Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 ágúst 2006

Hver er Jón Sigurðsson?

Jón Sigurðsson

Það er greinilegt eftir flokksþing framsóknarmanna að rykið hefur sest í öllum stympingunum í flokksforystunni þar seinustu árin, ólgan milli forystu flokksins og grasrótarinnar er ekki eins hörð og áður. Það hefur verið kosið milli manna og eftir stendur flokkur sem getur skartað forystu þar sem eru ólíkar áherslur og fylkingar með sinn fulltrúa. Allir geta farið tiltölulega sáttir heim, þó sumir hafi orðið að skúffa eigin framavonum um sinn. Reyndar verður væntanlega staldrað við það að tveir karlmenn eru í æðstu sveit embætta, en eftir stendur að þessi blanda getur sætt ólík sjónarmið. Þó að Siv Friðleifsdóttir, öflug forystukona innan Framsóknarflokksins, hafi lotið í gras í formannskjöri leikur enginn vafi á því að hún stendur sterkar eftir en fyrir. Hún tók rétta áhættu, góð útkoma hennar í formannskjörinu tryggir henni auðvelda leið í æðstu sveit flokksins að vori.

Stóra spurningin eftir flokksþingið snýst um þann mann sem aðeins á tíu vikum hefur tekist að leggja flokkinn að fótum sér, komast þar til forystu, bjóða sjálfan sig fram sem kost sáttar og samstöðu og stendur eftir sem flokksleiðtogi í elsta stjórnmálaflokki landsins. Hver er Jón Sigurðsson? Þetta er spurning sem flestir stjórnmálaáhugamenn spá mikið í núna og satt best að segja vita ekki til fulls hvernig skal svara. Eftir stendur sextugur flokkshollur maður, sem ávallt hefur fórnað sér fyrir flokkinn í verkefni og ábyrgðarfullt innra starf á bakvið tjöldin, í fylkingarbrjósti og er orðinn flokksformaður eftir Halldór Ásgrímsson, sem hafði á sér ímynd klettsins í hafinu lengst af en var undir lokin orðinn akkilesarhæll flokks sem virðist fara sífellt minnkandi í pólitísku litrófi. Stóra spurningin er hvert mun Jón Sigurðsson fara með þennan flokk og hvernig mun hann installera sína forystu.

Ég verð að viðurkenna að ég varð að hugsa mig um allnokkra stund í júníbyrjun þegar að ég heyrði skoðanir manns sem ég þekki vel og met mikils í minni fjölskyldu, sem hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn hér á Akureyri, er hann sagði að Jón Sigurðsson væri sennilega kandidatinn sem Halldór horfði til að redda málunum, þegar að allt var farið fjandans til í flokkskjarnanum, svo maður tali hreina og beina íslensku. Skyndilega mundi ég eftir Jóni Sigurðssyni, seðlabankastjóra, sem hafði í formannstíð Steingríms og Halldórs verið kallaður til, ævinlega til skítverka sem þurfti að leggja í að laga - hann var alltaf í að redda málunum. Ég mundi þá aðeins eftir Jóni sem grandvörum en athugulum bankastjóra en fór í það verkefni að tína upp brot um manninn. Ég sá að þarna var kominn maður flokkshollustu, maður sem hugsaði sem svo, hvað get ég gert fyrir flokkinn minn? Hann væri æðri sér.

Þegar að ég fór að hugsa til Jóns Sigurðssonar í sumarbyrjun hugsaði ég nokkur ár aftur í tímann. Það var til þáttaraðar Viðars Víkingssonar um Samband íslenskra samvinnufélaga, helstu valda- og kjarnastofnun Framsóknarflokksins í áratugi. Í þessum þætti, sem bar á sér allt bragð minningargreinar um stórveldið sem féll og endaði sem hver annar munaðarleysingi sem allir vildu þvo sig af, birtist Jón Sigurðsson, samvinnumaðurinn sem þekkti sögu SÍS. Í morgun tók ég mig til og spólaði mig inn í þáttinn, enda á ég þá eins og margt annað gott sjónvarpsefni. Þar sem ég horfði á þættina birtist mér maður sem var miðpunkturinn á gullaldartíma þessa kerfis, var partur af því og samherji allra þeirra sem héldu um málin innan SÍS. Hann var vinur Vals Arnþórssonar (manns sem var samviska SÍS alla sína starfsævi, reddaði málum) og félaga hans. Jón virkaði þarna á mig sem samviska þessa tíma.

