Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 janúar 2004

Peter JacksonHeitast í umræðunni - pistill Björns
Golden Globe, kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin voru afhent í Los Angeles sl. nótt í 61. skiptið. Sigurvegari kvöldsins var The Lord of the Rings: The Return of the King. Var tilnefnd til fimm verðlauna en hlaut fern. Var valin besta dramatíska kvikmynd ársins og hlaut Peter Jackson leikstjóri myndarinnar, leikstjóraverðlaunin. Myndin hlaut ennfremur verðlaun fyrir eftirminnilega tónlist Howard Shore og besta kvikmyndalagið, Into The West, sungið af Annie Lennox. Kvikmyndin Lost in Translation var valin besta gaman/söngvamynd ársins, hlaut verðlaun fyrir besta handrit ársins og aðalleikara í gamanmynd, Bill Murray. Diane Keaton hlaut verðlaunin sem leikkona í gamanmynd fyrir leik sinn í Something's Gotta Give. Sean Penn var valinn besti leikarinn í dramatískri kvikmynd fyrir magnaðan leik sinn í Mystic River. Charlize Theron hlaut verðlaunin sem besta leikkonan í dramatískri kvikmynd fyrir leik sinn í Monster. Tim Robbins var valinn leikari í aukahlutverki fyrir Mystic River, og Renée Zellweger var valin leikkona í aukahlutverki fyrir Cold Mountain.

Meryl Streep og Al PacinoSjónvarpsmyndin Angels in America hlaut fimm Golden Globe verðlaun og var fyrir utan LOTR: The Return of the King sigurvegari ársins. Hlaut verðlaun sem besta sjónvarpsmynd ársins, fyrir leik Al Pacino, Meryl Streep, Mary Louise Parker og Jeffrey Wright. Verðlaun sem besti dramatíski sjónvarpsþátturinn hlaut 24, sem skartar Kiefer Sutherland í aðalhlutverki. Er ný syrpa af þeim góða þætti nýlega hafin á Stöð 2. Anthony LaPaglia var valinn besti leikarinn í dramatískum þætti fyrir leik sinn í Without a Trace og Frances Conroy besta leikkonan í dramatískum þætti fyrir hlutverk sitt í Six Feet Under. Breski sjónvarpsþátturinn The Office var senuþjófur ársins, hlaut öllum að óvörum verðlaun sem besti gamanþáttur ársins og skaut þar aftur fyrir sig mörgum þekktum bandarískum gamanþáttum. Aðalleikari þáttarsins, Ricky Gervais var valinn besti leikarinn í gamanþáttum. Sarah Jessica Parker var valin leikkona ársins í gamanþætti fyrir leik sinn í Sex and the City. Ennfremur var afganska kvikmyndin Osama valin besta erlenda kvikmynd ársins. Michael Douglas hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin. Ég fjalla ítarlega um Golden Globe verðlaunin á kvikmyndir.com í dag.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli Björns á heimasíðu hans fjallar hann um spjallfund Davíðs í Valhöll, fjallar um endurkomu Pauls Zukofsky í Kammersveit Reykjavíkur, árásir á Jakob F. Ásgeirsson og að lokum um myndlíkingar fyrrum nafnleysingja á spjallvefunum sem skrifar þar nú undir nafni. Orðrétt segir: "Í vikunni féll stjarna Howards Deans í prófkjörsslagnum um forsetaembættið meðal demókrata í Bandaríkjunum, vegna þess hve hann öskraði ógurlega eftir að hafa tapað í Iowa. Vegna skorts á dómgreind hans telja margir af flokksmönnum hans hann einfaldlega úr leik. Hvað ætli flokksmenn frjálslyndra segi um framgöngu varaformanns síns Magnúsar Þórs? Skyldu þeir mælast til þess við hann að biðjast afsökunar, úr því að einhver þarf að fara þess á leit við hann? Enginn hefur verið siðavandari í stjórnmálaskrifum undanfarin misseri en Sverrir Hermannsson, sjálfur guðfaðir Frjálslynda flokksins – hvert er viðhorf hans?"

