Leyniskyttumorðin í Washington árið 2002
Tæp fjögur ár eru liðin frá því að íbúar Washington-borgar í Bandaríkjunum óttuðust svo um líf sitt að þeir lokuðu sig inni að mestu og héldu kyrru fyrir. Í október 2002 var skelfing og ótti yfir borginni og íbúarnir vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Leyniskytta hélt öllum í borginni í raun í gíslingu. Morðin fóru þannig fram að skotið var úr skotti bifreiðar, þar sem borað hafði verið gat á farangursgeymsluna og var því fólk algjörlega grunlaust og átti sér einskis ills von. Áður en yfir lauk féllu tíu manneskjur í valinn. Fyrsta morðið var framið að kvöldi 2. október 2002 er 55 ára karlmaður var skotinn til bana fyrir utan stórmarkað í Maryland. Daginn eftir voru fimm manneskjur drepnar, þar af fjórar þeirra á tveggja klukkustunda bili. Skelfingin var undir lok orðin slík að Washington minnti að mestu á draugaborg þar sem fáir voru á ferli.
Ég gleymi aldrei fréttaflutningi af þessu máli. Það var skelfilegt að sjá hversu útpæld þessi fjöldamorð voru og þeim var ekki beint að minnihlutahópum frekar en öðrum. Fólk af öllum kynþáttum og uppruna féllu í valinn. Strax í upphafi var því hægt að gleyma því að kortleggja þessi fjöldamorð sem árás á minnihlutahópa, enda var hvítt fólk alveg eins fellt og blökkufólk. Um fátt var meira fjallað í bandarískum fjölmiðlum um miðjan október en þetta mál og skelfing íbúanna í Washington vakti athygli fólks um allan heim. Charles A. Moose lögregluforingi í Montgomery-umdæmi í Maryland, varð heimsfrægur á einni nóttu en hann varð talsmaður rannsóknar málsins og tákngervingur leitarinnar að morðingjanum. Undir lokin hélt hann orðið marga blaðamannafundi á dag og fólk fylgdist skelfingu lostið, jafnt í Washington sem hér á Íslandi, með rannsókninni - og sífellt færðist Moose og hans fólk nær lausninni.
Það var svo loksins þann 24. október 2002 sem skelfingunni lauk. Þann dag voru John Allen Muhammad, 42 ára, og Lee Boyd Malvo, 17 ára, handteknir þar sem þeir voru sofandi í bíl sínum á borgarsvæðinu. Við leit í bílnum fannst skotvopn, veiðiriffill, og borað gat á skott bílsins þar sem þeir gátu skriðið inn í að innanverðu til að skjóta um lítið gat sem þeir höfðu útbúið. Hafði bíllinn því verið útbúinn með þeim hætti að hægt var að skjóta á fólk án þess að á nokkru myndi bera. Muhammad var talinn hafa myrt alla tíu einstaklingana en ekki lék vafi á því að Malvo hafði tekið fullan þátt í þeim og orðið heilaþveginn af Muhammad sem hann leit upp til sem föðurímyndar. Hann hafði um skeið búið með móður Malvos og náð til hans með slíkum hætti að þeir urðu sem einn maður. Fóru þeir fyrir dóm og lauk málaferlum með þeim hætti að Muhammad var dæmdur til dauða en Malvo í lífstíðarfangelsi.
Muhammad hefur enn ekki verið líflátinn fyrir morðin tíu, enda bíður hann dóms fyrir morðtilræði og morð í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Muhammad var dæmdur beint til dauða upphaflega fyrir morðið á blökkumanninum Dean Harold Meyers við bensínstöð í Virginíu. Malvo, byggði vörn sína upp á því að hann hefði orðið saklaust peð í leik Muhammad og hann hafi dýrkað hann og orðið blindaður af bæði persónulegri ást á honum og ekki síður markmiðum hans. Það hefur enda blasað við að Muhammad hafi fyllt Malvo af lyfjum og haft tangarhald á honum. Malvo bíður enn dóms í öðru fylki fyrir morðtilræði en hann var sakfelldur upphaflega fyrir að hafa þann 14. október 2002 myrt að yfirlögðu ráði alríkislögreglukonuna Lindu Franklin fyrir utan verslun í Virginíu. Þeir bíða enn báðir þess að dómsniðurstöður verði skýrar í málum þeirra en talið er líklegt að Muhammad verði líflátinn fyrir lok ársins.
Í gærkvöldi var sýnd mjög fróðleg og vönduð leikin kvikmynd, D.C. Sniper: 23 Days of Fear, á Stöð 2 um þessa atburði. Var að mörgu mjög athyglisvert að sjá uppsetningu þessara voðaverknaða setta upp í kvikmyndaform. Myndin var vel leikin og sérstaklega fannst mér Charles S. Dutton fara vel með hlutverk Moose lögregluforingja, en kænska hans og útsjónarsemi leiddu til þess að morðingjarnir fundust mun fyrr en ella hefði væntanlega orðið. Vissulega er sagan af þessum voðaverkum á höfuðborgarsvæðinu í Maryland-fylki skelfileg en hún er þó gott dæmi um það hvernig að vitfirring getur leitt til voðaverka og ógnvænlegra viðburða. Þeir sem upplifðu fréttir af þessu máli fyrir fjórum árum hafa væntanlega orðið sammála mér í því að þessi mynd sé mjög sagnfræðilega rétt uppbyggð og vel gerð að öllu leyti.
Eftir lausn málsins skrifðu Moose og Charles Marshall vandaða bók og samantekt um þetta mál allt. Ber bókin nafnið Three Weeks in October. Ég keypti mér hana nýlega og las og hvet alla aðra til að gera það. Það er enda engu líkt að lesa sjónarhorn Moose á málinu og kemur grunnur þeirrar sögu fram í þessari kvikmynd sem fyrr er nefnd.
Samantekt um málið
<< Heim