Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 nóvember 2005

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Óhætt er að segja að prófkjörið hafi verið glæsilegt í alla staði. Sjálfstæðisflokkurinn kemur mjög sterkur út úr því - ljóst er að sjálfstæðismenn hafa valið kraftmikinn og glæsilegan framboðslista sem telst mjög sigurstranglegur í væntanlegri kosningabaráttu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem leitt hefur borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins síðan í maímánuði 2003 er Björn Bjarnason varð ráðherra að nýju, vann glæsilegan sigur í leiðtogaslagnum í prófkjörinu. Hann hlaut 6.424 atkvæði í fyrsta sætið á listanum, rúmlega helming gildra atkvæða, og því öflugt og gott umboð flokksmanna. Óska ég honum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

Gísli Marteinn Baldursson varð vissulega undir í leiðtogaslagnum, sem hafði verið snarpur og öflugur, en hann má engu að síður nokkuð vel við una. Hann fær góða kosningu í þriðja sæti listans og er kominn í forystusveit flokksins í borginni af krafti. Gísli Marteinn skipaði sjöunda sæti framboðslistans árið 2002 en náði ekki kjöri eins og allir vita í kosningunum. Hann hefur verið fyrsti varaborgarfulltrúi síðan og sem slíkur virkur í borgarstjórnarflokknum. Hann tók þá ákvörðun að sækjast eftir leiðtogastólnum og bauð flokksmönnum val um að færa nýrri kynslóð forystu listans. Það var rökrétt að hann hefði metnað og áhuga til forystu.

Niðurstaðan er með þessum hætti - umfram allt eru það flokksmenn í borginni sem taka ákvörðunina og það er fyrir öllu. Það var gott að sjálfstæðismenn í Reykjavík höfðu prófkjör og færðu hinum almenna flokksmanni valdið í þessum efnum. Mitt mat er það að Vilhjálmur Þ. hafi umfram allt í þessu prófkjöri notið reynslu sinnar og yfirburðaþekkingar á borgarmálum. Það deilir enginn um það að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þekkir borgarmálin eins og lófana á sér. Hann hefur setið í borgarstjórn frá árinu 1982, er Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til valda, og hefur verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga allt frá árinu 1990.

Á valdatíma flokksins 1982-1994 var Vilhjálmur í fjölda nefnda fyrir flokkinn og leiddi af krafti mörg lykilmál. Síðan hefur hann verið í öðru sæti framboðslistans þrisvar og lykilmaður í innra starfi borgarstjórnarflokksins og stefnumótun hin seinni ár. Það er ekki óeðlilegt að flokksmenn telji að hann eigi að fá tækifæri til að leiða listann í þessum kosningum - eigi að hafa tækifæri til að leiða flokkinn til sigurs. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Vilhjálmur Þ. mun leiða flokkinn til sigurs í þessum kosningum að vori. Reynsla hans og þekking mun allavega blandast vel við það sem aðrir frambjóðendur hafa fram að færa.

Hanna Birna Kristjánsdóttir kemur mjög sterk út úr þessu prófkjöri. Er hún hinn sanni sigurvegari prófkjörsins að mínu mati. Hún gaf kost á sér í annað sætið - fékk verðugan keppinaut í baráttu um það sæti - og hafði afgerandi sigur og glansar í gegnum prófkjörið. Hún fékk mjög öflugan stuðning til verka og fær annað sætið með mjög glæsilegum hætti. Ég hef þekkt Hönnu Birnu í allnokkur ár - unnið með henni í flokksstarfinu og tel mig því þekkja vel til verka hennar. Hún er mjög öflug og sterk - hefur staðið sig vel í starfinu fyrir flokkinn sem aðstoðarframkvæmdastjóri og sem stjórnmálamaður í borginni.

Ég man að þegar listanum var stillt upp síðast voru margir sem sögðu að Hanna Birna hefði ekki kjörþokka og gæti ekki hafa hlotið slíkan árangur í prófkjöri. Hún sannaði í prófkjörinu að hún hefur stuðning og það afgerandi stuðning til verka. Hún hefur allavega hlotið afgerandi umboð flokksfélaga í borginni til forystu og hlýtur að verða forseti borgarstjórnar er flokkurinn tekur við völdum. Óska ég henni til hamingju með góðan árangur sinn í þessu kjöri. Mesta gleðiefnið í þessu prófkjöri er að mínu mati glæsilegur árangur kvennanna sem gáfu kost á sér. Mér fannst það reyndar dapurlegt að aðeins fimm konur voru í kjöri af alls 24 frambjóðendum.

