Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 ágúst 2006

Ein með öllu

Ólafur Ragnar hesthúsar í sig pylsu

Þeir eru fáir Íslendingarnir sem unna ekki pylsu, sem er að flestra mati besti skyndibitinn og passar ávallt vel við. Flestir Íslendingar eiga sér sína útgáfu af því hvernig pylsan skal vera. Ég vil alltaf pylsu með öllu og nýt þess t.d. að fá mér þennan skyndibita, sem er klassískur. Ég held að það sé ekki á neinn stað hallað þó að ég fullyrði að bestu pylsurnar hérlendis séu í pylsuvagninum Bæjarins bestu í Tryggvagötu í Reykjavík. Oftast þegar að ég fer suður held ég þangað til að fá mér pylsu, enda eru þær alveg sérlega góðar þar. Oftar en ekki er þar löng biðröð, enda vinsæll "matsölustaður".

Nú hefur frægð þessa litla pylsuvagns borist víða. Frægt var fyrir nákvæmlega tveim árum þegar að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, fékk sér eina með sinnepi, svonefnda pjúristapylsu. Fjölmiðlar gerðu heimsókninni skil og SS pylsur auglýstu lengi vel á eftir þessa frægu heimsókn, og Mæja pylsuafgreiðslukona í Bæjarins besta varð landsfræg enda afgreiddi hún forsetann fyrrverandi. Reyndar vildi svo kaldhæðnislega til að Clinton greyið fékk kransæðakast nokkrum vikum síðar en okkur sem dýrkum SS pylsur dettum ekki í hug að samhengi sé þar á milli.

SS-pylsa

Nú berast þær fréttir að pylsuvagninn hafi orðið í öðru sæti í úttekt breska dagblaðsins The Guardian yfir bestu matsöluturna í Evrópu, hvorki meira né minna. Í ferðablaði sem fylgdi The Guardian á laugardaginn var enda listi yfir fimm bestu matsöluturnana og mæla dómararnir með einni með öllu og eru hrifnastir af remúlaðinu. Í fyrsta sæti var skoskur hafragrautsstandur sem ferðast um markaði og viðburði í Skotlandi og selur hafragraut með margskonar meðlæti. Þriðja sætið hreppti lúga á bakaríi í Aþenu sem selur brauðsnúða (Koulouri) með sesamfræjum.

Í fjórða sætinu var pönnukökusala á blómamarkaði í miðbæ Nice í Suður-Frakklandi þar sem hægt er að fá þunnar og dásamlegar pönnukökur. Í fimmta sætinu varð svo Ortakoy söluturnarnir í Istanbúl í Tyrklandi sem bjóða upp á samlokur með steiktum skelfiski og þá er að finna víða um borg. Skemmtilega ólík matarsala þarna á ferð. En hitt veit ég að þegar að ég fer suður til Reykjavíkur í næstu viku lít ég til Mæju pylsusala og fæ mér eina með öllu. Ég veit ekki hvað er gert við pylsuna eða sósurnar í pylsunum þarna en hitt veit ég að þær eru betri þarna en á flestum stöðum.

Ætla ekki að reyna að komast að því hvað er öðruvísi þarna en annarsstaðar en svo sannarlega á Bæjarins bestu athyglina skilið og það er svo sannarlega öllum ljóst að þeir sem þarna fara til að borða fara sælir þaðan.