Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 janúar 2006

Stefán Friðrik

Aðalfréttin hér nyrðra eru fregnir af stofnun nýs skipafélags hér á Akureyri sem ber heitið Byr. Mun því ætlað að veita reglubundna þjónustu milli Akureyrar og hafna víðsvegar í Evrópu. Stjórnarformaður félagsins sem heitir Tommy Bönsnæs mun halda stutta kynningu á félaginu og áformum þess í dag á Hótel KEA klukkan 16:00. Mun skipafélagið hafa í hyggju að taka á leigu fimm til sex þúsund tonna gámaflutningaskip sem flutt getur á bilinu fjögur til fimm hundruð gáma í senn. Ætlunin er að halda yfirbyggingu félagsins í lágmarki til að geta tryggt lág flutningsgjöld. Er þess gætt í hvívetna að félagið hafi fjárhagslega burði til að halda úti skiparekstri með litlum tekjum fyrstu árin. Áfangastaðir félagsins erlendis verða eins og staðan er núna í Þýskalandi, Danmörku og Bretlandi. Jafnvel er íhugað að fara víðar. Til að byrja með ætla þeir hjá Byr að sigla tvisvar í mánuði á milli allra áfangastaðanna. Eins og fyrr segir mun skipafélagið hafa höfuðstöðvar sínar hér á Akureyri. Ég vil óska aðstandendum Byrs góðs gengis og fagna tilkomu skipafélagsins.

Fyrir viku kom nýr Vikudagur út fyrsta sinni í eigu nýrra aðila og undir ritstjórn Kristjáns Kristjánssonar. Tóku nýir aðilar reksturinn yfir milli jóla og nýárs og Kristján ráðinn sem ritstjóri. Kristján er reyndur fjölmiðlamaður: var fréttastjóri Dags til fjölda ára og síðasta áratuginn verið blaðamaður Moggans hér í bæ. Fyrri eigandi blaðsins, Hjörleifur Hallgríms, stofnaði Vikudag fyrir tæpum áratug, árið 1997, og stýrði því þar til eigendaskiptin urðu. Þó að ekki hafi ég alla tíð verið sammála Hjörleifi og stefnu hans við stjórn blaðsins á hann auðvitað hrós skilið fyrir að hafa haldið blaðinu úti svo lengi sem raun ber vitni. Vikudagur er gott fréttablað og nauðsynlegt okkur sem viljum fá fréttir og umfjöllun í heimabyggð. Ég hef alltaf saknað gamla Dags - þó að það hafi auðvitað verið óttalegt framsóknarblað færði það okkur fréttir og viðtöl úr heimabyggð. Það er jú efni sem við metum mikils og viljum fá. Ég vil því óska nýjum eigendum Vikudags góðs gengis!

Hef verið að lesa bókina Tími nornarinnar eftir Árna Þórarinsson. Ég fékk því miður bókina ekki í jólagjöf eins og ég hafði óskað eftir. Góð vinkona mín og spjallfélagi um pólitík lánaði mér bókina - vil ég þakka henni kærlega fyrir það góðverk sitt. Bókin var alveg virkilega góð - skemmtilegur krimmi sagður frá sjónarhóli blaðamanns dagblaðs sem staðsettur er hér á Akureyri. Sögusvið bókarinnar er að mestu leyti hér á Akureyri. Hafði ég gaman af lestri bókarinnar. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu vel Árni hafði sett sig inn í "akureysk" málefni. Hann er með alla staðhætti á hreinu og talar málið eins og hann væri á staðnum. Góð bók hjá Árna sem ég hvet alla áhugamenn um spennusögur að lesa. Mér fannst þó skondið að sjá lýsingar hans á málefnum Akureyrar og Reyðarfjarðar, en bókin er að hluta staðsett þar líka. Skemmtilegar tengingar og spennandi atburðarás sem fléttist vel saman undir lokin.

Gat ekki annað en hlegið í gærkvöldi er ég horfði á Strákana á Stöð 2. Þar var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, gestur Sveppa, Audda og Péturs Jóhanns. Ógeðsdrykkurinn er ekki lengur við lýði en húmorinn er enn til staðar. Forsætisráðherrann reyndi að vera skondinn og ógisslega skemmtilegur er hann tók af sér bindið og var á skyrtunni hjá skopfélögunum. Undir lokin var hann svo kominn í náttfötin og upp í rúm hjá Strákunum. Sennilega er Halldór fyrsti forsætisráðherra sögunnar sem kemur fram á náttfötunum. Það var allavega skondið í gær að sjá einn flokksleiðtoga með blaðamannafund í rúminu og annan að sprella í rúminu með skopfélögunum á Stöð 2. Eru kosningar í nánd - Halldór minn? :)

Endilega hafið samband - netfangið er: stebbifr@simnet.is