Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 ágúst 2006

Hugleiðingar við lok "fjölskylduhátíðar"

Akureyri

Það er langt liðið á mánudagskvöld og verslunarmannahelgin sögufræga er liðin enn eitt árið. Ég sit hér heima seint um kvöld og blogga hér í stofunni heima hjá mér og horfi á rökkrið úti, sem er enn einn vitnisburður þess að sumri tekur brátt að halla. Það er óhætt að segja að þessi helgi hafi verið nokkuð söguleg fyrir Akureyri. Mannfjöldamet var slegið hér um helgina - í bænum voru um 20.000 manns gestkomandi og niðurstaðan því fjölmennasta útihátíð um verslunarmannahelgina til þessa. Við hér á Akureyri getum vissulega verið stolt af því að fólk vilji koma til Akureyrar og kynna sér bæjarbraginn hér og skemmta sér - það er alltaf gott að fá fjölskyldufólk hingað í sumarfríinu. Margir sem hingað komu um helgina voru að skemmta sér og voru með fjölskylduna sína og höfðu gaman af lífinu og tilverunni.

En það eru skuggahliðar á flestöllum skemmtunum. Þegar að ég var yngri var hér útihátíðin Halló Akureyri um verslunarmannahelgi og allir sem upplifðu hana kenna hana við sukk og svínarí af flestu tagi. Ég var einn þeirra sem fékk mér í glas á þeirri skemmtun og hafði gaman af lífinu og tilverunni, hef því verið ungur og hress. Það er enda vissulega fátt skemmtilegra þegar að maður er yngri en að sletta úr klaufunum og hafa gaman af því að lifa - í huga ungs fólks á þessum aldri snýst allt um að lifa hátt. Það vita allir sem hafa verið unglingar. Ég get þó ekki neitað því að Halló Akureyri fór full hátt og við græddum lítið nema illt umtal og leiðindi á þeim strúktúr að hátíð sem þá var. Svo fór enda að menn viku að braut hátíðar af því tagi og tekið var upp annað og fjölskylduvænna form.

Seinustu árin hefur því fjölskylduhátíðin Ein með öllu verið hér í bænum og þeir vankantar sem fylgdu Halló Akureyri voru sniðnir af einn af öðrum. Eftir stóð betri hátíð, hátíð fjölskyldunnar, sem við gátum verið meira stolt af. Í fyrra fannst mér hátíðin fara virkilega vel fram og ég var stoltur af þeim sem héldu utan um hátíðina og t.d. gladdist ég mjög með að menn leystu eilífðarvandamálið með tjaldsvæðið hér í götunni en það var orðin hefð að þessa helgi vall þar yfir rusl og ósómi. Tekið var annars til hendinni: lögreglan var styrkt, dagskráin fjölskyldulegri og stuðningshópar fengu sess í skipulagningunni. Ég held að bæjarbúar hafi sjaldnar verið sáttari við hlutina en eftir hátíðina í fyrra, þá var umtalið gott og við töldum okkur hafa fundið hið rétta form.

Nú þegar að þessi helgi er liðin stöndum við frammi fyrir nokkuð áleitnum spurningum - við verðum að spyrja okkur hvað sé að gerast í raun og veru? Höfum við eitthvað sofnað á verðinum? Höfum við aftur fengið á okkur sukkstimpilinn sem fylgdi Halló Akureyri? Erum við að sigla í sömu átt og við reyndum að forðast áður? Mér fannst sukkið hér um helgina fara yfir allt: ég hef oft verið á ferð í bænum og skemmtistöðunum en aldrei séð aðra eins óreglu og ólifnað (sérstaklega á mjög ungu fólki) eins og þá blasti við. Ungmennadrykkjan var óhófleg og fór yfir öll fyrri mörk. Það er eiginlega varla hægt að tala um fjölskylduhátíð finnst mér. Þegar að við horfum á aðra eins unglingadrykkju, nauðgunartilraunir, fjölda eiturlyfjamála og óhófleg skemmdarverk á eigum bæjarbúa verðum við að hugsa hlutina upp á nýtt.

