Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 nóvember 2005

ISG og Össur

Í gær birtist ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Samfylkingin dalar þar á meðan að VG og Sjálfstæðisflokkur styrkja stöðu sína. Sjálfstæðisflokkurinn hlyti 38,7%, Framsóknarflokkurinn hlyti 9,9%, Frjálslyndi flokkurinn 3,4%, Samfylkingin 29,4% og VG 18,2%. Þetta hlýtur að vera vonbrigði fyrir Samfylkinguna - enda sér maður að margir þar innanborðs eiga erfitt með að leyna gremju sinni. Aðrir þegja bara - fúlir með stöðuna. Í dag er hálft ár liðið frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Staðan hefur legið sífellt niður á við allan þennan tíma - engin uppsveifla hefur orðið í flokknum. Þetta er auðvitað merkilegt í því ljósi að þessi flokkur hefur aldrei setið í stjórn og hefur markvisst spilað vinsældapólitík. En kannski er það einmitt það sem hefur snúist í höndum flokksins og ISG. Pópúlismi endar oft þannig að fólk verður ótrúverðugt. Ég tel að þetta sjáist vel í almennri stjórnmálaumræðu að undanförnu þar sem vandræðagangur Samfylkingarinnar bæði kemur vel og kristallast í vinnubrögðum innbyrðis.

Tölur í skoðanakönnunum hljóta að vera Ingibjörgu Sólrúnu og stuðningsmönnum hennar í formannskjörinu fyrr á árinu allnokkur vonbrigði. Varla bjuggust stuðningsmennirnir við því að formennska hennar myndi skila um tíu prósent lægra fylgi næstu mánuðina á eftir? Varla. En sú er nú samt raunin. Vandræðagangur Ingibjargar Sólrúnar virðist vera algjör staðreynd sé fyrsta hálfa árið metið nú þegar hún hefur setið á stólnum nákvæmlega í sex mánuði. Ingibjörg Sólrún hefur enda átt verulega erfitt með að fóta sig á sviðinu eftir að hafa loks fengið að leiða þennan flokk. Henni virðist sérstaklega reynast erfitt að fóta sig pólitískt eftir að Davíð fór úr stjórnmálum. Öll hennar stjórnmálabarátta seinustu árin, eftir að hún kom aftur inn í landsmálin, eftir misheppnaða útgöngu úr hlutverki sameiningartákns R-listans (sem lauk með harkalegum hætti) hefur enda miðast við andstöðuna við Davíð Oddsson. Hún hefur allan þann tíma reynt að skáka Davíð. Henni hefur ekki tekist það og er vandræðaleg eftir brotthvarf hans.

Óhætt er að segja svo að gullkorn hafi fallið á þingi í vikunni þegar að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, svaraði gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar um verkefnaleysi ríkisstjórnarinnar í þingmálum - sakaði Ingibjörg Sólrún stjórnina um að eiga erfitt með að leggja mál sín fram. Þessu svaraði forsætisráðherra með góðu háði. Ummæli hans kölluðu fram hlátur þingmanna - á meðan var formaður Samfylkingarinnar ekki brosmild. Hún var ekki glöð - ólíkt flestum þingmönnum sem áttu erfitt með að verjast hlátri. Með þessu tókst forsætisráðherra að afvopna málflutning formanns Samfylkingarinnar og ekki síður að gera hana hlægilega í augum þingmanna - og áhugamanna um stjórnmál. Eins og kannanir eru að sýna okkur þessa dagana er vandræðagangur Samfylkingarinnar og leiðtoga hennar orðinn öllum sýnilegur. Kannanir eru vissulega bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í könnunum seinasta hálfa árið.

Staða mála í þeim mælingum liggur fyrir. Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún heldur á forystukeflinu hjá þessum flokki. Væntanlega setur hún allt sitt í að reyna að rétta kúrsinn fyrir næstu kosningar - hún leggur jú allt í þær kosningar. Enda veit hún að sénsarnir verða vart fleiri misheppnist sú pólitíska forysta sem hún leggur þá í dóm landsmanna. Þá er hætt við að þeir sem studdu hana til forystusessins og töluðu svo digurbarkalega um forna sigra hennar leiti í aðrar áttir eftir einhverjum til að mæra til forystu í Samfylkingunni.

Ariel Sharon

Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, baðst í dag lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Hann gekk á fund Moshe Katsav forseta Ísraels, og bað hann um að rjúfa þing og boða kosningar fljótlega. Skömmu síðar tilkynnti Sharon opinberlega að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið, sem hann hefur leitt frá árinu 1999. Hann var einn af stofnfélögum í flokknum árið 1973 og verið lykilforystumaður innan hans alla tíð. Sharon, sem er 77 ára gamall, er ekki að víkja af pólitísku sviði með þessu. Hann hyggur á stofnun nýs stjórnmálaflokks. Vinna við stofnun nýja flokksins mun vera komin á fullt. Sharon, sem verið hefur forsætisráðherra Ísraels í tæp fimm ár, leggur margt að veði með því að boða fyrr til kosninga en ella og að segja skilið við Likud-bandalagið.

