Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 október 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush og John Kerry réðust harkalega að hvor öðrum vegna málefna Íraksmálsins og stríðsins gegn hryðjuverkum, í gær á kosningaferðalögum sínum um baráttufylkin í bandarísku forsetakosningunum í gær. Beittu þeir að mestu leyti sömu rökum gegn hvor öðrum og notuð voru í kappræðunum í Arizona í síðustu viku og bentu á stefnu sína og áherslur í öryggismálum. Þeir voru báðir staddir í lykilfylkinu Iowa í gær, og vinna báðir af krafti að því að ná 7 kjörmönnum fylkisins, en Bush tapaði naumlega fyrir Al Gore þar fyrir fjórum árum. Tilkynnt var í gær að Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, sem gekkst undir umfangsmikla hjartaaðgerð fyrir einum og hálfum mánuði, myndi á næstunni koma fram á fundum og halda kosningaræður til stuðnings Kerry. Er það von demókrata að framkoma Clintons með Kerry í lykilfylkjum á lokasprettinum muni auka fylgi hans. Stefnt er að því að þeir komi fram saman á kosningafundi í Pennsylvaníu á mánudag. Stóð til í upphafi að Clinton myndi vera áberandi í kosningabaráttu Kerrys, en minna varð af því en stefnt var að vegna veikinda hans. Til mótvægis við þetta hyggst forsetinn koma fram á kosningafundum eftir helgina með Arnold Schwarzenegger ríkisstjóra í Kaliforníu, og John McCain öldungadeildarþingmanni. Hvöss orðaskipti urðu milli kosningaforystu frambjóðendanna í gær eftir að Teresa Heinz Kerry sagðist í viðtali við USA Today, telja óvíst að Laura Bush forsetafrú, væri fyllilega hæf til starfa fyrir þjóðina, því hún hefði aldrei verið á vinnumarkaðnum, og vissi ekki hvort Laura hefði nokkurn tíma sinnt fullu starfi. Dró hún ummælin til baka síðar og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að forsetafrúin hefði starfað sem kennari og bókasafnsfræðingur til fjölda ára í Texas. Þótti vera um sjálfsmark að ræða hjá Teresu. Talsmaður forsetafrúarinnar sagði eðlilegt að afsökunarbeiðni væri komin frá Teresu, en athyglisvert væri að eiginkona demókrataframbjóðandans gerði sér ekki grein fyrir því að móðurhlutverkið væri fullt starf, fyrir utan annað sem þyrfti að sinna. Nú þegar 12 dagar eru til stefnu, munu frambjóðendurnir fókusera sig á atvinnu- og heilbrigðismál. Forsetinn verður í lykilfylkinu Pennsylvaníu sem hann tapaði í mjög naumlega 2000, en það hefur 21 kjörmann, á meðan Kerry verður í baráttufylkjunum Ohio og Minnesota. Harkan í kosningaslagnum eykst eftir því sem klukkan tifar.

Rocco ButtiglioneLíkur hafa nú aukist á því að Evrópuþingið muni fella nýja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem á að taka við völdum um mánaðarmótin, en kjósa á um hana á næstu dögum. Samkvæmt nýjum fréttum hafa 200 vinstrimenn á þinginu
í hyggju að krefjast þess að José Manuel Durão Barroso verðandi forseti framkvæmdastjórnarinnar og fyrrum forsætisráðherra Portúgals, finni ítalska fulltrúanum Rocco Buttiglione eitthvað annað embætti innan framkvæmdastjórnarinnar en dómsmál. Að öðrum kosti muni þeir ekki ekki samþykkja hana í heild sinni. Kosningin er þannig að kosið er um allan hópinn í einu og mun því það að hafna einum, jafngilda því að verða að hafna öllum þeim sem eru í framboði til framkvæmdastjórnarinnar. Deilurnar má rekja til þess að Buttiglione, sem er kaþólskur og mjög strangtrúaður, hefur eindregnar skoðanir á kvenréttindum, samkynhneigðum og málefnum flóttamanna sem þykja ekki vera í takt við nútímann. Eiga margir þingmenn á Evrópuþinginu erfitt með að samþykkja Buttiglione þarna inn og allra síst sem fulltrúa í dómsmálin. Það hvernig hann hefur talað um samkynhneigða og konur, bæði fyrir og eftir að hann var útnefndur í framkvæmdastjórn ESB hefur valdið mikilli úlfúð og hatri margra í hans garð. Er staðan því þannig að annaðhvort verði honum fundinn annar staður í framkvæmdastjórninni eð hún verður öll felld í kosningu þingsins. Reynir Barroso að ná samkomulagi milli hópanna um aðra niðurstöðu málsins til að friða alla aðila. Tíminn er naumur, enda aðeins 10 dagar þar til valdaskipti eiga að fara fram innan framkvæmdastjórnar ESB og því ljóst að menn eru að falla á tíma, til að finna Buttiglione annað embætti eða þá að redda hópnum öllum fyrir kosninguna, enda er hann allur bundinn saman í kjörinu, þegar kemur að því að taka afstöðu til hans.