Allt voru þetta þó öflugar og glæsilegar konur sem vöktu athygli í prófkjörsslagnum. Þær náðu enda allar góðum árangri. Verða þær allar í forystusveitinni, náðu allar kjöri í efstu tíu sæti. Það er mikið styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa tryggt svo góða stöðu kvennanna fimm sem í kjöri voru. Það er allavega sannkallað gleðiefni að sjálfstæðismenn sýna að það þarf enga kynjakvóta eða hólfaskiptingar til að tryggja góðu stöðu kvenna. Þessi niðurstaða ætti að vera umhugsunarefni fyrir konur sem tala fyrir hinum arfavitlausu og ósanngjörnu kynjakvótum. Allar konurnar háðu baráttu sína vegna eigin verðleika og verka í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi.

Allar hlutu þær brautargengi til forystustarfa fyrir flokkinn. Sérstaklega er glæsilegt að sjá hversu góð útkoma Sifjar Sigfúsdóttur er. Hún var ein fárra frambjóðenda sem hvorki hafði heimasíðu eða kosningaskrifstofu. Árangur hennar er glæsilegur. Sif valdist til setu í hinu mikilvæga áttunda sæti framboðslista flokksins. Nái hún kjöri í borgarstjórn hlýtur flokkurinn meirihluta í borgarstjórn næstu fjögur árin. Er gleðiefni að þrjár glæsilegar konur skipa mikilvægustu sætin sem verða öll að vinnast. Tobba, Jórunn og Sif eru allt konur sem mikill fengur er að í baráttuna. Eins og skoðanakannanir hafa verið að spilast er Sif gulltrygg inn í borgarstjórn.

Reyndar virðist mér á seinustu tveim skoðanakönnunum Gallups að verið sé að spila um níunda mann sjálfstæðismanna inn í borgarstjórn. Það er að mínu mati ekki óviðeigandi að stimpla níunda sætið sem hið sanna baráttusæti. Bolli Thoroddsen formaður Heimdallar, hlaut góða kosningu í prófkjörinu og náði kjöri í níunda sæti listans. Hlaut hann því bindandi kosningu. Árangur hans er mjög góður og vekur sérstaka athygli í ljósi deilna sem verið hafa innan Heimdallar seinustu vikurnar. Eins og úrslitin spilast leikur enginn vafi á að hann hefur í senn bæði gott og traust umboð flokksmanna á öllum aldri til setu á listanum og er kominn í baráttusveitina fyrir næstu kosningar.

Eins og fyrr segir hafa kannanir Gallups verið að spilast með þeim hætti að níundi maður framboðslistans sé inni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að menn eigi að leggja kosningabaráttuna upp með þeim hætti að tryggja kjör Bolla Thoroddsen inn í borgarstjórn - tryggja að unga kynslóðin í flokknum eigi tryggan fulltrúa inn í borgarstjórn. Það væri glæsilegt fyrir okkur alla hægrimenn ef flokkurinn hlyti sterkt og gott umboð með því að ná inn níu borgarfulltrúum í þessum kosningum. Öll hljótum við að vilja sigur flokksins sem stærstan.

Nú er prófkjöri lokið. En með því er baráttan aðeins rétt að byrja. Stærstu átökin - þau mikilvægustu - eru eftir nú. Borgin verður að vinnast með sannfærandi og öflugum hætti. Nú er mikilvægt að allir sjálfstæðismenn, ungir sem gamlir, sameinist í lykilverkefni: tryggja öflugan og góðan sigur í kosningum. Tryggja að þessi góði listi verði sú sigursveit sem við flokksfólk erum öll sannfærð um að hann sé. Þessi listi þarf að vinna kosningarnar með kraftmiklum hætti í maí. Tryggja þarf að Vilhjálmur Þ. verði borgarstjóri og taki við völdum með þennan samhenta lista að baki sér.

