Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 mars 2006

Húsfreyjan á Lómatjörn alveg úti á túni

Valgerður Sverrisdóttir

Valgerður Sverrisdóttir varð viðskiptaráðherra á gamlársdag 1999. Hún var þá enginn nýgræðingur á sviði stjórnmála, hafði enda setið á þingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra í tólf ár, allt frá árinu 1987. Hún varð leiðtogi Framsóknarflokksins í NE í kosningunum 1999 og leiddi hann svo í hinu nýja Norðausturkjördæmi árið 2003. Valgerður hefur því setið á þingi í 19 ár og verið ráðherra í rúm sex ár og stefnir í að verða þaulsetnasti viðskiptaráðherra landsins sitji hún kjörtímabilið á enda. Hún hefur verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis á þessu fyrsta kjörtímabili í hinu stóra kjördæmi og verið umdeild hér á tímabilinu, þó að Framsókn hafi unnið sigur í seinustu kosningum og náð fjórum af tíu þingmönnum kjördæmisins þá. Ástæða þess að Valgerður varð viðskiptaráðherra hafði þó ekkert með það að gera að hún væri sérfræðingur í málefnum viðskipta eða iðnaðar - heldur betur fjarri því.

Valgerður varð viðskiptaráðherra vegna þess að hún var á ráðherrabiðlista Framsóknar eftir kosningarnar 1999. Eins og eflaust flestir muna átti upphaflega að setja Pál Pétursson út úr ráðherraliði flokksins eftir þær kosningar en hann vildi ekki fara og samið um að hann færi á miðju tímabilinu. Samkomulag tókst um að Siv yrði umhverfisráðherra en að Valgerður, sem þá var formaður þingflokksins, biði eftir að Páll hætti, væntanlega á árinu 2000 og yrði þá félagsmálaráðherra. Svo fór, mörgum að óvörum, að viðskiptaráðherrann Finnur, sem talinn hafði verið krónprins Halldórs úr flokknum hætti í pólitík og fór í Seðlabankan. Niðurstaðan: Valgerður tók við ráðuneytum hans. Margir hafa oft furðað sig á því að Valgerður sé ráðherra í þessum ráðuneytum. Sé litið yfir feril Valgerðar er enda fátt sem fær fólk til að verða fullvíst um að hún hafi sérfræðiþekkingu á málaflokknum. Enda eitthvað allt annað sem réði því að hún fór þangað.

Valgerður hefur frá árinu 1974 verið bóndi á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi, er faðir hennar hætti þar búskap. Sé litið yfir feril hennar má greinilega sjá að hún er sannkölluð kjarnakona og afrekað mjög miklu. Það má líka segja með sanni að Valla hefur verið ákveðin og sótt fram af krafti á sínum ferli og unnið sig upp í flokksstarfinu. Hún er ekki þæg slæðukona sem hefur verið hafin upp til skýjanna á þann stall sem hún er á. Hún hefur verið lengi í pólitík og unnið sig markvisst upp, eins og allir sjá sem kynna sér verk hennar. En hinsvegar gerist það oft að hinn almenni áhugamaður um stjórnmál verður hugsi yfir því sem Valgerður gerir og segir sem ráðherra málaflokkanna sem hún sinnir. Gott dæmi þótti mér vera tíðindi gærdagsins. Valgerður ritaði í gær pistil á vef sinn þar sem að hún veltir því fyrir sér hvort að Ísland gæti tekið upp evruna og gengið í myntbandalag Evrópu, án þess að ganga í Evrópusambandið. Segir hún það mögulegt.

Ég las þennan pistil í gær og eftir þann lestur varð mér að orði hvort að viðskiptaráðherra Íslands væri alveg komin á tún í verkum sínum. Það er eiginlega fyrir neðan allt að viðskiptaráðherra í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn láti svona óábyrgt hjal frá sér fara að mínu mati. Ég veit að Valgerður hefur verið mikill ESB-sinni seinustu árin, þótt bóndi í Höfðahverfi sé, og hún hefur tekið upp allt tal Halldórs með mjög afgerandi hætti. Enginn vafi leikur á því að hún ómar skoðanir Halldórs í þessu máli sem öðru, enda vita allir að þau eru mjög náin í pólitísku samstarfi og tali Valgerður með afgerandi hætti má vera viss um að hún sé að tala máli hans og ómi skoðanir þær sem hann hefur sjálfur dálæti á. Eins og við má búast var þessum pistli tekið sem óraunhæfu hjali og í raun óábyrgu hjá viðskiptaráðherranum. Það sást best í viðtali við Tryggva Þór Herbertsson forstöðumann Hagfræðistofnunar HÍ á NFS í gærkvöldi.

Í sama fréttatíma reyndi Svavar Halldórsson fréttamaður, að ná tali af Valgerði um þetta mál fyrir utan þinghúsið. Mikill flóttasvipur var á Valgerði við það tækifæri og hún svaraði með alveg kostulegum hætti því að það væri ekkert óeðlilegt að fabúlera svona um stöðu mála og láta svona skoðanir og skrif frá sér fara. Greinilegt var að hún væri kominn á harðasprett frá skrifunum og reyna að eyða hjalinu sem mest hún mátti. Skiljanlegt er það, enda er þessi pistill og þessi skoðun alveg óraunhæft hjal og í raun fyrir neðan allar hellur að viðskiptaráðherra þjóðarinnar láti slíka vitleysu frá sér fara. Auðvitað sjá allir menn sem vilja líta raunhæft á málin að Evrópusambandsaðild er forsenda þess að taka upp evruna.

Hvorugt er að mínu mati gjöfult við þessar aðstæður og þetta því tómt mál um að tala hvað mig varðar. Enda er skiljanlegt að flóttasvipur sé kominn á ráðherrann. Enda er tal hennar algjörlega úti á túni sýnist mér. Það er greinilegt að hún er komin á flótta frá skrifunum á vefnum og raunar veitti ekki af því að góðir menn og skynsamir taki að sér að fræða ráðherra viðskiptamála um grunnstöðu málanna svo hún geti skrifað með raunhæfum hætti um lykilmál í verkahring hennar á vef sínum.