Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 janúar 2004

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúiHeitast í umræðunni
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lögðu fram á fundi borgarráðs í hádeginu í dag, tillögu þess efnis að Leikfélagi Reykjavíkur yrði veitt aukafjárveiting, 25 milljónir króna vegna leikársins sem nú stendur yfir og 8 milljónir króna ennfremur til að standa undir starfslokasamningum við eldri leikara og nokkra aðra starfsmenn. Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins kemur fram að verkefnaskrá vetrarins í leikhúsinu sé í uppnámi, frumsýningu á Don Kíkóta, sem ráðgerð hafði verið um miðjan mars verið frestað og ekki víst að ný íslensk verk verði frumsýnd á Nýja sviðinu. Skv. Þórólfi Árnasyni borgarstjóra var tillögu sjálfstæðismanna til afgreiðslu frestað og sagði hann hana koma á óvart. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson leiðtogi borgarstjórnarflokksins, segir í yfirlýsingu til fjölmiðla að borgarstjóri fari rangt með og segir einfaldlega að hann tali í hringi. Ég skil ekki þessa tillögu borgarstjórnarflokksins. Að mínu mati á að stokka upp starfsemi LR og margar hugmyndir uppi um þær breytingar sem mætti ræða nánar í borgarráði og eða borgarstjórn. Um slíkar tillögur eiga sjálfstæðismenn að sameinast.

Paul O'NeillFjármálaráðuneyti Bandaríkjanna krefst þess að fram fari rannsókn á því hvort Paul O'Neill fyrrverandi fjármálaráðherra landsins, hafi brotið landslög um trúnað og skjalaleynd þegar hann sýndi ýmiskonar opinber gögn í sjónvarpsþættinum 60 mínútur á CBS um helgina, en sum þeirra voru augljóslega sýnd með merkingum sem leyniskjöl. Í viðtalinu réðist O'Neill harkalega að Bush Bandaríkjaforseta, og herðir hann enn á gagnrýni sinni í bókinni Price of Loyalty sem út kemur innan skamms. Staðhæfir O'Neill að forsetinn hefði frá fyrsta embættisdegi verið staðráðinn í því að hernema Írak. Segist hann aldrei hafa séð neitt sem sannaði að Írakar væru að reyna að koma sér upp gjöreyðingarvopnum. Ýmsir ráðgjafar og starfsmenn forsetans hafa sagt fullyrðingar O'Neill algjöra vitleysu og hann sé aðeins bitur maður sem reyni með ósannindum að hefna sín á fyrri samstarfsmönnum. Hefur Don Evans viðskiptaráðherra, reyndar sagt að O'Neill hafi talað minna en Bush á flestum fundum.

KrossÍ gær voru birtar athyglisverðar tölur og upplýsingar um trúfélög og sveiflur á milli þeirra seinasta árið. Múslímum, kaþólikkum og ásatrúarmönnum fjölgar stöðugt hér á landi ef marka má þessar tölur Hagstofunnar. Trúfélögum utan þjóðkirkjunnar fjölgar talsvert, að meðaltali um eitt á ári síðustu 10 árin. Í félagi múslíma á Íslandi voru 89 árið 1998 en voru 289 í lok síðasta árs. Skráðir múslímar eru því rúmlega þrefalt fleiri en fyrir fimm árum. Kaþólska kirkjan er eina trúfélagið hérlendis fyrir utan þjóðkirkjuna sem hefur yfir 1% landsmanna í sínu trúfélagi. Skráðir kaþólikkar eru tæplega 5.600 og hefur fjöldi þeirra meira en tvöfaldast á tíu árum. Ásatrúarfélagið sækir í sig veðrið og hefur um 780 skráða félaga. 2003 fjölgaði ásatrúarmönnum um nærri fjórðung. Hlutfall Íslendinga sem skráð er í þjóðkirkjuna minnkar á sama tíma. Árið 1996 voru rúmlega 90% í þjóðkirkjunni en það hlutfall hefur lækkað niður í um 86%.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill Ragnars um bók Hannesar Hólmsteins og listamannalaun. Orðrétt segir hann: "Nú til dags virðast flestir þingmenn þeirrar skoðunar að rétt sé að nota fjármuni almennings til að styrkja listastarfsemi og treysta því ekki skattgreiðendum sjálfum til að greiða beint fyrir þær listgreinar og þá menningu sem þeir hafa áhuga á. Pétur H. Blöndal hefur þó í viðtali á Frelsi.is gagnrýnt listamannalaun og sagði m.a. að þau væru "hluti af þeirri menningarítroðslu sem einkennir t.d. Ríkisútvarpið, þ.e. að kenna og láta þjóðina skilja hvað er list." Í ljósi þess að þjóðfélagið hefur færst í frjálsræðisátt og sjónarmið frjálshyggjunnar hafa náð að ryðja sér til rúms í auknum mæli á undanförnum árum og áratugum hefði mátt ætla að enginn þingmaður hefði verið á sömu skoðun og Pétur H. Blöndal á æskuárum Halldórs Laxness. Eins og lesa má um í ævisögunni er því þó alls ekki þannig farið. Ennfremur segir Ragnar: "Þau sjónarmið sem ungir sjálfstæðismenn hafa lengi haldið á lofti samræmast því greinilega þeim sjónarmiðum sem flokkurinn var upphaflega reistur á. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem ríkjandi eru í flokknum nú til dags er því ekki úr vegi að spyrja sömu spurningar og Jónas Hallgrímsson spurði á sínum tíma: "Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?" Ennfremur er á frelsinu birt ályktun stjórnar Heimdallar og umfjöllun um hádegisverðarfund Heimdallar sem verður á fimmtudag.