Ég er enginn dýrlingur svosem en ég get sagt frá hlutunum eins og þeir blasa við mér. Ég spyr mig margra spurninga eftir þessa hátíð. Ég varð vitni að ýmsum slagsmálum um helgina og undraðist hörkuna í sumum. Slysadeildin fylltist og þar varð meira að segja að hafa gæslu til að vernda starfsfólkið fyrir drukknum ólótaseggjum sem komnir voru þar til að gera að sárum sínum eftir átök í ölæði og sukki. Þegar að ég kom heim seint um eina helgarnóttina voru hörkuslagsmál hér rétt hjá heimili mínu í Þórunnarstrætinu. Það var ekki fjarri sanni að maður héldi að maður væri kominn í Kínahverfið þar sem slagsmál og ósómi eru daglegt brauð. Fíkniefnamálin eru skelfilega mörg, svo mörg að maður hreinlega verður að hugsa um á hvaða leið við séum.

Ég hitti útlend hjón á ferðalagi í bænum í versluninni við Byggðaveg, en ég fór þangað til að versla mér inn það sem vantaði með grillsteikinni í gær. Við áttum langt spjall inni í búðinni. Þau komu frá Þýskalandi og voru mjög hugsi. Þau spurðu mig að fyrra bragði um hvort að útihátíð á borð við þessa væri reglulegur viðburður hér í bænum. Þau voru nokkuð hissa þegar að ég sagði þeim að svona hátíð væri alltaf fyrstu helgina í ágústmánuði ár hvert og hún væri kennd við verslunarmenn. Fyrir það fyrsta voru þau hissa að verslanir væru opnar á fríhelginni þeirra og þau spurðu mig meira út í bæjarbraginn. Eftir samtalið varð ég allnokkuð hugsi og ég fann á þeim að þau höfðu hugleitt að fara en sögðust væntanlega vera lengur fyrst þau höfðu heyrt að óreglan og sukkið í miðbænum færi brátt að taka enda.

Það er alveg ljóst að fylleríið í bænum náði hámarki þessa helgina og menningin sem ríkti á götum bæjarins er líða tók á nóttina var ekki beint fögur og fátt fjölskyldulegt við hana. Það er slæmt að skemmdir séu á eigum fólks í bænum og allra verst er ef þessi hátíð er að verða vettvangur dópsala. Þessi hátíð í ár var engan veginn eins áferðarfalleg og ég átti von á og mér fannst fátt fjölskylduvænt við það sem sást í miðbænum þegar að líða tók á kvöldin. Dópsalan var víst skelfileg og þegar yfir 60 tilfelli skráð, við sluppum því miður ekki við þann óþverra sem nauðgunartilfelli eru og líkamsárásirnar voru margar og aldrei meira að gera á slysadeildinni. Verst af öllu er greinileg dópsala um helgina en eins og vel sést á umræðunni eru ungmenni hér auðveld bráð þeim óþverrum sem þann markað stunda.

Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar Akureyrarbæjar, fer yfir þessa helgi í athyglisverðum pistli á Íslendingi, vef Sjálfstæðisflokksins hér í bæ, nú í dag. Þann pistil las ég með áhuga og fannst gott að vita að bæjarfulltrúi hér á Akureyri fylgist vel með stöðunni og skrifar um hana. Það eru alltof fáir bæjarfulltrúar sem skrifa á netið. Ella Magga hefur lengi verið á móti því að hafa útihátíð um verslunarmannahelgina með þessu tagi og varaði sérstaklega við stöðunni fyrir helgi. Gagnrýni hennar þar átti rétt á sér og mér finnst margt af því sem hún varaði sérstaklega við hafa gengið eftir um helgina. Það er vissulega gott að fá góða gesti í bæinn en því miður kom nokkur fjöldi af svörtu sauðunum með sem settu óorð á annars góða hátíð.

Við verðum að hugsa ráð okkar áður en við ákveðum að halda svona hátíð aftur. Ef við gerum það verðum við að stokka hana verulega upp og laga af þessa vankanta og reyna að tryggja að bærinn breytist ekki í sukkstöð og vettvang dópviðskipta og hreins og beins ólifnaðar eins og því miður alltof mikið var af hér um helgina. Ég vil að Akureyri standi undir nafni sem fjölskyldubær en fái ekki á sig stimpil óreglu og sukks - en alltof mikið var af slíku hér um helgina og því miður það eina sem var fréttnæmt héðan. Það þarf að fara yfir allar hliðar hátíðarinnar og velta framhaldinu mjög vel fyrir sér.