Jón Sigurðsson

Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón er hluti þessarar gömlu fortíðar. Síðar bjargaði hann peningahítinni í kringum tímaritaútgáfu Tímans (sem var að draga flokkinn til glötunar fjármálalega) og bjargaði Byggðastofnun úr skítahaugnum sem stóð eftir formannstíð Kristins H. Gunnarssonar þar inni. Þar kom hann vinkonu sinni og Halldórs, henni Völlu frá Lómatjörn, til bjargar. Þar var hann reddarinn. Það er því svosem varla stórt undrunarefni þó að margir eldri flokksmenn sem voru staddir á Hótel Loftleiðum hafi hugsað sem svo: "Æi hann Jón á nú þetta inni hjá okkur - hann hefur alltaf reddað okkur og býður okkur að rífa okkur nú enn eina ferðina upp úr skítnum". Ég held að margir flokksmenn gömlu hugsunar og samvisku flokksins hafi einmitt hugsað svona. Svo við tölum mannamál að þá er meginþorri þeirra sem mæta á fundi svona flokksmaskínu Framsóknar einmitt partur af þessari fortíð líka.

En nú er Jón orðinn formaður flokksins, hann er ekki aðeins flokksformaður smáflokks sem sumir vilja kalla sem svo til að niðurlægja þá, hann er skyndilega orðinn einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er Jón orðinn lykilmaður í íslenskri pólitík. Hann á risavaxið verkefni fyrir höndum. Annaðhvort verður hann bjargvættur flokksins (enn eina ferðina) eða mun verða maðurinn sem verður brennimerktur sem afgangsmistök fyrrum flokksformanns sem hugsaði til Jóns á þeirri stundu er draga þurfti flokkinn upp úr þeim skít sem hann sjálfur skildi eftir en hann gat hvorki né treysti sér í að moka til fulls. Hann var með mann til verksins - mann sem treysti sér í að redda málunum.

En hver er pólitík Jóns Sigurðssonar, þessa nýja og valdamikla leiðtoga? Fæst þekkjum við hann sem stjórnmálamann - nú verður hann vessgú að mæta á hið pólitíska svið og standa sig sem slíkur. Ég held t.d. að hann og Geir Haarde, forsætisráðherra, geti náð vel saman og tel kjör hans boða gott fyrir þetta farsæla stjórnarsamstarf. Ég verð að viðurkenna að auki því sem fyrr er sagt að ég mundi eftir Jóni Sigurðssyni sem einum nánasta samherja Halldórs í stefnumótun innan flokksins. Það var hann sem mótaði stefnutal Halldórs um ESB, hann var helsti ráðgjafi Halldórs í efnahagsmálum og svo miklu meira. Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón Sigurðsson var maðurinn á bakvið tjöldin í allri stefnumótun Halldórs. Er því nokkuð óeðlilegt að meta stöðuna sem svo að Jón haldi áfram þar sem Halldór skildi við er hann kvaddi flokkinn á föstudag?

Það eru margar spurningar í hausnum á mér er ég horfi á sextugan mann taka kjöri sem flokksformaður, mann sem hefur aldrei verið miðpunktur stjórnmálabaráttu og stígur fram á sviðið sem sáttasveinn flokksins, reynir að redda því sem aflaga hefur farið. Fyrst og fremst vil ég sjá hvernig pólitíkus Jón verði. Ég hef óljósar hugmyndir um það en grunar margt. Það er um að gera að gefa þessum sáttasemjara flokksins tækifæri á að sanna sig. Hann allavega hefur athygli okkar allra.

Jón og Siv

Það segir mér svo hugur að hann muni ekki rugga bátnum en haldi nú í það verkefni að sameina það sundraða og skaddaða fley sem Framsóknarflokkurinn er orðið í íslenskum stjórnmálum. Það verður svo sannarlega áhugavert að vera pólitískur áhorfandi á þessum kosningavetri. En já nú verður Jón Sigurðsson að sanna sig. Það er ekki öfundsvert að vera hann, enda hefur hann risavaxið verkefni og erfitt í höndunum.