Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 janúar 2004

Davíð OddssonHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, fjallaði á fjölmennum laugardagsfundi sjálfstæðismanna í Valhöll í morgun um varnarsamstarfið við Bandaríkin og sagði að Íslendingar myndu horfa til Bandaríkjanna til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Sagði hann að viðræður um varnarsamstarf við bandaríkjamenn væru í viðkvæmri stöðu og málið langt í frá leyst. Sagði hann aðspurður að fundir með fulltrúum ríkisstjórnar Bandaríkjanna væru vart til þess fallnar að auka bjartsýni um farsæla lausn málsins. Frægt varð er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði á opnum fundi framtíðarnefndar Samfylkingarinnar í byrjun mánaðarins að Íslendingar ættu að skilgreina varnarhagsmuni sína í tengslum við varnarhagsmuni Evrópu og beina þannig sjónum sínum í ríkari mæli að Evrópu fremur en Bandaríkjunum. Sagði hún þar að Samfylkingin stæði nú andspænis því verkefni að móta nýja stefnu í öryggis- og varnarmálum í ljósi nýrra aðstæðna eftir að Bandaríkjamenn teldu ekki lengur þörf á þeim varnarviðbúnaði sem verið hefði í herstöðinni í Keflavík. Var með hreinum ólíkindum að sjá varaformann Samfylkingarinnar draga fram stefnuna í varnar- og Evrópumálum sem falin var fyrir seinustu kosningar. Kemur þarna staðfesting á fyrri ummælum flokksmanna dágóðu fyrir kosningar. Aðspurður um ummæli ISG sagði Davíð að það væri með ólíkindum að hlusta á þann málflutning sem væri eins og aftan úr grárri forneskju. Sagði Davíð að hann hefði getað ímyndað sér að finna ámóta ummæli í Þjóðviljanum fyrir um 15 til 20 árum. Benti hann á að í stefnu Samfylkingarinnar á vefnum væri ekkert fjallað um stefnu varðandi samstarf við Bandaríkin.

SamfylkingardoppaMikið hefur verið fjallað opinberlega um valdaátökin innan Samfylkingarinnar. Hafa þau blasað við öllum eftir að borgarfulltrúi R-listans missti borgarstjórastól sinn og fór í þingframboð, og ekki síður eftir þingkosningarnar, en borgarfulltrúinn náði eins og kunnugt er ekki kjöri til þings. Í grein Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar Háskólans, fjallar Birgir Hermannsson um árið 2003 innan Samfylkingarinnar og kosningabaráttuna. Fer hann mjög yfir stöðu Ingibjargar Sólrúnar og Össurar og valdatafl þeirra á milli. Greinin er góð lesning og gott innlegg í umræðuna frá manni innan Samfylkingarinnar á stöðu mála þar. Hann dæmir þar Borgarnesræðurnar misheppnaðar, stöðu Ingibjargar innan framboðsins misreiknaða frá upphafi og mikil mistök hafi verið gerð við skipulagningu hennar. Mjög athyglisverð grein.

Raging BullKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á magnaða stórmynd Martin Scorsese, Raging Bull. Myndin var gerð árið 1980 og hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Í henni er sögð saga boxarans Jake La Motta, en hann var fyrsti boxarinn sem náði að sigra Sugar Ray Robinson. Eftir það lá leiðin að heimsmeistaratitlinum og varð La Motta einn frægasti boxari 20. aldarinnar. Í myndinni er rakin saga hans á fimmta áratugnum, sem var gullaldartími kappans. Robert De Niro á sannkallaðan stjörnuleik í hlutverki La Motta og hefur aldrei verið betri. Hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kemur með frammistöðu lífs síns. Joe Pesci og Cathy Moriarty eru einnig alveg mögnuð í sínum hlutverkum. Kvikmyndatakan er mjög sérstök og flott, einkum í hinum eftirminnilegu boxatriðum. Myndin er í svarthvítu og gefur það henni sérstakan blæ. Leikstjórnin er alveg fullkomin og í raun undarlegt að Scorsese hafi ekki hlotið óskarinn fyrir hana á sínum tíma. Í heildina er Raging Bull ein besta kvikmynd áttunda áratugarins, sannkölluð tímamótamynd.

IdolSjónvarpsgláp
Var hið fínasta sjónvarpskvöld í gærkvöldi. Við vorum bara heima og horfðum á sjónvarpið í rólegheitum. Í ítarlegum Idol þætti var litið yfir ferðalag fyrstu íslensku Idol stjörnunnar, Karls Bjarna Guðmundssonar allt frá áheyrnarprófi á Hótel Loftleiðum í lok ágúst til lokakvöldsins í Smáralind, þann 16. janúar er hann vann keppnina. Fínn þáttur og farið vel yfir sögu þátttakandans í keppninni frá A-Ö. Að því loknu var litið á American Idol, nóg er af hæfileikalausum söngvurum en á milli þeirra leynist þó næsta stórstjarna bandarísks tónlistarheims. Leit svo á Raging Bull og átti svo gott spjall við vini á MSN og rabbaði pólitík og margt fleira.

Vefur dagsins
Á morgun verða Golden Globe verðlaunin afhent í Los Angeles í 61. skiptið. Bendi í dag á heimasíðu Golden Globe. Einnig er hægt að líta á tilnefningar til verðlaunanna.

Snjallyrði dagsins
Þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, þá er nauðsynlegt að breyta ekki.
Falkland lávarður