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um hina sundurleitu Samfylkingu sem allsstaðar blasir við stjórnmálaáhugamönnum í umræðu um t.d. varnarmál og evrópumál seinasta árið, fyrir og eftir kosningarnar í fyrra, og nú hefur innri valdabarátta og sundurlyndi verið staðfest endanlega í athyglisverðri grein Birgis Hermannssonar. Ég tjái mig um kosningaslaginn í demókrataflokknum í Bandaríkjunum vegna komandi forsetakosninga þar sem hafa orðið miklar breytingar á fylgi frambjóðenda eftir að Howard Dean missti flugið og öskraði til stuðningsmanna sinna. Að lokum fjalla ég um dómgreindarbrest varaformanns Frjálslynda flokksins sem hefur sýnt sinn innri mann vel á spjallvefum seinustu daga og vakið athygli Morgunblaðsins og Stöðvar 2 með orðaflaumi sínum.

Ásta MöllerGestapistillinn
Í gestapistli á heimasíðunni fjallar Ásta Möller um Fréttablaðið og fylgir eftir umræðu um blaðið sem hún var þátttakandi í undir lok seinasta árs. Orðrétt segir Ásta: "Þessari umræðu var haldið áfram í öllum fjölmiðlum og þar hafa vefsíður og spjallsíður ekki verið undanskildar. (Reyndar eru skiptar skoðanir á því hvort vefmiðlar og spjallsíður teljist til fjölmiðla. Í erlendri grein sem ég las nýverið var því haldið fram að í Bandaríkjunum teldust vefmiðlar ekki til fjölmiðla (mass media) vegna þess að útbreiðsla netsins nær aðeins til hluta þjóðarinnar. Aðgengi og útbreiðsla netsins á Íslandi er hins vegar með þeim hætti að óhætt er að telja netmiðla til fjölmiðla). Margir sem hafa tekið þátt í umræðunni hafa haldið fram hlutleysi og sjálfstæði blaðamanna gagnvart eigendum sínum og fordæmt hugleiðingar í aðra veru." Góður pistill, hjá Ástu. Vil ennfremur þakka henni góð orð í minn garð í pistlinum.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli Ragnars á frelsinu í dag fjallar hann um lög um tóbaksvarnir. Orðrétt segir hann: "Fyrir skömmu síðan var ég staddur í matvöruverslun og beið eftir að fá afgreiðslu. Á undan mér í röðinni var enskumælandi kona sem var ráðvillt á svip. Hún hafði greinilega verið nokkra stund inni í búðinni en ekki fundið það sem hún var að leita að. Að lokum gafst hún upp og fór að kassanum og spurði afgreiðslumanninn: "I’m sorry, but don’t you sell cigarettes here?” Afgreiðslumaðurinn brosti. Þetta var greinilega ekki í fyrsta skipti sem hann hafði verið spurður að þessu. "Yes, we do. But in this country we have to hide them.” Svo hlógu þau bæði. Maðurinn hélt áfram að afgreiða viðskiptavinina en konan fór út, með sígaretturnar og góða sögu til að segja vinum sínum af hinu furðulega landi Íslandi." Ennfremur birtist á frelsinu í dag pistill Erlings um skólagjöld í HÍ og umfjöllun um stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins sem framundan er.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef míns góða félaga, Kjartans Vídó Ólafssonar. Á vef sínum tjáir Kjartan skoðanir sínar og fer yfir málin með sínum hætti. Í gær fékk ég heiðurssess á vef hans og þakka honum kærlega fyrir skrif hans í minn garð og góð orð.

Snjallyrði dagsins
Það er betra fyrir mannkynið að leyfa manni að lifa eins og honum þykir gott en að kúga hvern mann til að lifa eins og öllum gott þykir.
John Stuart Mill