Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 maí 2006

Glæsilegur sigur Finna í Eurovision

Lordi fagnar sigrinum

Finnar komu, sáu og sigruðu í Eurovision 2006. Sigur Finnanna í Lordi var verðskuldaður og var vel fagnað á Grænugötunni í gærkvöldi í góðu Eurovision-partýi sem ég var í hjá Hönnu systur. Þar vorum við öll og horfðum á keppnina saman. Ég hélt með Finnum alla keppnina og vildi sigur þeirra - lagið þeirra var einfaldlega langbest og flottast. Einfalt mál. Hanna hélt með Carolu rétt eins og fyrir 15 árum þegar að hún vann með laginu Fangad av en Stormvind. Mér finnst lítið breytt síðan þá - hún var enn með vindinn í fangið og sömu danstaktana og árið 1991 þegar að hún sigraði Nínu okkar. En Carola er alltaf flott og lagið hennar er fínt - en ekki sigurlag þetta árið þó. Stelpurnar héldu svo allar með Rússunum og honum Diman Bilan sem var með fjári gott lag og söng sig inn í annað sætið með glæsibrag og liðugum töktum. Pabbi hélt með ballöðuíranum - hversvegna veit ég ekki. Held að hann hafi ekki þorað að viðurkenna að Finnarnir væru flottastir. :)

Sigur Finna er sögulegur - svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eftir 45 ára dapurlega göngu í keppninni og rýran hlut var komið að sigurstund Finnlands. Landið hafði aldrei áður komist efst í keppninni í stigatalningu og auðvitað aldrei komist inn á topp fimm í keppninni. Það er svo auðvitað mikil tíðindi að harðkjarnarokk sigri Eurovision. Allir sem hlusta á Lordi og lagið Hard Rock Hallelujah finna taktinn og stuðið - þetta er ekta þungarokk og afturhvarf til gullaldaráranna í harða rokkinu. Fyrir keppnina töldu Finnar Lordi vera þeim til skammar og talað var um að hann yrði að stöðva í því að fara til Aþenu. Nú hefur Lordi fært Finnum gullinn sigur í Eurovision og verður án efa hylltur sem sigurhetja þegar að hann kemur heim. Sigur Finna var ótrúlega glæsilegur. Þeir hlutu 292 stig og leiddu mest alla talninguna. Fjörutíu stigum á eftir komu Rússar, neðar voru Bosnía-Herzegóvína, Rúmenía og Svíþjóð.

Það var auðvitað alveg kostulegt að Litháenarnir í LT United skyldu verða í sjötta sæti með lagið We are the Winners. Lagið var skemmtilega kómískt og gaman af því og árangur þeirra mjög óvæntur. Lordi fékk 100 stigum meira en Carola. Það kemur mjög óvænt. Ég taldi fyrirfram að Carola myndi aldrei enda neðar en í þriðja. Það er spurning hvort að Carola hafi haldið of sigurviss til Grikklands. Annars var útsendingin í gærkvöldi mjög skemmtileg og Grikkirnir stóðu sig vel varðandi alla tæknihlið. Sigmar Guðmundsson stóð sig vel sem kynnir keppninnar og fetaði í fótspor Gísla Marteins Baldurssonar. Það getur enginn gert þetta eins vel og Gísli - sem kynnti keppnina með glans í mörg ár og hafði markað sér sess sem slíkur. Sigmar var með netta og flotta brandara og hafði greinilega búið sig vel upp af gamanmáli áður en haldið var af stað í útsendingu.

Eftir er þá sagan af Silvíu Nótt. Eins og allir vita náði hún ekki að komast alla leið. Það fór eins og fór hjá henni vegna hroka og yfirlætis sem engin innistæða var fyrir. Í upphafi var Silvía Nótt ágætis karakter og lagið fínt. Karakterinn hélt áfram að þróast og ekki til góða. Undir lokin var þetta orðin sorgarsaga og hún gekk endanlega frá öllu sem hét sigurmöguleikar með framkomu sinni ytra dagana sem hún dvaldi þar vegna keppninnar. Að mörgu leyti var leitt að sjá hvernig að hún eyðilagði fyrir sjálfri. Það er einsdæmi að púað sé á keppanda fyrir og eftir flutning en það henti Silvíu Nótt. Það er engin furða að þetta fór svona - ég varð allavega ekki hissa á gengi Silvíu. Ég varð hissa í fyrra þegar að Selma komst óverðskuldað ekki áfram en nú var ég ekki til hissa. Silvía Nótt eyðilagði fyrir sér þá daga sem hún dvaldi í Aþenu fyrir keppnina með framkomu sinni.

En Finnar tóku þetta með glans og þeir áttu sigurinn svo sannarlega skilið. Það verður fjör í Helsinki að ári þegar að keppnin verður haldin þar í fyrsta skipti.