Andstæðingar eiga erfitt með að tala nú þegar listinn liggur fyrir. Hann er svo sterkur - umfram allt kraftmikill - að andstæðingarnir eiga ekki mörg góð svör við honum. Öflug staða kvenna og blanda reynslubolta og nýliða í borgarmálum skapar mörg sóknarfæri að mínu mati fyrir þennan lista að ná þeim árangri sem við í flokknum viljum öll að hann nái. Framundan er krefjandi verkefni fyrir frambjóðendur - að sigra kosningarnar af krafti með sterka málefnaskrá og bjartsýni á framtíðina að leiðarljósi.

Stefán Jón Hafstein

Eins og fyrr segir eru vinstrimenn í borginni óánægðir með það hversu vel tókst til í prófkjöri sjálfstæðismanna. Einn vinur minn í borginni, sem er vinstrimaður, sagði enda að listi okkar sjálfstæðismanna væri eins og hann væri hannaður á auglýsingastofu. Svo vel sé hann valinn. Eins og við er að búast eru fulltrúar hins látna R-listans teknir að ókyrrast mjög. Allar skoðanakannanir sem birst hafa eftir dauða R-listans síðsumars hafa sýnt hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Flokkarnir sem standa nú að R-listanum eru fjarri því að ná meirihluta saman. Þar að auki er ósamlyndið milli þeirra sífellt meira greinilegra dag frá degi.

Enn á þetta fólk eftir að stjórna borginni væntanlega í hálft ár - hanga sem fyrr saman valdanna vegna. Þau verða úrillari með hverjum deginum. Þessa dagana er svo borgarstjórinn á ferð um borgina og virðist komin í prófkjörsbaráttu á kostnað borgarbúa. Fagurflennuauglýsingar birtast í öllum fjölmiðlum af borgarstjóranum að reyna að bæta pólitíska stöðu sína - en hinsvegar er þessi prófkjörsbarátta í dulargervi hverfafunda. Mjög skondið. Það er svosem ekki furða að á sama tíma og borgarstjórinn sé búin að starta kosningabaráttu á kostnað skattborgara og sjálfstæðismenn hafa valið sterkan lista í prófkjöri vaknar úrillur sem aldrei fyrr Stefán Jón Hafstein.

Nafni minn birtist í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 á sunnudagskvöldið og tjáði sig um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins. Fýluna lak af honum - eins og vænta mátti er hann talaði um flottan lista sjálfstæðismanna. Þar sagði hann að leiðtogi sjálfstæðismanna, Vilhjálmur Þ., væri fulltrúi gamla íhaldsins sem borgarbúar hefðu kosið burt fyrir áratug og að úrslitin í prófkjöri sjálfstæðismanna hafi horft til fortíðar. Tek ég undir með Vilhjálmi og kalla þennan talsmáta Stefáns Jóns algjört vonskukast. Staðreyndin er sú að Vilhjálmur Þ. er kjörinn leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í fjölmennasta prófkjöri í stjórnmálasögu Íslands - þar sem rúmlega 12.000 manns tóku þátt.

Umboð hans er því skýrt - greinilegt er að Vilhjálmur Þ. hefur notið stuðnings í öllum aldurshópum. Allt tal Stefáns Jóns eru því algjörir órar. Var talsmátinn honum til mikillar minnkunar. Kostulegt var svo að sjá í fjölmiðlum í dag Stefán Jón byrjaðan í prófkjörsbaráttu gegn hinum hlustandi borgarstjóra. Byrjar hann með trompi, t.d. blaðaauglýsingu í dag þar sem hann notar merki Samfylkingarinnar. Hefur það leitt til átaka innan Samfylkingarinnar - sem von er. Mikil innri barátta er greinilega í gangi þar.

Hermann J. Tómasson

Prófkjör Samfylkingarinnar á Akureyri fór fram um helgina. Það kom engum á óvart að Hermann Jón Tómasson varabæjarfulltrúi flokksins og áfangastjóri í Verkmenntaskólanum á Akureyri, var kjörinn leiðtogi framboðslista þeirra með miklum yfirburðum. Sigraði hann keppinaut sinn, Hermann Óskarsson formann kjördæmisráðs Samfylkingarinnar og lektor við HA, en þeir nafnar voru einir í kjöri um fyrsta sætið. Hafði verið ljóst mjög lengi að Hermann Jón myndi fá leiðtogastólinn. Gaf Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi, ekki kost á sér þegar að ljóst var að hún nyti ekki fylgis í leiðtogastöðuna áfram og að Hermann Jón myndi gefa kost á sér í fyrsta sætið.

