Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 ágúst 2006

Björn heldur áfram í stjórnmálum

Björn Bjarnason

Það hefur aldrei farið leynt, held ég, meðal þeirra sem þekkja mig og mína pólitík, að ég hef dáðst mjög af Birni Bjarnasyni sem stjórnmálamanni. Það er mér því mikið gleðiefni að sjá í nýjasta pistli á vef hans skýr skilaboð í þá átt að hann ætli að gefa kost á sér í alþingiskosningunum eftir rúma átta mánuði. Það hafa margar sögur gengið seinustu vikur um það hvert hugur Björns stefnir og ég get ekki betur séð af skrifum hans en að hann sé ákveðinn í að fara fram í næstu kosningar og sækjast eftir umboði flokksmanna í Reykjavík til áframhaldandi verka. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk.

Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vef hans er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Í kjölfar vefs hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að feta í fótspor Björns og nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína.

Það hefur alla tíð verið hvetjandi að fylgjast með störfum hans í gegnum vefinn og lesa skrif hans. Eins og hann hefur oft bent á er mikið verkefni að halda úti vef með reglulegum skrifum og krefst aga og því að verkefninu sé sinnt af alúð. Þessu hef ég kynnst eftir að ég opnaði þennan vef. Sú vinna er mjög ánægjuleg og gagnleg þeim sem leggja á þá braut að tjá sig um málin. Það veitir mörg tækifæri að fara á slíkan opinn vettvang og leyfa öðrum að fylgjast með því sem maður er að pæla í dagsins önn, um stjórnmál og margt fleira. Það hefur sést vel að vefur Björns er víðlesinn og hann hefur orð á sér fyrir að svara hratt pósti sínum og nota sér tæknina vel til að hafa samband við landsmenn. Hann hefur verið einn vinnusamasti stjórnmálamaður landsins.

Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég lýsi yfir ánægju minni með þá ákvörðun hans að halda áfram í stjórnmálum. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils, svo og persónuleg tengsl okkar.