Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 september 2006

Verður NFS slegin af?

NFS

Sá orðrómur hefur farið eins og eldur í sinu síðustu klukkutímana í fjölmiðla- og viðskiptaheiminum að NFS-fréttastöð 365-ljósvakamiðla verði slegin af og það muni verða tilkynnt formlega á morgun. Fréttin birtist fyrst á bloggvef Steingríms Ólafssonar, fyrrum fréttamanns og almannatengslaráðgjafa Halldórs Ásgrímssonar í forsætisráðherratíð hans, síðdegis í dag og síðan hefur umræðan aukist og um fátt verið meira rætt á netinu nú í kvöld. Séu þessar fregnir sannar blasir endanlega við öllum hversu gríðarlega hriktir nú í stoðum 365 - fjölmiðlaveldisins og greinilegt að það á að höggva allt það af sem Gunnar Smári kom á fót í fyrirtækinu á sínum tíma. Vangaveltur eru um hversu miklar uppsagnir verði sé rétt að stöðinni verði lokað. Við öllum blasir að morgundagurinn verði blóðugur í íslenskri fjölmiðlasögu enda ljóst að fjöldauppsagnir taki við.

Það er ekki enn liðið ár frá fyrsta útsendingardegi NFS. Hún hóf göngu sína 18. nóvember 2005 með miklu pomp og prakt. Í aðdragandanum hafði fréttastofa Stöðvar 2, sem starfað hafði þá í 19 ár eða allt frá stofnun Stöðvar 2 árið 1986, verið slegin af og fréttastarfsemi ljósvakamiðlanna færð frá Lynghálsi í Skaftahlíð á jarðhæð húsnæðis Fréttablaðsins og þar innréttað stúdíó og vegleg fréttastofa sem var í baksýn stúdíósins. Í öllum útsendingum sáust því fréttamenn í baksýn útsendingarinnar og þótti stöðin hafa á sér blæ stóru erlendu fréttastöðvanna og öllum ljóst hvaðan fyrirmyndirnar kæmu. Allt frá fyrsta degi hefur verið áhugaverð dagskrárgerð á stöðinni og í raun ekkert til sparað, mikið verið af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun.

Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar því sífellt aukist eftir því sem liðið hefur á þetta fyrsta útsendingarár NFS. Það mistókst að gera stöðina að hringamiðju tilveru landsmanna og henni hefur aldrei tekist að halda markvissum auglýsingatekjum til að kynda undir allan kostnað, sem hefur verið gríðarlegur. Dælt hefur verið peningum gegndarlaust í allar áttir og því er nú væntanlega komið að því að velta verði því fyrir sér hvort stöðin sé orðin eldsneytislaus á tíunda útsendingarmánuðinum. Margir landsmenn hafa hlustað á dagskrána í útvarpinu og eða í tölvunni sinni en hún hefur aldrei orðið sterk sjónvarpsstöð sem slík.

Það var um miðjan júlímánuð 2005 sem Gunnar Smári og fólkið í kringum hann innan 365 ákvað að koma á fréttastöð í sjónvarpi. Í upphafi er hugmyndin var kynnt var á teikniborðinu 16 tíma sjónvarpsstöð sem yrði fréttaveita til landsmanna í gegnum daginn. Hugmyndir urðu um að samnýta undir einn hatt alla fréttaþjónustu 365 ljósvakamiðla og var fréttavefur Vísis gerður að miðju þess á netinu og stöðin send út á sjónvarpstíðni og ennfremur á útvarpsrás þeirri sem talmálsstöðin Talstöðin hafði áður yfir að ráða. Þetta var því allt í einu orðin samtengt afl í fréttaþjónustu. Hugmyndin fæddist hægt og rólega og unnið með hana með þessum grunnhætti allt til fyrsta útsendingardags í nóvember 2005. Í ítarlegum pistli á vefritinu íhald.is sumarið 2005 tók ég orðrétt svo til orða um nýju fréttastöðina:

"Óneitanlega tel ég að 365 skjóti boltanum mjög hátt með því að starta þessari fréttastöð. Það má deila um hvort pakkinn muni ganga eða þá hvort að menn séu að tefla á vöð sem halda ekki. En tillagan er djörf og ef hún gengur er kominn fjölmiðill sem mun byggjast upp sem öflug fréttaveita til allra landsmanna, í gegnum sjónvarpið, netið og útvarpið - allt í senn." Þegar að þessi orð voru rituð var ég fullur efasemda um að þessi stöð gæti gengið, eins og sjá má af orðalaginu. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi mig hafa rangt fyrir mér er kom að fyrsta útsendingardegi og eftir því sem leið á fyrstu mánuðina töldu flestir að smágallar á NFS við byrjun væru smávægilegir en myndu slípast af og önnur augljós vandræði myndu hverfa. Það hefur ekki gerst og því væntanlega komið að örlagadegi hjá stöðinni.

Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið. Hann var ráðinn til starfans og tók til starfa 1. september 2005. Eftir að hann kom til RÚV stokkaði hann upp ímynd fréttastofu Sjónvarps og tók Kastljósið og fleygði því og startaði nýjum og ferskum dægurmálaþætti sem hefur gengið mjög vel og eflst með hverjum mánuðinum.

Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi hafa að öllu leyti gengið eftir. Það hlýtur að hlakka í keppinautum NFS þegar að við blasir að stöðin sé að renna sitt skeið og hverfi með manni og mús. Um leið og þessi yfirvofandi endalok kóróna erfiðleika fjölmiðlaveldisins má telja hætt við að það hrikti víða í mörgum stoðum á þessum föstudegi og á næstunni. Ef fréttastofa NFS verður slegin af má velta fyrir sér stöðu forystumanna fréttastofunnar. Hún getur varla talist sterk.