Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 september 2006

Dagurinn sem breytti heimsmyndinni

9/11

Fimm ár eru í dag liðin frá hryðjuverkaárásunum á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið - árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center, miðstöð alþjóðaviðskipta, í rjúkandi rúst og svo hinni svipmiklu en um leið táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar á örfáum sekúndum. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar, á sinn hátt um allan heim, enda gerðust þær í beinni útsendingu fjölmiðla og heimsbyggðin sá atburðina gerast á rauntíma í sjónvarpinu sínu.

Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy, forseti Bandaríkjanna, var myrtur í Dallas í Texas. Á því leikur enginn vafi að 11. september 2001 verður í sögubókum ávallt metinn dagurinn þegar að heimurinn breyttist. Síðan hafa gerst atburðir sem hafa með afgerandi hætti mótað alla heimsbyggðina og breytt henni. Ég tel að allir hafi gert sér grein fyrir því horfandi á bandarískar fréttastöðvar í beinni útsendingu hér heima á þessum örlagaríka þriðjudegi fyrir fimm árum að ekkert yrði í raun samt.

Þetta var árás bæði af slíku kalíberi og táknræn að öllu leyti að áhrifin yrðu gríðarleg. Sú varð raunin, jafnvel með enn örlagaríkari hætti en mörgum óraði fyrir. Síðan hafa staðið tvennar styrjaldir og hræðsla og tortryggni hafa ríkt. Hættan hefur vofið yfir heimsbyggðinni um frekari hryðjuverkaárásir gegn óbreyttum borgurum um allan heim og nægir að nefna hina örlagaríku ógn sem vofði yfir Madrid í mars 2004 og í London í júlí 2005. Þar féllu óbreyttir borgarar í valinn í ógnvænlegum hryðjuverkaárásum.

Ég fjalla nánar um þennan sögulega dag í ítarlegum pistli á vef SUS í dag.