Hermann Jón hefur verið mjög lítið áberandi í stjórnmálum, nema þá sem varamaður Oktavíu endrum og eins á bæjarstjórnarfundum og sem nefndarmaður í skólanefnd. Reynir nú á hvernig hann sé sem leiðtogi, en hann hefur auðvitað enga reynslu af leiðtogastörfum í pólitík. Í öðru sætinu varð Sigrún Stefánsdóttir. Sigrún er hin mætasta kona. Er hún eins og Hermann Jón ættuð frá Dalvík og þekki ég því vel til þeirra beggja, og þekki fjölda fólks í fjölskyldum þeirra. Sigrún hefur verið lengi í bæjarmálunum hér og kemur árangur hennar engum að óvörum. Í þriðja sætinu varð svo Helena Karlsdóttir, sem er tiltölulega ný í stjórnmálum.

Í fjórða sætinu varð Margrét Kristín Helgadóttir, 23 ára laganemi við HA og fyrrum formaður ungliða kratanna hér í bæ. En vegna þess að Samfylkingin ákvað að styðjast við afdalakynjakvóta verður Margrét Kristín að sjá á eftir hinu örugga fjórða sæti til karlmanns. Sætið tekur sá sem varð fimmti í kjörinu, Ásgeir Magnússon fyrrum bæjarfulltrúi. Það er undarleg auglýsing fyrir Samfylkinguna á Akureyri að þeir vísi 23 ára gamalli konu, sem áhuga hefur á stjórnmálum og hlotið lýðræðislegt kjör í fjórða sætið, niður og taki upp afdankaðan karlmann sem hefur verið sparkað í prófkjöri áður.

Eins og flestir muna var Ásgeir gerður afturreka úr bæjarmálunum hér fyrir seinustu kosningar er Oktavía sigraði hann í leiðtogaslag innbyrðis í Samfylkingunni. Nú er hann endurunninn og færður upp á kostnað ungrar konu í stjórnmálum. Það er ekki nema furða að þessi staðreynd sé lítt auglýst af Samfylkingarfólki hér í bæ. Ef þessi niðurstaða sannar ekki hversu ruglaðir kynjakvótarnir eru, ja þá veit ég ekki hvað sannar það. Athygli vekur að formanni kjördæmisráðs og formanni Samfylkingarfélags Akureyrar er hafnað í kjörinu.

Það er merkilegt - svo virðist vera sem að flokksmenn meti ekki forystu þeirra og verk fyrir þennan flokk.

Akureyrarkirkja

Á sunnudaginn var allra heilagra messa. Að því tilefni fór ég snemma á fætur þann morguninn og fór eftir að hafa fengið mér morgunverð í messu í Akureyrarkirkju - kirkjunni minni. Nýr prestur okkar Akureyringa, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, predikaði þessu sinni. Hann tók til starfa í haust, eftir að sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir kvaddi okkur og hélt til annarra verkefna erlendis. Óskar er mjög góður prestur og stendur sig vel að mínu mati. Það er reyndar nokkuð merkilegt að átta sig á því að nýr prestur er jafngamall manni sjálfum. En Óskar byrjar vel. Eftir messuna var fræðslustund og léttar veitingar í safnaðarheimilinu. Þar fræddu Hirut Beyene og Kusse Koshoso frá Konsó í Eþíópíu okkur um kristniboð og hjálparstarf í Afríku. Mjög áhugavert. Eftir athöfnina átti ég stund með sjálfum mér upp í kirkjugarði. Þar hvíla ástvinir og ættingjar sem mér eru kærir. Þegar ég vil styrkja sjálfan mig og íhuga ýmis mál fer ég þangað uppeftir og á stund með sjálfum mér og hugsa um þá sem mér hefur þótt vænt um - en hafa kvatt þessa jarðvist, sumir alltof snemma.

