Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 mars 2006

Skemmtileg fjölskylduhefð á laugardegi

Mjólkurgrautur

Sú skemmtilega hefð er í minni fjölskyldu að hittast alltaf í hádeginu á laugardögum og borða saman léttan og góðan hádegisverð. Skiptumst við á að bjóða í mat. Oftar en ekki er hrísgrjónagrautur á borðum og gott meðlæti. Þennan laugardaginn hélt ég rétt um hádegið niðureftir í Norðurgötu 51 til Línu systur og Skarphéðins mágs en nú var komið að þeim að bjóða heim í hádegismat. Þetta er flott hefð og alltaf gaman að borða saman og að ég tali nú ekki um að spjalla, en það er mikið talað og spekúlerað í fjölskylduboðum í minni ætt. Það er gaman að hittast öll með þessum hætti og er reyndar alltaf leitt að geta ekki verið heima á laugardögum og missa þarmeð af þessu. Síðustu tvo laugardaga hef ég ekki verið heima í hádeginu og misst því af léttum hádegisverði með fjölskyldunni.

Lína og Skarpi voru með mjólkurgraut (eins og oftast) og með var auðvitað brauð og gott álegg. Á eftir var eins og venjulega kaffi og veitingar með. Það var gaman að fara til þeirra í dag enda hafa þau verið á fullu að mála íbúðina og gaman að fylgjast með breytingunum á þeim bænum. Það er skemmtilegt að halda þessum góða sið við og hittast í hádeginu á laugardegi. Reyndar verð ég væntanlega ekki heima um næstu helgi frekar en margar aðrar en eftir hálfan mánuð er komið að mér í röðinni að bjóða í mat. Var ég að hugsa um að brjóta upp hefðina þá og gera skyr og hafa létt og gott meðlæti með.

Hádegin á laugardögum eru því fjölskyldustund í minni fjölskyldu.

Saga dagsins
1954 Leikkonan Audrey Hepburn hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Önnu prinsessu í kvikmyndinni Roman Holiday - Hepburn var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonum í gullaldarsögu Hollywood og varð vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum persónum. Hún lést úr krabbameini í janúar 1993.
1975 Samþykkt var á Alþingi að friðlýsa að fullu Vatnsfjörð í Barðastrandasýslu. Friðlandið var alls um 100 ferkílómetrar. Hrafna-Flóki nam land þar og nefndi landið Ísland, eins og segir frá í Landnámu.
1975 Feisal konungur Saudi-Arabíu, myrtur, í höfuðborginni Riyadh. Hann var þá 68 ára að aldri.
1985 Leikkonan Sally Field hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Ednu Spalding í kvikmyndinni Places in the Heart - var þetta annar óskar Field sem hlaut verðlaunin fimm árum áður fyrir leik sinn í Normu Rae. Er Field tók við verðlaununum flutti hún sögulega þakkarræðu og sagði svo: "I haven't had an orthodox career and I wanted more than anything to have your respect. The first time I didn't feel it but this time I feel and I can't deny the fact that you like me. You really like me!". Urðu fleyg orð.
2001 Schengen-samstarf 15 Evrópuríkja tók gildi. Markmið þess er að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og styrkja um leið baráttu gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi. Breytingar á mannvirkjum og búnaði á Keflavíkurflugvelli vegna þessa kostuðu 800 milljónir króna.

Snjallyrðið
I always cheer up immensely if an attack is particularly wounding because I think, well, if they attack one personally, it means they have not a single political argument left.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)