Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 október 2004

Tveggja ára afmæli bloggvefsins
Í dag eru tvö ár liðin síðan ég hóf bloggskrif á netinu á þessum stað. Allt frá upphafi hafa hitamál samtímans, bæði á vettvangi innlendra og erlendra stjórnmála, verið umfjöllunarefni í skrifum mínum. Þennan vettvang hef ég notað til að tjá mínar skoðanir um helstu málin, fara yfir þau frá mörgum hliðum og vera með úttekt á því sem helst er fréttnæmt. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Fyrir nákvæmlega ári, breytti ég uppsetningunni og bætti hana stórlega, til sögunnar kom þá sá flokkur sem hefur verið leiðandi í umfjöllunni síðan, sem ég nefndi Heitast í umræðunni. Þar tek ég fyrir heitustu málin að mínu mati sem ég vil fjalla um og skrifa um þau með mínum hætti. Jafnframt hef ég frá sama tíma notað vefinn til að koma með sögumola tengda deginum sem skrifað er á og jafnframt komið með snjallyrði í lokin. Allan tímann hef ég haft sanna ánægju af þessu. Myndi varla nenna þessu, nema sönn ástríða á umfjöllunarefnunum og hjartans áhugi á þjóðmálum væri fyrir hendi. Pælingarnar halda áfram af krafti.

bestu kveðjur og kærar þakkir fyrir samfylgdina
Stefán Friðrik Stefánsson


George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
13 dögum áður en bandarískir kjósendur taka þá ákvörðun hver verði forseti Bandaríkjanna næsta kjörtímabilið, eru forsetaframbjóðendurnir á ferð og flugi um landið, einkum að hitta óákveðna kjósendur í þeim 8 fylkjum sem mesta baráttan verður um á lokasprettinum. Þar er fylgi þeirra svo jafnt að ógerlegt er að spá um hvor muni bera sigur úr býtum. Þessi fylki og úrslit í þeim munu ráða úrslitum um það hvort George W. Bush eða John Kerry hljóta lyklavöld í Hvíta húsinu eftir 20. janúar 2005. Mikil harka hefur færst í málflutning forsetaefnanna nú á lokasprettinum og er öllu tjaldað til. Bæði forsetaefnin voru á ferðalagi í Flórída í gær og þó fjarlægðin væri ekki mikil þeirra landfræðilega séð er fjarlægðin í boðskap þeirra gríðarleg. Gagnrýna forsetaframbjóðendurnir nú hvorn annan vegna skorts á bóluefni við inflúensu í Bandaríkjunum. Demókratar réðust að forsetanum í auglýsingu í gær. Á kosningafundi í Flórída í gær sagði Kerry að áætlanir Bush í heilbrigðismálum miðuðust við að hinn almenni borgari mætti ekki við því að veikjast. Bush svaraði keppinaut sínum með því að saka hann um að beita hræðsluáróðri. Forsögu málsins má rekja til þess að skortur á bóluefni í Bandaríkjunum myndaðist eftir að í ljós kom að allt bóluefni frá breskri verksmiðju bandaríska lyfjaframleiðandans Chiron var með öllu ónothæft. Chiron hefur jafnan séð Bandaríkjamönnum fyrir um helmingi alls flensubóluefnis. Á kosningafundi í St. Petersburg í Flórída í gær sagði forsetinn að stjórn hans myndi taka á málinu og allir sem vildu myndu fá sprautu. Með tilliti til sögunnar er Flórída mikilvægt fylki, allt stefnir í að úrslit þar hafi mikið um að segja líkt og fyrir fjórum árum hvor muni vinna kosningarnar. Kosning hófst þar í gær og er hún með rafrænum hætti. Ekki lofaði byrjunin góðu enda biluðu tölvur, kjörseðlar voru rangir og kjörstaðir reyndust of fáir. Ekki stefnir í betri stöðu mála í fylkinu og eru frambjóðendur reiðubúnir hinu versta og hafa ráðið tug lögfræðinga til að vinna fyrir sig í fylkinu að því að gæta hagsmuna sinna. Í dag heldur baráttan áfram. Forsetinn fer til Iowa, Minnesota og Wisconsin en Kerry verður í Iowa og Pennsylvaníu. Allt er lagt í sölurnar í baráttunni um atkvæði hins óákveðna kjósanda.