Eftir það heimsótti ég ömmubróður minn, Kristján Stefánsson, sem nú liggur upp á spítala. Ég get ekki annað en dáðst af styrk þessa mæta manns sem mér er svo kær en hann berst nú ójafnri baráttu við skæðan sjúkdóm. Kiddi hefur alla tíð verið kraftmikill og heilsteyptur maður. Frá því ég man eftir mér hefur hann verið til staðar - hann hefur umfram allt sinnt öllum öðrum en sjálfum sér. Verið trúr ættingjum sínum og hlúð að þeim. Mér fannst aðdáunarvert að horfa á hann eyða síðustu misserum þess tíma sem hann hafði góða heilsu í að hlúa að Stínu, konu sinni, og Hugrúnu, systur sinni, en þær voru undir lok ævi sinnar báðar að berjast við Alzheimer-sjúkdóminn. Kiddi sinnti Stínu svo vel að hún fór aldrei á stofnun, nema rétt undir lokin. Þar kynntist ég hversu sterk ást og trú getur verið. Hann hugsaði um Stínu af sannri ástúð allt til loka. Vissulega er leitt að horfa upp á þá sem manni þykir vænt um kveljast. Kiddi hefur alla tíð stutt mig heilshugar - nú ætla ég svo sannarlega að styðja hann í baráttunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður stödd á Akureyri í dag og mun þá heimsækja framhaldsskólana og ræða hitamál umræðunnar í dag: styttingu náms til stúdentsprófs. Í Kastljósi í gærkvöldi var Þorgerður Katrín gestur Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og ræddi þessi mál við hana þar. Kl. 18:00 í kvöld mun Þorgerður Katrín flytja framsögu um menntamál á stjórnmálanámskeiði sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, sem haldið er í Kaupangi við Mýrarveg, flokksaðstöðu sjálfstæðismanna á Akureyri. Er þá upplagt tækifæri fyrir nemendur á Akureyri og áhugafólk um menntamál að mæta og spyrja hana spurninga um styttingu náms til stúdentsprófs, samræmd stúdentspróf og margt fleira.

Saga gærdagsins
1550 Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Hólum í Hjaltadal, og synir hans, Björn og Ari, voru hálshöggnir í Skálholti. Í kjölfarið var lúterstrú lögtekin á Hólum og kaþólsk trú var afnumin að fullu.
1956 Dwight D. Eisenhower endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann hlaut 58% atkvæða, sem var mesti sigur frambjóðanda í forsetakjöri í Bandaríkjunum frá kosningasigri Abraham Lincoln árið 1860. Adlai Stevenson ríkisstjóri í Illinois, var keppinautur Eisenhowers um forsetaembættið, líkt og 1952.
1972 Richard Nixon endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - forsetinn vann yfirburðasigur á George McGovern. Nixon vann mesta sigur sem náðst hafði í sögu forsetakjörs í Bandaríkjunum fram að því, hann hlaut 61% atkvæða og 521 kjörmann af 538. McGovern tókst aðeins að vinna í tveim fylkjum.
1984 Ronald Reagan endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - Reagan sigraði Walter Mondale með yfirgnæfandi hætti. Reagan hlaut rúm 59% greiddra atkvæða og hlaut hann 525 kjörmenn af alls 538.
2000 Hillary Rodham Clinton verður fyrsta forsetafrú í sögu Bandaríkjanna sem kosin er í opinbert embætti - hún náði með því kjöri sem öldungardeildarþingmaður New York-fylkis. Hillary var bæði þingmaður og forsetafrú í 17 daga, eða allt þar til eiginmaður hennar, Bill Clinton, lét af embætti.

Saga dagsins
1864 Abraham Lincoln endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann var myrtur hinn 15. apríl 1865.
1987 Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn formaður Alþýðubandalagsins - Ólafur sigraði Sigrúnu Stefánsdóttur í formannskjöri. Hann hlaut 60% atkvæða í kosningunni. Ólafur var fjármálaráðherra 1988-1991. Hann var formaður Alþýðubandalagsins í átta ár og varð svo forseti Íslands árið 1996.
1990 Mary Robinson kjörin forseti Írlands, fyrst kvenna - Robinson sat á forsetastóli til ársins 1997.
2000 George W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - deilt var um sigur hans, enda munaði litlu á honum og keppinaut hans, Al Gore, í Flórída fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra í fylkinu. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Ljóst var orðið að sigurvegari fylkisins yrði forseti. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Að lokum fór það svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi ósigur sinn um miðjan desember, 36 dögum eftir kjörið.
2002 Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, samþykkir ályktun 1441, þess efnis að afvopna verði Írak og Saddam Hussein forseta landsins - ályktunin leiddi svo til þess að ráðist var inn í Írak í mars 2003.

Snjallyrðið
Being powerful is like being a lady. If you have to tell people you are, you aren't.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)