Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 janúar 2004

Michael HowardHeitast í umræðunni
1. maí nk. eru sjö ár frá því að Verkamannaflokkurinn vann sigur í þingkosningum í Bretlandi og komst til valda, þá eftir 18 ára valdaferil breska Íhaldsflokksins. Frá 1989 hefur Íhaldsflokkurinn ekki náð að komast yfir 40% markið í skoðanakönnunum í Bretlandi. Þáttaskil hafa hinsvegar orðið í breskum stjórnmálum eftir atburði vikunnar. Í nýrri skoðanakönnun Daily Telegraph mælist Íhaldsflokkurinn með 40% fylgi. Hefur flokkurinn rúmlega 5 prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn. Frjálslyndir demókratar hafa 19% fylgi. Með þessu hefur Michael Howard tekist það sem engum öðrum leiðtoga flokksins hefur tekist eftir valdaferil Margaret Thatcher, sem var forsætisráðherra Bretlands í rúm 11 ár. Staða Íhaldsflokksins hefur styrkst mjög eftir að leiðtogaskipti urðu í flokknum í október 2003 er Iain Duncan Smith var felldur af leiðtogastóli og Howard tók við af honum. Pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra, hefur veikst mjög seinasta ár vegna mála í kjölfar dauða Davids Kelly. Hutton nefndin sem skipuð var til að rannsaka það mál allt saman skilar niðurstöðu sinni á þriðjudag. Hefur Blair sagt að hann muni segja af sér ef úrskurður nefndarinnar verði sér í óhag. Þingkosningar verða í Bretlandi í síðasta lagi í maí 2006, en þá lýkur fimm ára kjörtímabili ríkisstjórnarinnar.

BækurÍslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í gær í fimmtánda skipti, af Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. Það voru þeir Guðjón Friðriksson og Ólafur Gunnarsson sem hlutu verðlaunin að þessu sinni. Guðjón hlaut þau í flokki fræðirita fyrir seinna bindi ævisögu Jóns Sigurðssonar forseta. Ólafur fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bók sína Öxin og jörðin. Er þetta í þriðja skipti sem Guðjón hlýtur verðlaunin, en hann hefur í 15 ára sögu verðlaunanna verið tilnefndur alls fimm sinnum. Hann hlaut verðlaunin 1991 fyrir bók sína, Bærinn vaknar 1870-1940, og árið 1997 fyrir fyrsta bindi ævisögu Einars Benediktssonar. Ólafur var tilnefndur til verðlaunanna 1992 fyrir bók sína Tröllakirkju og átti reyndar að vinna verðlaunin þá að mínu mati. Báðir eru vel að þessum heiðri komnir. Las báðar bækur um jólin og hafði gaman af. Augljóst þótti að Ólafur hlyti verðlaunin en meiri óvissa var um hver hlyti fræðiritaverðlaunin. Það var þriggja manna lokadómnefnd skipuð Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Snorra Má Skúlasyni og Ragnari Arnalds sem valdi handhafa verðlaunanna þessu sinni. Athyglisvert er að kynna sér sögu verðlaunanna.