Alexander LukashenkoSamkvæmt því sem stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hafa tilkynnt virðast kjósendur þar hafa samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að forsetar geti setið lengur í embætti en í tvö kjörtímabil. Samkvæmt þessu er Alexander Lukashenko forseta landsins, heimilt að bjóða sig fram í þriðja sinn í forsetakosninunum árið 2006. Flest bendir til að maðkur sé í mysunni, hvað varðar atkvæðatölur. Stjórnvöld og kosningastjórnir á þeirra vegum fullyrða að tæp 80% landsmanna hafi samþykkt tillöguna og því það að veita forsetanum heimild til framboðs í þriðja sinn. Er líklegast að brögð hafi verið í tafli í kosningunni og fullyrða stjórnarandstæðingar að niðurstöðunum hafi verið hagrætt svo Lukashenko geti stjórnað landinu með einræðistilburðum áfram. Hann hefur ríkt í landinu í áratug, allt frá 1994, en nokkrum árum áður hafði landið hlotið sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Er hann oft nefndur síðasti einræðisherrann í Evrópu. Athygli vakti að skömmu eftir að kjörstaðir lokuðu gat Lidiya Ermoshina formaður kjörstjórnar, fullyrt að sigur forsetans væri afgerandi og nefndi strax töluna um 80% eins og um væri að ræða fyrirfram ákveðna tölu. Hún gaf ekki upp heildaratkvæðatölur eða niðurstöður úr einstökum kjördæmum við það tækifæri. Er sorglegt að fylgjast með þessu einræði í landinu. Augljóst er að forsetinn ætlar sér að drottna áfram og beitir til þess kosningasvikum og bellibrögðum til að haldast áfram á valdastóli, þegar svo augljóst er að hann nýtur ekki trausts stórs hluta landsmanna til setu á valdastóli. Fulltrúar Öryggis-og samvinnustofnunar Evrópu hafa í áliti sínu um kosninguna tortryggt niðurstöðuna, enda kosningarnar verið haldnar í andrúmslofti ógnar, hótunum verið beitt, umræður verið kæfðar með öllu, og frjálsir fjölmiðlar ekkert svigrúm fengið. Fjöldamótmæli eru í landinu og andstaðan við forsetann verður sífellt sýnilegri.

Dr. Jeffrey WigandViðtal við dr. Jeffrey Wigand
Sl. sunnudagskvöld ræddi Sigmar Guðmundsson við dr. Jeffrey Wigand í Kastljósinu. Eins og öllum ætti að vera kunnugt var dr. Jeffrey Wigand rekinn úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, fyrir áratug eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætti miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fór að gruna að hann myndi veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skáru á allar greiðslur til hans, hann fékk líflátshótanir og það var njósnað um hann. Ákvað Jeffrey að leita til Lowell Bergman fréttastjórnanda hjá CBS og tala í kjölfarið við Mike Wallace fréttamann í 60 Minutes um málið. Í kjölfar þess var Wigand ákærður fyrir samningsrof og allt var tekið af honum: húsið og sjúkratrygging hinnar astmasjúku dóttur hans. Þar með voru góð ráð dýr fyrir Jeffrey. Vegna hótana fyrirtækisins í garð CBS var viðtalið aldrei sent út, en það varð upphaf skriðu sem leiddi til þess að tóbaksfyrirtækin urðu að viðurkenna skaðsemi reykinga og fengu yfir sig skaðabótamál reykingamanna um allan heim. Saga hans var sögð í kvikmyndinni The Insider og skartaði hún leikaranum Russell Crowe í hlutverki Wigands. Var um að ræða mjög athyglisvert viðtal og áhugavert á að horfa. Fróðlegt var að heyra lýsingar Wigands á þessu máli öllu, skoðunum hans á tóbaki og skaðsemi þess og síðast en ekki síst stöðu mála núna hvað varðar reykingar. Dr. Wigand kom hingað til lands til að flytja fyrirlestur um tóbaksmálefni og reykingar almennt. Hvet ég alla til að kynna sér þetta mál betur með því að horfa á kvikmyndina um málið, hafi þeir ekki séð hana nú þegar.

Dagurinn í dag
1728 Mikill eldur kom upp í Kaupmannahöfn - þar brann stór hluti bókasafns Árna Magnússonar
1905 Landsdómur stofnaður til að dæma í málum gegn ráðherrum fyrir brot á stjórnarathöfnum - allt frá stofnun dómsins hefur hann aldrei komið saman, enda ekki þótt neitt tilefni að svo skyldi vera
1968 Jacqueline Bouvier Kennedy fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ekkja John F. Kennedy 35. forseta Bandaríkjanna, giftist milljarðamæringnum Aristotle Onassis í Grikklandi - brúðkaup þeirra olli mjög miklum deilum. Það var ástlaust að mestu, en entist til andláts Onassis 1975 - Jackie lést 1994
1973 Óperuhúsið í Sydney formlega tekið í notkun - ein glæsilegasta menningarbygging sögunnar
1989 Borgarleikhúsið í Reykjavík var vígt - það var 13 ár í byggingu og var um 10.000 fm. að stærð

Snjallyrði dagsins
I am extraordinarily patient, provided I get my own way in the end.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands