Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 ágúst 2006

Bylgjan 20 ára

Bylgjan

Í dag, 28. ágúst, er stórdagur í sögu íslenskrar fjölmiðlunar. Þann dag árið 1986 hóf fyrsti frjálsi ljósvakamiðillinn, Bylgjan, formlega útsendingar, þegar að Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri, opnaði útvarpsstöðina með ræðu sinni. Í dag er Bylgjan því 20 ára gömul - þetta er sannur hátíðisdagur fyrir alla sanna talsmenn frelsis á Íslandi. Afmælisins hefur verið minnst með ýmsum hætti í dag og dagskrá seinustu daga verið lögð undir afmælið og hafa fyrrum þáttastjórnendur snúið aftur til að heiðra stöðina. Í dag hafa fyrrum fréttamenn Bylgjunnar lesið fréttir þar. Vakti mikla athygli að þrír fyrrum fréttastjórar Bylgjunnar, þau Páll Magnússon, útvarpsstjóri, Elín Hirst, fréttastjóri Sjónvarpsins, og Karl Garðarsson ákváðu að snúa aftur í tilefni dagsins og lesa fréttir. Elín og Karl voru í fyrsta fréttamannahópi Bylgjunnar árið 1986.

Tilkoma Bylgjunnar í ágústlok 1986 markaði þáttaskil í fjölmiðlun hérlendis og markaði endalok ríkiseinokunar í ljósvakafjölmiðlun. Í 56 ár rak ríkið eitt ljósvakafjölmiðla og var einokun þeirra fest í lög. Árið 1930 hóf ríkið rekstur fyrstu útvarpsstöðvarinnar, Rásar 1. Allt til 1983 var hún eina útvarpsstöðin á öldum ljósvakans. Á níunda áratugnum átti fólk erfiðara með að sætta sig við þetta og 1983 kom til sögunnar önnur útvarpsstöð ríkisins, Rás 2, sem var léttari að flestu leyti, hönnuð fyrir yngri markhóp en gamla gufan og starfshættir aðrir. 1966 hafði svo fyrsta sjónvarpsstöðin komið til sögunnar, Ríkissjónvarpið. Allan þennan tíma var aðeins ríkinu leyft að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Til fjölda ára hafði frjálslyndasti armur Sjálfstæðisflokksins barist gegn þessu og talaði lengi fyrir daufum eyrum, enda ekki meirihluti á þingi fyrir breytingum.

Ragnhildur Helgadóttir

Það breyttist í einu vetfangi árið 1984. Í verkfalli opinberra starfsmanna það ár lokuðust þessar stöðvar ríkisins. Það leiddi til þess að einkaaðilar stigu fram í verkfallinu og settu upp eigin stöðvar í trássi við lög til að sýna fram á að tímaskekkja væri að með lögum væri einkaaðilum bannað að senda frá sér efni á öldum ljósvakans. Mitt í látum verkfallsins haustið 1984 tók sjálfstæðiskonan Ragnhildur Helgadóttir (sem þá sat á stóli menntamálaráðherra) af skarið og boðaði á þingi frumvarp til nýrra útvarpslaga sem gerði ráð fyrir afnámi einokunar ríkisins á ljósvakamarkaði. Það markaði viss þáttaskil í sögu fjölmiðlunar á Íslandi að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skyldi þá taka af skarið með þessum hætti. Frumvarpið var samþykkt ári síðar af stjórnarmeirihlutanum. Ragnhildur á heiður skilið fyrir að hafa látið vaða í þessa átt af krafti árið 1984!

Aðeins þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var heill í stuðningi við málið. Nú, tveim áratugum síðar, þykir eflaust flestum með ólíkindum að einkaaðilum hafi ekki verið heimilt fyrr en 1985 að reka sjónvarps- eða útvarpsstöðvar. Margir töldu á þessum tíma ólíklegt að einkastöðvar gætu borið sig í samkeppni við ríkisfjölmiðla en sagan hefur sýnt að það voru óþarfa áhyggjur. Í dag þykir ekki stórfrétt að ný stöð á ljósvakamarkaðnum hefji útsendingar. Það er ekki úr vegi að rifja upp hverjir voru á móti þessu frelsi í atkvæðagreiðslu á þingi vorið 1985. Þar voru á ferð vinstriflokkarnir. Enginn vinstrimaður á Alþingi (Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti) studdu breytinguna, enda löngum verið þekktir fyrir að vilja sem mest ríkisafskipti!

Bylgjan

Það hefur lengi verið persónuleg skoðun mín að ríkið eigi að fara af fjölmiðlamarkaði og láta einkaaðilum eftir að eiga fjölmiðla og reka þá. Mér hefur alla tíð þótt tímaskekkja að ríkið standi í þessum rekstri, þegar sýnt er að einkaaðilar sé fullfærir um slíkan rekstur. Ég hef alla tíð metið Bylgjuna mjög mikils og hlusta mikið á stöðina. Hún var sem ferskur vindblær í útvarpsmenninguna og auðgaði fjölmiðlaflóruna og hóf bylgju sem leiddi til þess að ríkisrisinn varð að lækka á sér risið og mæta samkeppni með krafti. Samkeppnin gerði þeim aðeins gott og sýndi og sannaði betur hversu staðnað ríkisbáknið er. Það ætti með réttu að verða lagt af og er kominn tími á algjöra uppstokkun þessa staðnaða bákns.

Ég vil óska Bylgjunni innilega til hamingju með daginn. Hún verður alla tíð glæsilegur fulltrúi frelsisins á fjölmiðlamarkaði og hefur sannað vel seinustu tvo áratugi að hún markaði þáttaskil og er enn ferskur fulltrúi líflegra þáttaskila. Megi hún lengi lifa!