Ályktun stjórnar SUS vegna kaupa Símans á ráðandi hlut í Skjá einum
Fidel Castro dettur og meiðir sig á hendi og fæti - orðrómur um heilsufar hans

AkureyriÍbúum fjölgar á Akureyri
Samkvæmt tölum um búsetu sem Hagstofa Íslands hefur birt fjölgaði Akureyringum um 49 á fyrstu níu mánuðum ársins 2004. Fólkið sem hingað flytur kemur flest frá nágrannasveitarfélögunum en einnig frá útlöndum. Þeir sem flytjast á brott fara jafnan til annarra landssvæða, líklega höfuðborgarsvæðisins. Þrátt fyrir að íbúum bæjarins haldi áfram að fjölga jafnt og þétt, vekur nokkra athygli hversu mikil hreyfing er á fólki. Það sem af er þessu ári hafa alls 967 flutt til bæjarins en 918 flust á brott. Á móti kemur að tölurnar endurspegla ekki heildarfjölgun bæjarbúa, enda er í þessu ekki tekið tillit til fjölda þeirra sem fæðst hafa umfram þá sem hafa látist. Á árinu 2003 fjölgaði Akureyringum um 210 eða 1,31% en þá voru aðfluttir umfram brottflutta 69 allt árið. Á meðan íbúum hér fjölgar og bærinn styrkist, fækkar þeim í nágrannasveitarfélögum okkar, mest áberandi er þetta í Dalvíkurbyggð og á Ólafsfirði þar sem mikil fækkun er. Ánægjulegt er hversu styrk staða bæjarins er. Bæjarbúum fjölgar og fasteignaverð í bænum hefur hækkað nokkuð að undanförnu. Greinilegt er að mikið líf er á fasteignamarkaðnum hér og viðbúið að svo verði áfram á næstu mánuðum. Mjög ánægjuleg þróun, svo ekki sé meira sagt, hversu styrk staða bæjarins er.

Dagurinn í dag
1916 Pétur Ottesen, 28 ára bóndi, var kjörinn á þing fyrir Borgfirðinga - Pétur sat á þingi samfellt í 43 ár, er hann lét af þingmennsku 1959 hafði hann setið á þingi lengst allra sem þar hafa tekið sæti
1933 Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um afnám bannlaganna - 15.866 greiddu atkvæði með afnámi en 11.625 greiddu atkvæði á móti því. Áfengisbann var svo formlega afnumið 1. febrúar 1935
1944 Ríkisstjórn Ólafs Thors, Nýsköpunarstjórnin, tók formlega við völdum - Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn áttu aðild að henni. Hún sat að völdum í rúmlega þrjú ár. Meginmarkmið hennar var nýsköpun atvinnulífsins og uppbygging eftir seinni heimsstyrjöldina
1961 Bjarni Jónsson vígslubiskup og fv. forsetaframbjóðandi, varð fyrsti heiðursborgari í Reykjavík
1998 Útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, fór fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík - þjóðhöfðingjar Norðurlandanna voru viðstaddir jarðarför forsetafrúarinnar. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands flutti hugljúfa minningarræðu um hana, en hann jarðsöng. Ríkisstjórn Íslands bar kistu hennar úr kirkju. Að afhöfninni lokinni var kista forsetafrúarinnar flutt í Fossvogskapellu þar sem bálför fór fram. Duftkeri forsetafrúarinnar var komið fyrir í Bessastaðakirkju skömmu eftir útförina

Snjallyrði dagsins
Forgive your enemies, but never forget their names.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

Að lokum hvet ég alla til að fá sér nýjasta diskinn með Rammstein. Tær snilld þessi diskur, sérstaklega þá lögin Amerika og Mein Teil.