Reyndar var stjórn hans fallin - hafði misst þingstyrk sinn - en Sharon leggur allt að veði með því að segja skilið við grunnstöð sína í stjórnmálabaráttu. Er augljóst að hann ætlar með þessu að einangra harðlínumenn innan Likud og ná miðjunni á sitt vald á meðan að Verkamannaflokkurinn er á greinilegri vinstrisiglingu eftir að lítt þekktur verkalýðsleiðtogi varð foringi flokksins nýlega. Heppnist þessi leikflétta Sharons mun blasa við gjörbreytt pólitískt landslag á komandi árum.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, átti sína bestu viku á forsætisráðherraferlinum að mínu mati í síðustu viku. Það er orðið mjög merkilegt að sjá hvernig Halldóri er að takast að snúa áður lánlausri stöðu sér nú í vil. Svo virðist sem að formaður Samfylkingarinnar hafi tekið við hinu mikla lánleysi sem áður einkenndi Halldór. Nú yfirfærist það yfir á Ingibjörgu Sólrúnu. Eru annars ekki allir sammála um það að ISG er orðin pólitískt aðhlátursefni? Það blasir við flestum. Væntanlega eru helstu flokkshestar Samfylkingarinnar ekki sammála þessu af skiljanlegum ástæðum. Ég hélt að ég myndi seint hrósa Halldóri beint. En ég ætla að gera það. Hann hitti í mark í gær að mínu mati. Hann afvopnaði gagnrýni Spaugstofunnar í sinn garð og talið um að hann væri í fýlu yfir því að Pálmi hermdi eftir honum og fengi Edduna fyrir. Hvað gerði Halldór? Jú, hann mætti í afmælishóf Spaugstofumanna í Þjóðleikhúskjallaranum - flutti skondna ræðu og heillaði salinn og þjóðina um leið. Þar allt að því losaði hann sig við neikvæðu áruna sem yfir honum hefur verið. Hann er greinilega að ná sér á strik.

Helmut Schmidt og dr. Kristján Eldjárn

Í síðustu viku kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggist bókin á minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980. Er þar sjónum einkum beint að inngripi hans í stjórnarmyndanir í forsetatíð sinni. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir Kristjáni Eldjárn. Þar fór maður sem kunni að feta millistig í innri deilum í þjóðfélaginu. Hann leiddi átakamálin til lykta. Niðurstaðan er sú að hann virkar í sögubókunum hafa verið óumdeildur forseti sem sameinaði landsmenn í pólitískum og þjóðfélagslegum átökum. Eins og sést af bók Guðna og hinni snilldarvel rituðu ævisögu Gylfa Gröndal um Kristján tók hann á stórum átakamálum. Hann leysti þau með sóma. Hinsvegar þurfti hann að vera forseti á átakatímum í stjórnmálum. Það var stanslaus stjórnarkreppa öll seinustu misseri forsetatíðar Kristjáns og þurfti í raun að vera sá sem hélt á stjórnmálalitrófinu. Það gerði hann með sóma - svo leitun er að faglegri vinnubrögðum. Enda á forseti að vinna með þeim hætti að meirihluti þingsins ráði för við myndun stjórna og fara á ella eftir stærð flokka við myndun þeirra.

Akureyri

Á laugardag kom stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna saman á Akureyri og fundaði. Ennfremur komu þar saman formenn aðildarfélaga í SUS og fóru yfir málin á formannaráðstefnu SUS. Var þar farið yfir málefni Norðausturkjördæmis, innra starfið í ungliðahreyfingunni og málefni Sjálfstæðisflokksins. Kl. 16:00 hófst opinn fundur á Hótel KEA á Akureyri, sem fjallaði um kosti einkaframkvæmdar í samgöngum. Framsöguerindi flutti Pétur Þór Jónasson formaður Greiðrar leiðar, félags um göng undir Vaðlaheiði. Eftir fróðlega kynningu hans á málinu gafst fundarmönnum kostur á að spyrja og tjá sínar skoðanir. Var þetta góð og skemmtileg helgi og ánægjulegt fyrir okkur forystufólk í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, að fá forystumenn SUS og aðildarfélaga sambandsins hingað norður til fundahalda. Mikilvægt er að hlúa að landsbyggðarstarfinu og er ljóst að fundahald ungliða á landsbyggðinni skiptir máli - í aðdraganda tveggja mikilvægra kosninga.


Að lokum vil ég í dag minna á hina vel heppnuðu endurútgáfu Þorvaldar Bjarna og Einars Bárðarsonar á laginu Hjálpum þeim, eftir Axel Einarsson og Jóhann G. Jóhannsson. Það var vel til fundið hjá þeim að taka upp lagið að nýju. Það er sígilt - á sama erindi til landsmanna nú og það gerði fyrir tveim áratugum. Hvet ég alla til að hlusta á lagið á tonlist.is og auðvitað að kaupa geisladiskinn þegar hann kemur út - og styrkja verðugt málefni.

Saga dagsins
1974 Sprengja grandar 21 manns í sprengjuárás IRA í Birmingham - 6 einstaklingar voru sakfelldir fyrir að hafa átt aðild að verknaðinum en sakleysi þeirra var staðfest árið 1991. Málið varð aldrei upplýst.
1975 Gunnar Gunnarsson skáld, lést, 86 ára að aldri - Gunnar var eitt helsta skáld Íslands á 20. öld. Meðal þekktustu verka Gunnars á löngum ferli voru Saga Borgaraættarinnar, Svartfugl og Fjallkirkjan.
1985 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, hittust á leiðtogafundi í Genf í Sviss - fundurinn var upphaf að ferlinu sem leiddi til endaloka kalda stríðsins.
1995 Leiðtogar Bosníu-Herzegóvínu, Króatíu og Serbíu sömdu um frið í Bosníu á fundi í Dayton.
2002 NATO samþykkir formlega aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu að bandalaginu - aðild þessara fyrrum kommúnistaríkja tók formlega gildi hinn 1. apríl 2004.

Snjallyrðið
Every young man would do well to remember that all successful business stands on the foundation of morality.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)