Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 janúar 2004

Hutton lávarðurHeitast í umræðunni
Í dag var birt formlega skýrsla Huttons lávarðar, um dauða breska vopnasérfræðingsins Dr. David Kelly í júlí. Í niðurstöðum hennar kemur fram hörð gagnrýni á fréttaflutning breska Ríkisútvarpsins, BBC. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er að mestu hreinsaður af þeim ásökunum sem hann hafa verið bornar, með niðurstöðum skýrslunnar. Í henni kemur fram að fullyrðingar fréttamannsins Andrew Gilligan um að breska stjórnin hefði ýkt skýrslu sína um gereyðingarvopn Íraka hefðu verið með öllu tilefnislausar. Gavyn Davies stjórnarformaður BBC, tilkynnti í dag að hann myndi axla ábyrgð á fréttaflutningnum og niðurstöðum skýrslunnar með afsögn sinni. Hutton lávarði var falið að rannsaka dauða Kellys sem fannst látinn um miðjan júlí 2003, skömmu eftir að gert var opinbert að hann hefði verið heimildamaður fréttamannsins Andrew Gilligan um að breska stjórnin hefði ýkt skýrslu um meint gereyðingarvopn Íraka í september 2002. Í skýrslunni kom t.d. fram að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum með einungis þriggja stundarfjórðunga fyrirvara og sagði Gilligan að þetta hefði verið sett inn í skýrsluna þótt stjórnin hefði vitað að það væri rangt. Með niðurstöðu skýrslunnar stendur Blair eftir sem sigurvegari málsins og það mun ekki leiða til afsagnar hans eða stjórnar hans. Hann fór á þingfundi í Westminster í dag fram á afsökunarbeiðni þeirra sem hæst létu, eða þeir létu sig í friði ella, fyrst niðurstaðan væri ljós.

John Kerry með stuðningsmönnumJohn Kerry öldungadeildarþingmaður, vann afgerandi sigur í forkosningum demókrata í New Hampshire í gær. Sigur hans færir honum enn sterkari stöðu í demókrataslagnum um það hver leiðir flokkinn í næstu forsetakosningum. Hann á þó útnefninguna engan veginn vísa enn. Sigur Kerry í New Hampshire varð nokkru stærri en seinustu skoðanakannanir bentu til, en þær þóttu sýna minnkandi forskot hans á Howard Dean. Kerry fékk 39% atkvæða í NH, Dean hlaut 26%, en þess má geta að hann hafði 20% forskot á keppinauta sína í fylkinu fyrir einum mánuði, en hann hefur á seinustu tveim vikum gjörsamlega misst niður forystuhlutverk sitt í slagnum, eins og ég hef fjallað um áður. Wesley Clark fyrrum hershöfðingi, og John Edwards öldungadeildarþingmaður, voru jafnir og fengu báðir 12% og Joe Lieberman öldungadeildaþingmaður og varaforsetaefni demókrata 2000, varð í fimmta sæti með aðeins 9% atkvæða. Kjörsókn í fylkinu var mikil, meiri en nokkru sinni fyrr. Eftir viku verða forkosningar í 7 fylkjum, t.d. S-Carolinu og Missouri. Sigur Kerrys styrkir stöðu hans, en þó skal á það bent að Bill Clinton fyrrum forseti, tapaði árið 1992 bæði í Iowa og New Hampshire.

AlþingiAlþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við embætti menntamálaráðherra fyrir tæpum mánuði, eins og öllum stjórnmálaáhugamönnum ætti að vera kunnugt. Nokkur uppstokkun varð á setu sjálfstæðismanna í fastanefndum Alþingi, í kjölfar þess að Þorgerður varð menntamálaráðherra. Arnbjörg Sveinsdóttir sem tók sæti Tómasar Inga Olrich fyrrv. menntamálaráðherra, á þingi, mun taka við nefndarsætum Þorgerðar Katrínar í allsherjarnefnd og samgöngunefnd. Guðmundur Hallvarðsson tekur sæti Þorgerðar í iðnaðarnefnd en Arnbjörg aftur á móti sæti hans í fjárlaganefnd, en hún sat í nefndinni 1995-2003. Sólveig Pétursdóttir tekur sæti Þorgerðar Katrínar í kjörbréfanefnd.

Frelsisstyttan í New York, gyðja frelsisinsSvona er frelsið í dag
Alltaf nóg um að vera á frelsinu. Í dag hóf göngu sína ný og skemmtileg keppni á vefnum. Frelsisdeildin er keppni milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins um titilinn Frelsari ársins. Orðrétt segir á vefnum: "Keppendur vinna sér inn stig með því að losa fólkið í landinu undan járnkló ríkisvaldsins. Þeir keppendur sem herða á taki járnklónnar tapa stigum. Sigurvegari keppninnar hlýtur farandbikar til varðveislu í eitt ár. Staðan í deildinni er vægast sagt neikvæð fyrir unnendur frelsis. Heildarstig deildarinnar eru neikvæð um 136 stig. Efsti maður deildarinnar, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, Einar K. Guðfinnsson er með 3 stig, í öðru sæti er Pétur H. Blöndal með 1 stig og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra er með 0 stig. Aðrir þingmenn eru í mínus eða hafa ekki lagt fram nein mál. Er mál að þingmenn flokksins bretti nú upp ermarnar og stefni þjóðarskútunni í átt til frelsis." Líst alveg virkilega vel á þetta framtak félaga minna í Heimdalli og fagna því mjög. Nú er bara að vona að fleiri þingmenn líti í frelsisátt á næstu vikum, mánuðum og árum, þann tíma sem lifir af kjörtímabilinu.

GoodfellasKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Martin Scorsese, Goodfellas. Það var árið 1990 sem Scorsese gerði þessa eftirminnilegustu og stórbrotnustu kvikmynd sína. Goodfellas er mögnuð mafíumynd sem er byggð á sannri sögu írsks-ítalsks bófa sem frá bernsku á sér þann draum heitastan að verða gangster. Og fyrr en varir er hann kominn í réttan félagsskap víðsjárverðra glæpamanna. Þar hefst þriggja áratuga tímabil auðgunarglæpa, manndrápa, peningaflóðs og ekki síst glæsilegs Hollywoodlífsstíls, sem endar að lokum með því að allir eru á varðbergi og hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Meistari Scorsese segir söguna af einstökum mikilleik og ekki síst gráglettni, sóðaskapur innihaldsins kemur aðeins fram í örfáum sprungum sem bresta í rómantíska drauminn. Og ekki má gleyma sannkölluðum stórleik þeirra snillinga sem hér eru saman komnir og fara hreint á kostum, nægir þar að nefna þá Robert De Niro (sem vann hér með Scorsese í sjötta skiptið), Ray Liotta, Paul Sorvino og Joe Pesci sem hlaut óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Scorsese hlaut tilnefningu fyrir leikstjórn sína og myndin var einnig tilnefnd sem besta mynd ársins 1990. Eðalmynd, sem verður enn betri með hverju árinu. Snilld!

ESBGrein á Heimssýn - vefurinn
Í dag birtist á vef Heimssýnar hluti sunnudagspistils míns af heimasíðunni. Þar er um að ræða fyrsta hlutann, sem fjallar um Samfylkinguna og sundurleitni hennar á mörgum sviðum. T.d. er nefnd þar forystukreppa, deilur vegna Evrópumála og faldar áherslur varaformanns flokksins fyrir kosningar sem koma nú í ljós í Pandóru boxinu sem nú hefur verið opnað almenningi. Þetta er annar pistill minn sem birtist á vefnum og langt í frá sá síðasti. Mun ég nú taka sæti í ritstjórn heimasíðu Heimssýnar og hef í hyggju að taka þátt í innra starfi þessarar mikilvægu hreyfingar okkar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Mikilvægt er að vinna af krafti af því að styrkja okkar góðu hreyfingu enn frekar og ég vil taka þátt í því verki.

Vefur dagsins
Nk. sunnudag, 1. febrúar, verður liðin öld frá því heimastjórn var komið á hérlendis. Davíð Oddsson forsætisráðherra, opnaði í vikunni glæsilegan vef til minningar um þetta mikla afmæli. Um helgina verður haldið formlega upp á þessi tímamót. Ég hvet alla til að líta á vefinn í dag.

Snjallyrði dagsins
Frankly, my dear, I don't give a damn!
Rhett Butler í Gone with the Wind