á þessu sviði. Þættirnir voru enda þeirrar gerðar að þeir voru ekki að stæla um of bandaríska þætti svipaðrar gerðar - farið var eigin leiðir. Allavega, Derrick var vinsæll hér sem og í flestum af þeim rúmlega 100 löndum þar sem þeir voru sýndir. Hann átti dygga aðdáendur um allan heim. Sem er varla undrunarefni - enda þættirnir fyrsta flokks.

SUS

Ég hef tekið við ritstjórn heimasíðu SUS ásamt góðvini mínum, Gunnari Ragnari Jónssyni. Er þetta spennandi verkefni - vissulega mjög krefjandi - en virkilega spennandi sem áhugavert verður að takast á við. Vefur SUS er vettvangur allra ungra sjálfstæðismanna - þar geta þeir skrifað og hvet ég alla ungliða sem áhuga hafa á að skrifa að hafa samband við mig. Netfangið mitt er stebbifr@simnet.is. Með okkur í ritstjórn er góður hópur fólks. Það eru: Gunnar Dofri Ólafsson, Höskuldur Marselíusarson, Jarþrúður Ásmundsdóttir, Kári Allansson og Margrét Elín Arnarsdóttir. Verður þetta áhugavert samstarf sem mér hlakkar mjög til. Við ætlum að vinna vel saman í vetur og stjórna kraftmiklum og góðum vef.

Saga gærdagsins
1660 Kötlugos hófst með langvaranlegum jarðskjálfta og jökulhlaupi - eitt af stærstu Kötlugosunum.
1964 Lyndon Baines Johnson kjörinn forseti Bandaríkjanna - vann öruggan sigur á Barry Goldwater. Johnson hlaut 486 kjörmenn og vann stærsta kosningasigur sem nokkur kjörinn forseti hafði náð fram að þeim tíma. Johnson var þá þaulreyndur stjórnmálamaður - hann sat í fulltrúadeildinni 1937-1949 og öldungadeildinni 1949-1961. Hann var svo kjörinn varaforseti Bandaríkjanna í nóvember 1960. Johnson varð forseti Bandaríkjanna, þann 22. nóvember 1963, er John F. Kennedy forseti, var myrtur í Dallas í Texas. Johnson gaf ekki kost á sér í forsetakosningunum 1968 vegna andstöðu almennings við stefnu hans í Víetnamsstríðinu - Lyndon B. Johnson varð bráðkvaddur á búgarði sínum í Texas í janúar 1973.
1968 Alþýðubandalagið formlega stofnað sem stjórnmálaflokkur - hann bauð síðast fram árið 1995.
1976 Jimmy Carter fyrrum ríkisstjóri í Georgíu, kjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnum kosningum þar sem Gerald Ford sitjandi forseti, beið ósigur - Ford hafði setið sem forseti allt frá afsögn Nixons.
2004 George W. Bush endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnni valdabaráttu þar sem nokkur fylki réðu að lokum úrslitum - John Kerry viðurkenndi ósigur sinn, eftir að ljóst varð að hann hafði tapað í Ohio. Án sigurs þar varð ljóst að Bush hefði náð endurkjöri. Bush hlaut hreinan meirihluta greiddra atkvæða, fyrstur forseta í 16 ár. Hann hlaut 51% atkvæða og 286 kjörmenn. Kerry hlaut 252.

Saga dagsins
1942 Áhöfn Brúarfoss bjargaði 44 skipbrotsmönnum af enska skipinu Daleby, sem hafði verið sökkt.
1956 Yfirvöld í Sovétríkjunum ráðast inn í Ungverjaland og fella stjórn landsins sem reynt hafði að færa stjórnarfar þess í átt til lýðræðis, sem var einum of mikið fyrir sovésk yfirvöld að sætta sig við.
1980 Ronald Reagan ríkisstjóri í Kaliforníu, kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann var 69 ára er hann náði kjöri og því elstur þeirra sem kjörinn hafði verið á forsetastól í landinu. Hann sat í embætti í tvö kjörtímabil og varð einn af vinsælustu leiðtogum í sögu landsins. Reagan forseti, lést 5. júní 2004.
1992 Bill Clinton ríkisstjóri í Arkansas, kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann felldi George H. W. Bush sitjandi forseta, af valdastóli. Clinton forseti, sat í embætti í tvö kjörtímabil, eða allt til ársins 2001.
1995 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels, skotinn til bana á útifundi í Tel Aviv. Framlag hans til friðar í Mið Austurlöndum kostaði hann lífið, en öfgasinnaður maður skaut hann til að hefna fyrir friðarsamkomulagið við Palestínumenn. Þjóðarsorg ríkti í Ísrael vegna andláts forsætisráðherrans. Þjóðarleiðtogar um allan heim fylgdu Rabin til grafar - friðarferlið fór af sporinu eftir dauða Rabins.

Snjallyrðið
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)