Ariel SharonÍsraelski kaupsýslumaðurinn David Appel, var í vikunni ákærður fyrir tilraun til þess að bera fé á Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, fyrir nokkrum árum er Sharon var utanríkisráðherra landsins. Í ákærunni kemur ekki fram hvort Sharon tók sjálfur við mútunum. Samkvæmt ákæruskjali reyndi Appel ennfremur að múta Gilad syni Sharons og Ehud Olmert sem nú er aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, en var borgarstjóri Jerúsalem á þessum tíma. Að sögn erlendra fréttavefa er David Appel byggingaverktaki og tengist mútumálið verktakasamningi í Grikklandi og mun Gilad, sonur Sharons, tengjast þeim málum. Sharon neitar að hafa framið lögbrot í málinu. Ekki er ólíklegt að málið geti orðið forsætisráðherranum dýrkeypt og auki líkur á að hann verði að láta af embætti og verði sjálfur ákærður fyrir þátt sinn í málinu. Hefur hann sagst ekki munu segja af sér og sitja a.m.k. út kjörtímabilið á sínum stól, til ársins 2007. Ef forsætisráðherrann verður ákærður verður honum vart að þeirri ósk sinni að klára kjörtímabilið.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli Heiðrúnar Lindar á frelsinu í dag fjallar hún um niðurskurðarhugmyndir á Landsspítala háskólasjúkrahúsi sem hafa verið mikið í umræðunni seinustu daga. Orðrétt segir hún: "veltir greinahöfundur því fyrir sér hvernig það megi vera að sá forstjóri sem ráðinn er og aðrir embættismenn, skulu aldrei verða varir við yfirvofandi fjárhagsvanda fyrr en mál eru komin í óefni? Væri hér um að ræða fyrirtæki í einkageiranum má ætla að sá hinn sami yrði ekki langlífur í starfi, enda eiga eigendur heimtu á að vel sé haldið á fjármálum fyrirtækisins. Sem eigendur Landspítala-háskólasjúkrahúss, eiga skattgreiðendur að gera þá kröfu að fjármagni sem varið er til heilbrigðismála sé vel varið. Æ stækkandi útgjaldabagga skal ekki sólundað í embættismannafargan þar sem menn benda hver á annan til að firra sig ábyrgð. Vel má vera að heilbrigðisþjónustan kunni að vera orðin báknið eitt sem hætt er að lúta stjórn mannsins. Við slíkar aðstæður er þá fátt betra en að veita einkaframtakinu svigrúm til athafna og létta þannig á erfileikum sem ríkið fær ekki leyst úr." Góður pistill venju samkvæmt hjá Heiðrúnu, er mjög sammála skrifum hennar.

Taxi DriverKvikmyndir
Horfði í gær enn einu sinni á magnað meistaraverk Martin Scorsese, Taxi Driver. Hiklaust ein mesta snilld sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Ófögur en sannarlega óviðjafnanleg úttekt leikstjórans á einmanaleika og stórborgarfirringu New York. Sögð saga leigubílstjórans Travis Bickle sem vinnur á næturnar sökum svefnleysis og verður vitni að ógeðfelldu næturlífi borgarinnar með öllum sínum hryllingi. Hann er einfari í eðli sínu og á mjög erfitt með að blanda geði við annað fólk og er í raun kominn á ystu nöf. Hann kynnist Betsy sem er að vinna að forsetaframboði Charles Palantine. Þau eiga erfitt með að ná saman og slíta sambandinu. Er Travis kynnist Iris, hinni tólf ára vændiskonu brestur eitthvað innra með honum og hann tekur miklum stakkaskiptum og verður hann fullsaddur á allri spillingunni og ósómanum í kringum sig. Þessi fyrrum Víetnam-hermaður verður hrein tímasprengja er vopnast og beinist reiði hans loks að hórumangara stelpunnar. Robert De Niro fór á kostum í hlutverki leigubílstjórans. Sannkallaður stjörnuleikur, ein besta frammistaða De Niro og ein besta kvikmynd áttunda áratugarins. Mögnuð kvikmyndaupplifun.

Best of Bob DylanTónlist - bækur
Keypti í vikunni disk sem ég hafði lengi haft áhuga á að eignast. Keypti mér safndisk með 18 af bestu lögum poppgoðsins Bob Dylan. Þarna eru m.a. eilífir smellir á borð við Blowin' In The Wind, The Times They Are A-Changin, Mr. Tambourine Man, Like A Rolling Stone, Just Like A Woman, Knockin' On Heaven's Door, Shelter From The Storm og mörg fleiri. Skyldueign fyrir alla sanna tónlistaráhugamenn. Er þessa dagana að lesa á ný fyrsta bindi ævisögu Einars Ben, eftir Guðjón Friðriksson. Alveg mögnuð bók um einn merkasta Íslending sögunnar, mann sem setti sterkan svip á mannlíf síns tíma.

Vefur dagsins
Kíki á hverjum degi á íþróttavefinn gras.is. Þar er að finna vandaða fréttaumfjöllun um íþróttaviðburði og úrslit leikja. Bendi í dag á þennan fína íþróttavef.

Snjallyrði dagsins
Frelsisástin beinist að öðrum; valdafýsnin er sjálfselska.
William Hazlitt