Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 janúar 2004

Elijah Wood í The Lord of the Rings: The Return of the KingHeitast í umræðunni
Tilnefningar til Óskarsverðlaunananna voru kynntar í dag. Verðlaunin verða nú afhent í 76. skipti, en á öðrum tíma, til þessa hafa þau verið afhend í marsmánuði, en framvegis verða þau seinasta sunnudag í febrúarmánuði. Óhætt er að fullyrða að mikið af óvæntum uppákomum hafi verið að þessu sinni við tilnefningarnar. Fáum kom á óvart að The Lord of the Rings: The Return of the King seinasti hluti Hringadróttinssögu, skyldi hljóta flestar tilnefningar eða alls 11. Mest á óvart komu hinsvegar tilnefningar til leikflokkanna, en þar voru margir þekktir leikarar sem kepptu um Golden Globe sniðgengnir. Kvikmyndin Master and Commander hlaut 10 tilnefningar sem kom flestum á óvart og ennfremur þótti undrunarefni að myndin Seabiscuit skyldi tilnefnd sem besta myndin, en Cold Mountain sniðgengin í þeim flokki og fyrir leik Nicole Kidman. Tilnefndar sem besta mynd ársins eru: LOTR: The Return of the King, Lost in Translation, Master and Commander, Mystic River og Seabiscuit. Tilnefndir sem leikstjóri ársins voru: Sofia Coppola, Clint Eastwood, Peter Jackson, Fernando Meirelles og Peter Weir.

Sean Penn í Mystic RiverEins og fyrr segir voru tilnefningar til leikflokkanna margar hverjar bæði óvæntar og komu á óvart. Margir þeirra sem taldir voru öruggir um tilnefningar náðu ekki inn. Tilnefndir sem leikari í aðalhlutverki eru: Johnny Depp, Ben Kingsley, Jude Law, Bill Murray og Sean Penn. Tilnefndar sem leikkona í aðalhlutverki eru: Keisha Castle-Hughes, Diane Keaton, Samantha Morton, Charlize Theron og Naomi Watts. Tilnefndir sem leikari í aukahlutverki eru: Alec Baldwin, Benicio Del Toro, Djimon Hounsou, Tim Robbins og Ken Watanabe. Tilnefndar sem leikkona í aukahlutverki eru: Shohreh Aghdashloo, Patricia Clarkson, Marcia Gay Harden, Holly Hunter og Renée Zellweger. Með þessu varð Keisha Castle-Hughes yngsti leikarinn í sögu akademíunnar til að hljóta tilnefningu fyrir leik í aðalhlutverki, en hún er aðeins 13 ára gömul. Athygli vakti að Tom Cruise, Scarlett Johansson, Russell Crowe og Nicole Kidman hlutu ekki tilnefningu fyrir leik sinn, en þess í stað hlutu Johnny Depp, Naomi Watts og Samantha Morton tilnefningu. Ennfremur kom á óvart að hin íranska leikkona Shohreh Aghdashloo hlaut tilnefningu fyrir leik sinn í aukahlutverki. Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles, 29. febrúar nk.

EM í handbolta 2004Íslendingar eru úr leik á Evrópumótinu í handknattleik, eftir jafntefli við Tékka á sunnudag. Óhætt er að fullyrða að þátttaka Íslendinga á Evrópumeistaramótinu hafi verið ein sorgarsaga. Liðið komst ekki úr riðlakeppninni, urðu neðstir í sínum riðli og unnu engan leik, gerðu eitt jafntefli en töpuðu tveim leikjum. Langt er altént síðan að Íslendingum hefur gengið svo illa á stórmóti í handbolta. Mér fannst leikur liðsins á mótinu vera dapur. Margir lykilmanna stóðu ekki undir væntingum og ljóst að margt er að í leik liðsins. Ólympíuleikarnir eru framundan, þar gefst Íslendingum færi á að ná sér á strik og sanna mátt sinn. Mikilvægt er að liðið byggi sig upp og fái tækifæri til að vinna sig úr erfiðleikum. Það gerir illt verra að skipta um þjálfara á þessum tímapunkti. Þjálfarinn á að fá að klára sitt verk áður en dæmt verður að fullu um hans verk.

María MargrétSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu pistill Mæju. Orðrétt segir hún: "Í síðustu viku var ég, aldrei þessu vant, vöknuð snemma að horfa á Ísland í bítið. Þar heyrði ég þingmann Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, segja að hún neitaði að horfa á málin út frá sjónarhóli einstaklingsins, eins og við Heimdellingar erum þekktir fyrir, heldur vildi hún aðeins tala út frá samfélaginu. Þetta raskaði ró minni þennan morguninn. Hvað fær fólk til að halda svona löguðu fram? Þessi málflutningur er algengur hjá vinstri- eða jafnaðarmönnum. Hjá þeim hefur samfélagið öðlast sjálfstæða tilveru án frjálsra einstaklinga. Með þessum rökstuðningi leyfa þér sér að skerða frelsi fólks og skeyta engu um þarfir þess til að haga lífi sínu eftir eigin höfði. Robert Nozick bendir einmitt á það í bók sinni Anarchy, State and Utopia að þegar manneskja er notuð með þessum hætti gleymist það að einstaklingar hafa ólíkar þarfir og lifa ólíku lífi – og ennfremur minnir hann á að menn eiga jú bara eitt líf. Ef fólk vill búa við raunverulegt réttlæti er því nauðsynlegt að horfa á heiminn með augum einstaklingsins ekki samfélagsins. Það er ekki hægt að fórna hagsmunum einstaklinga í þágu heildarinnar nema til að vernda líf og eignir borgaranna. Þetta er grundvallarmunurinn á skoðunum mínum og Katrínar Júlíusdóttur. Hún virðist vera tilbúin til að fórna hagsmunum einstaklinganna undir yfirskini jöfnuðar í samfélaginu. En hvað hún er góð!"

On Golden PondSjónvarp - kvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á endursýningu á Golden Globe verðlaunahátíðinni á Stöð 2. Það versta við að horfa á endurtekningu stórverðlauna sem þessara er hversu illa er gengið á ræður verðlaunahafa og þær illa þýddar í miklum flýti. Einnig eru þær stundum klipptar svo úr verður bara partur af þeirri snilld sem fram kemur. Það er alltaf erfitt að klippa svona dagskrá, mér persónulega fannst að hefði mátt klippa meira af ræðum verðlaunahafa í sjónvarpi en kvikmyndum. Verst var farið með góða ræðu Michael Douglas sem hlaut Cesil B. DeMille verðlaunin. Senuþjófar kvöldsins í ræðum voru hinsvegar Bill Murray, Ricky Gervais, Al Pacino, Meryl Streep og Michael. Horfði á í nótt og hafði gaman af, en gott að horfa á samantektina, hafi maður séð hitt. Seinna um kvöldið sýndi Stöð 2, kvikmyndina On Golden Pond. Hafði ekki fyrr séð þessa kvikmynd, en lengi viljað sjá hana. Var þetta seinasta kvikmyndahlutverk leiksnillingsins Henry Fonda þar sem hann leikur á móti hinni stórfenglegu leikkonu Katharine Hepburn og dóttur sinni Jane Fonda. Þessi mynd er mjög sterk að öllu leyti, vel byggð upp og frábærlega leikin af leiksnillingunum Fonda og Hepburn, sem bæði hlutu óskarinn fyrir leik sinn, ennfremur fékk handrit myndarinnar óskarinn. Magnaður samleikur tveggja leiksnillinga - mynd sem allir verða að sjá.

LOTR: The Return of the KingTónlist - bækur
Keypti mér um daginn diskinn með tónlistinni úr þriðju og seinustu mynd Hringadróttinssögu. Er mikill aðdáandi þessara mynda og á tónlistardiskana úr öllum myndunum. Titillag þessarar myndar er Into the West og er tilnefnt til Óskarsverðlaunanna sem kvikmyndalag ársins og hefur þegar hlotið Golden Globe. Mögnuð tónlist Howard Shore nýtur sín vel á þessari góðu plötu, falleg tónlist sem er órjúfanlegur hluti myndanna. Er enn að lesa Einar Ben en stendur til að lesa bók Ólafs Jóhannessonar fyrrum forsætisráðherra, Lög og réttur. Las hana fyrir nokkrum árum, en stefni að því að gera aftur núna.

Vefur dagsins
Tilnefningar til óskarsverðlaunanna voru kynntar í dag. Verðlaunin verða afhent í Los Angeles, 29. febrúar nk. Kynnir hátíðarinnar verður Billy Crystal. Í dag bendi ég á heimasíðu Óskarsverðlaunanna 2004.

Snjallyrði dagsins
Go ahead, make my day!
(Dirty) Harry Callahan í Sudden Impact