Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 júlí 2006

Hættum að snuðra í einkamál annarra

Snuðrað

Í dag fá landsmenn allir sendan heim til sín álagningarseðil, þar sem kemur fram álagning ársins og upplýsingar um skattaskuldir, eða endurgreiðslur, ef um þær er að ræða í þessum tilfellum. Geta allir farið á skattstofur frá og með deginum í dag gagngert til að kynna sér hvað annað fólk borgar í skatta og hnýsast með því í einkalíf fólks með þeim hætti. Auk þess getur það rýnt í tekjublað Frjálsrar verslunar sem kemur út samhliða þessu og er til sölu í búðum á meðan að heimilt er að birta álagningarskrárnar. Ef marka má mikla sölu á blaðinu seinustu árin finnst mörgum það sennilega kræsilegra að kaupa blaðið og svala því forvitninni heima í stofu frekar en að setjast á skattstofuna og fletta gögnunum þar.

Hefur það alltaf verið skoðun mín að þetta eigi ekki að vera með þessum hætti og ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega eða leyfa opinbera birtingu þessara gagna með þessum hætti. Það hefur verið afgerandi skoðun Sambands ungra sjálfstæðismanna. Nú sem fyrr minnir SUS á andstöðu sína við birtingu álagningarskránna með áberandi hætti. Í dag fóru SUS-arar í afgreiðslu Skattstjórans í Reykjavík og stóðu fyrir aðgerðum sem miðuðu að því að vernda þessar viðkvæmu persónuupplýsingar sem yfirvöld heimta af almenningi, vinna síðan úr og leggja að lokum til sýnis fyrir alla landsmenn. Þetta er að okkar mati sannkallaður ósómi. Um er enda að ræða persónuupplýsingar sem snerta einkahagi fólksins í landinu.

Sl. vetur var lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu fólst sérstaklega að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna skyldi með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður og fyrrum formaður SUS, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu voru fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Við í SUS höfum að sjálfsögðu verið mjög afgerandi stuðningsmenn þessa frumvarps og minnum því vel á skoðanir okkar í dag. Það er enda nauðsynlegt að afstaða okkar sé áberandi bæði í orði sem og í verki.

Rökin að baki þessari skoðun okkar í Sjálfstæðisflokknum og SUS að vilja breyta þessu eru allnokkrar en þó ber að sjálfsögðu helst að nefna þann veigamikla þátt birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Að mínu mati eru fjárhagsmálefni einstaklinga án nokkurs vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari. Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengst hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Það hefur lengi verið skondið að sjá hvernig að vinstrimenn hafa snúist til varnar þessu úrelta fyrirkomulagi, t.d. í þingumræðum. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn frumvarpi sjálfstæðisþingmannanna og skoðunum okkar SUS-ara og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík. Þessir gamaldags vinstrimenn ættu að taka af sér hofmóðugu gleraugun og horfa fram fyrir sig án þeirra. Það gæti orðið þeim gæfuleg ákvörðun. Ekki veitir þeim af að hugsa málið frá öðrum forsendum og frá öðrum grunni beint.

Það er enda svo að mínu mati og okkar ungliðanna að við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað maðurinn í næsta húsi eða fólk sem við sjáum jafnvel í Séð og heyrt eða í öðrum fjölmiðlum (fræga og ríka fólkið eins og það er oft kallað) eru með í laun. Það er því verðugt verkefni okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega okkar ungra sjálfstæðismanna, að benda á skoðanir okkar og það hefur tekist vel til að þessu sinni, sem og svo oftar áður.

Það á enda að mínu mati varla að koma fólki úti í bæ við hvað Jóhannes Jónsson, verkamaður á Eyrinni, nú eða Jóhannes Jónsson, athafnamaður og forstjóri á Brekkunni, er með í laun og borgar í skatta. Það á aðeins að vera málefni viðkomandi aðila. Eða hvað segirðu annars lesandi góður? Ertu ekki sammála mér?

Grein á vef SUS - 28. júlí 2006