Þórhallur og JóhannaDægurmálaspjallið
Hörkugott dægurmálaspjall var í gærkvöldi í Íslandi í dag og góð umfjöllun. Eftir kvöldfréttir voru gestir Jóhönnu og Þórhalls, Pétur Blöndal og Lúðvík Bergvinsson. Umræðuefnið eins og við var að búast tillaga þingmanna Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd þess efnis að Pétur sé vanhæfur til að stýra umfjöllun nefndarinnar um kaup KB-banka á SPRON. Tókust þeir harkalega á í þættinum og rifust t.d. um túlkun á þingsköpum og úrskurði þáverandi forseta Alþingis á sambærilegu máli fyrir áratug. Töluðu þeir hver ofan í annan og harkaleg orðaskipti þeirra á milli. Í lok þáttarins komu Birgir Ármannsson alþingismaður, og Ásgeir Friðgeirsson varaþingmaður, um málefni fjölmiðla og hugsanlega lagasetningu á eignarhald fjölmiðla, en nefnd vinnur nú að tillögum til menntamálaráðherra um mögulega lagasetningu.

The Godfather: Part IIIKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi í enn eitt skiptið á lokahluta hinnar mögnuðu Guðföðurtrílógíu Francis Ford Coppola. Í lokahlutanum er Al Pacino sem fyrr í hlutverki fjölskylduföðurins Michael Corleone. Hann er nú á sjötugsaldri og einbeitir sér að tveim verkefnum: að frelsa fjölskyldu sína undan ofbeldi og glæpum, og að finna verðugan eftirmann. Sonur hans vill ekki verða eftirmaður föður síns og því verður hann að leita eftir öðrum í staðinn. Sá maður gæti orðið hinn skapmikli bróðursonur hans Vincent... en hann gæti líka verið sá sem myndi leggja allar áætlanir Michaels um heiðarleg viðskipti í rúst og hleypt upp nýrri öldu glæpa og ofbeldis. Francis Ford Coppola leikstýrir hér þeim Pacino, Andy Garcia, Diane Keaton, Taliu Shire, Sofiu Coppola og Eli Wallach og fleirum í þessari mynd sem setur punktinn við söguna af þessari ógleymanlegu mafíufjölskyldu í New York sem var í senn ofbeldishneigð og manneskjuleg. Takið sérstaklega eftir lokaatriðinu með Pacino, að mínu mati eitt besta leikatriði 20. aldarinnar.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á heimasíðu stórmyndarinnar The Lord of the Rings: The Return of the King. Besti hluti trílógíunnar um Hringadróttinssögu J.R.R. Tolkien og besta mynd ársins 2003.

Snjallyrði dagsins
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir
Thorbjörn Egner