Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 mars 2006

Norðanátt og aftur norðanátt á Akureyri

Akureyri í vetrarklæðum - 27. mars 2006

Það er mikið vetrarríki núna hér norður á Akureyri. Það snjóar og snjóar - sennilega er mesta kalsaveður þessa vetrar hér núna, altént er mesti snjórinn í allan vetur hér núna. Fyrir um hálfum mánuði var hér mikill hiti og flestir töldu að vorið væri komið. Það er þó ekki margt sem minnir á vorið á Akureyri þessa dagana. Nú er það bara snjór og vetrarríki sem blasir við okkur. Þvi er ekki að neita að flestir bæjarbúar voru komnir í vorgírinn og því hrökkva menn svolítið til baka við þetta veður. Ég fór í lummukaffi til ömmu í gær og komst þrátt fyrir kalsaveðrið. Reyndar er ekki langt fyrir mig að fara, enda er Kaupangur í göngufjarlægð frá Víðilundi. Þó er það nú svo að ég er ekki beint til í hlaup þessa dagana og því hjálpar veðrið ekki til. Þó er alltaf eitthvað heillandi við snjóinn en þó væri ég vel til í að það vori snemma.

En þetta er mjög gott veður fyrir skíðamenn og þá sem unna vetraríþróttum. Það er enginn vafi á því fyrir okkur hér á Akureyri að snjór kemur sér vel fyrir okkur. Miðstöð vetraríþrótta hér veitir ekki af snjó og fátt er annars skemmtilegra en að skella sér á skíði og renna niður Hlíðarfjallið. Víst er að margir hugsa sér gott til glóðarinnar og ætla að halda hingað norður yfir páskana, skella sér á skíði og fara í leikhús og njóta hér allra lífsins gæða. Er það svo sannarlega mikið ánægjuefni og við hér fyrir norðan getum verið í senn stolt og glöð með hversu vinsæll ferðamannastaður Akureyri er yfir veturinn. Hér enda margt spennandi fyrir fólk og þetta er góður valkostur fyrir fólk. Framundan eru páskarnir og alkunn er þjóðsagan um páskahretið og því má allt eins búast við meiri snjó.

Nú þegar að ég lít út um gluggann minn á Þórunnarstrætinu á þessum þriðjudagsmorgni sé ég mikinn snjó og það kyngir enn niður snjó. Það er svo sannarlega vetrarríki hér fyrir norðan hjá okkur. Sennilega eru þau sælustu með þetta börnin sem leika sér í snjókarlagerð og fleiru skemmtilegu. Kannski maður skelli sér á skíði bara um páskana. Altént ætla ég mér að eiga notalega og góða páskahátíð og ef marka má stöðuna verður skíðafærið upp í fjalli eðalgott og notaleg stemmning þar.

Saga dagsins
1875 Öskjugos hófst - þetta er talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan að sögur hófust - aska náði allt til Svíþjóðar og áttu afleiðingar öskufallsins mikinn þátt í Ameríkuferðunum.
1909 Safnahúsið við Hverfisgötu formlega vígt - það var þá og er enn eitt glæsilegasta hús landsins.
1977 Leikarinn Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Howard Beale í Network. Það var sögulegt við að Finch hlaut óskarinn að hann lést snögglega nokkrum vikum áður, í janúar 1977. Það kom því í hlut ekkju hans, Elethu, að taka við verðlaununum. Sir Peter er eini leikarinn í sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hefur hlotið óskarinn eftir andlát sitt. Finch var einn af svipmestu leikurum Breta og átti stjörnuleik í fjölda mynda og túlkaði marga glæsilega karaktera.
1997 Leikkonan Frances MacDormand hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinni kasóléttu og úrræðagóðu lögreglukonu Marge Gunderson í hinni stórfenglegu úrvalskvikmynd Coen-bræðra Fargo.
2004 Leikarinn Sir Peter Ustinov lést í Sviss, 82 ára að aldri - Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Ustinov er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir túlkun sína á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik sinn í myndunum Spartacus og Topkaki. Seinustu árin vann Ustinov ötullega að mannúðarmálum og var til fjölda ára velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)