Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 október 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um fjalla ég um málefnafátækt vinstriflokkanna á pólitískri eyðimerkurgöngu sinni. Sérstaklega vík ég að formanni Samfylkingarinnar og kostulegri ræðu hans á flokkstjórnarfundi um helgina og því hvernig hann sveiflast til og frá skoðanalega séð. Ekki er síður tilefni til að víkja að stöðu varaformanns Samfylkingarinnar sem svamlar um þessa stundina í pólitísku tómarúmi. Rúmur hálfur mánuður er nú til forsetakosninganna í Bandaríkjunum og baráttan milli George W. Bush og John Kerry um forsetastólinn harðnar sífellt nú þegar lokasprettur kosningabaráttunnar er hafinn af fullum krafti að loknum kappræðunum, fer ég yfir stöðuna aðeins og vík að kjörmannamálunum margfrægu. Að lokum fjalla ég um nýlegar ályktanir stjórnar Varðar og vík stuttlega að vetrarstarfi félagsins sem bráðlega hefst. Mikilvægt er að vinan vel í vetur, efla t.d. hægrisinnuð skólafélög sem fyrir eru og stofna ný þar sem engin eru fyrir hendi. Sérstaklega mikilvægt er að stofna félag hægrisinnaðra í Háskólanum á Akureyri og er það verkefni framundan. Ennfremur mun félagið opna heimasíðu á næstunni og við blasir að efla þarf umræðu beint innan hópsins um bæjarmálin, með hliðsjón af því að styttist óðum í kosningar. Stefnt er því að því að stofna bæjarmálahóp Varðar, þar sem reglulega verður lífleg umræða um bæjarmálin, hvað sé að gerast og hvað sé framundan og þar munum við vinna með bæjarfulltrúum okkar og kjörnum fulltrúum á vettvangi flokksins á að kynna stefnu okkar og ræða næstu skref. Ég legg áherslu á að félagsmenn geti komið fram með rödd sína og við í hópnum getum verið nauðsynlegt mótvægi við kjörna fulltrúa og tjá skoðanir okkar sem þar koma fram á bæjarmálafundum flokksins fyrir hvern bæjarstjórnarfund. Það er og á ávallt að vera meginmarkmið okkar að efla Sjálfstæðisflokkinn til góðra verka og efla ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum. Þannig styrkjum við flokkinn og undirstöður hans til framtíðar litið.

Egill HelgasonSunnudagsspjallþættirnir
Gaman var venju samkvæmt að horfa á sunnudagsspjallþætti sjónvarpsstöðvanna. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum fer vel af stað og þau Illugi og Katrín stjórna vel sínum þætti og koma með athyglisverðar hliðar á málin. Ólafur Teitur og Guðmundur Steingrímsson eru kraftmiklir með spjallhornið sitt og með fína gesti. Verður fróðlegt að fylgjast með þessum þætti á næstu vikum. Silfrið hans Egils var mjög gott í dag. Í fyrsta hlutanum tókust Gísli Marteinn, Mikael Torfason, Dagur B. og Bjarni Harðarson á um hitamál samtímans. Hápunkti náðu umræðurnar þegar Bjarni tjáði skoðanir sínar á DV og sagði Mikael til syndanna. Góður punktur það. Í öðrum hlutanum voru Gísli Marteinn, Ingibjörg Sólrún og Siv Friðleifsdóttir gestir. Ingibjörg byrjaði á að segja Framsóknarflokkinn ömurlegan flokk við litla hylli Sivjar, en gremjan er greinilega enn mikil í Ingibjörgu eftir að hún missti borgarstjórastólinn. ISG reif atkvæði Samfylkingarinnar af flokknum með framgöngu sinni, sem er gleðiefni. Hún vill að Íslendingar taki við Keflavíkurflugvelli, sem kostar eflaust skattpeninga og ennfremur vill Reykjavíkurflugvöll burt sem gleður varla landsbyggðarfólk. Það að ýja að því að völlurinn fari fyrir 2016 er fatal í pólitík. Gísli og Siv tóku Ingibjörgu vel í gegn þegar talið barst að pólitísku tómarúmi hennar. Karl Th. og Hallgrímur Thorsteinsson ræddu um bandarísku forsetakosningarnar og sýnd voru brot úr athyglisverðri mynd um Karl Rove. Að lokum kom Kristinn R. og ræddi spænska pólitík og Zapatero sem setið hefur sem forsætisráðherra Spánar í hálft ár. Semsagt góðir þættir að venju. Alltaf gaman að horfa á vandaða þjóðmálaumræðu í hádeginu á sunnudegi.

Dagurinn í dag
1755 Kötlugos hófst með miklum jarðskjálftum, eldingum, stórdynkjum, skruðningum, þoku, þykku sandmistri og eldsgangi. Almennt er talið að þetta gos sé mesta öskugos á sögulegum tíma í Kötlu
1970 Anwar Sadat verður forseti Egyptalands - Sadat sat á valdastóli þar til hann var myrtur 1981
1979 Móðir Teresa hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir ævistarf sitt að mannúðarmálum í heiminum
1989 Jarðskjálfti skekur San Francisco og veldur miklum skemmdum - mældist 7 Richter-stig
1998 Kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, kom til Íslands. Stutt athöfn var á Keflavíkurflugvelli vegna þess. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, minntist forsetafrúarinnar

Snjallyrði dagsins
Ljúfasta stundin
er löngu horfin
og liðið að hausti.
Skjálfa viðir,
en skipið fúnar
skorðað í nausti.

Og sorgin læðist
í svörtum slæðum
um sölnuð engi.
Blöðin hrynja
í bleikum skógum
á brostna strengi.

Löng er nóttin
og nístingsköld
við niðandi ósa.
Hjartað stinga
hélaðir þyrnar
heilagra rósa.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Haustkveðja)