Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 september 2006

Árni M. Mathiesen fer fram í Suðurkjördæmi

Árni M. Mathiesen

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í leiðtogasæti flokksins í Suðurkjördæmi. Ein lífseigasta pólitíska sagan í sumar hefur verið hvort að Árni myndi færa sig til og gefa með því eftir í raun leiðtogastólinn í kraganum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem þegar hefur lýst yfir áhuga sínum á að leiða flokkinn í kjördæminu. Árni, sem hefur setið á Alþingi í 15 ár og leitt framboðslista af hálfu flokksins í landsmálum allt frá alþingiskosningunum 1999, hlýtur að teljast öruggt ráðherraefni áfram nái hann að tryggja áhrif sín með leiðtogasetu í öðru kjördæmi. Hann hefur mikinn styrkleika og stuðning æðstu forystumanna flokksins til að vera í ríkisstjórn.

Það er ekki undarlegt að Árni sækist eftir því að fara í Suðurkjördæmið. Þar er enda enginn áberandi leiðtogi og ekki virðist heldur leiðtogi sem hefði styrkleika til ráðherrasetu í sjónmáli. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ætti að vera það mikið í kosningunum að vori að leiðtogi listans ætti að hafa styrkleika og stuðning til að verða ráðherra. Svo hefur ekki verið frá árinu 1999, er Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, hætti í stjórnmálum. Árni Ragnar Árnason leiddi framboðslista flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003. Árni Ragnar hafði verið veikur af krabbameini nokkurn tíma áður en hann var valinn leiðtogi og virtist hafa náð sér að fullu. Hann veiktist aftur í kosningabaráttunni og varð frá að hverfa. Hann lést fyrir nákvæmlega tveim árum, í ágúst 2004, eftir hetjulega baráttu sína.

Frá andláti Árna Ragnars hefur Drífa Hjartardóttir leitt flokkinn í Suðurkjördæmi en þá öðru sinni tókst hún á hendur það verkefni að leiða flokkinn á erfiðum tímamótum. Hún varð leiðtogi flokksins í gamla Suðurlandskjördæmi er Árni Johnsen varð að segja af sér þingmennsku sumarið 2001 vegna hneykslismála sinna. Drífa hefur staðið sig vel að mínu mati og leitt flokkinn í gegnum erfiða tíma á þessum slóðum. Fylgi flokksins í Suðurkjördæmi er mikið og það sást vel í sveitarstjórnarkosningunum í vor en flokkurinn er í forystu nær allra sveitarfélaga í kjördæminu. Það er því auðvitað með ólíkindum að flokkurinn þar hafi ekki ráðherrastól og hlýtur það að vera markmið þeirra sem velja framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir næstu kosningar að tryggja að sá sem leiði listann sé í þeirri stöðu að teljast öruggt ráðherraefni.

Árni M. Mathiesen hefur verið ráðherra í sjö ár og leitt sjávarútvegsmálin og fjármálin af hálfu flokksins. Það er hægt að fullyrða með nokkurri vissu að hann sé öruggt ráðherraefni að vori. Það verður að ráðast hvort flokksmenn vilja fá Árna til forystu í kjördæminu. Væntanlega verður þar prófkjör, enda virðist mér á flestum sem ég þekki úr kjördæminu að þeir vilji fá uppstokkun á þingmannahópi kjördæmisins og mæla styrkleika frambjóðenda. Er það enda eðlilegast að prófkjör sé í öllum kjördæmum hjá flokknum nú, eins og ég hef áður bent á. Er mikið rætt um hvort að Árni Johnsen fari fram í Suðurkjördæmi, eftir að hann hlaut uppreist æru frá handhöfum forsetavalds.

Það stefnir í spennandi tíma hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hverja flokksmenn þar velja til forystu hjá sér. Að mörgu leyti hlýtur að verða spurt hvort sjálfstæðismenn hafi sterkt og vænlegt ráðherraefni í forystu framboðslista síns. Það hlýtur að teljast sterkt fyrir þá að hafa Árna M. Mathiesen í forystu framboðslista síns, enda fer þar ráðherra í sjö ár og leiðtogi kjördæmis allan þann tíma. En nú verður svo auðvitað að ráðast hvort Árni sæki sér stuðning flokksmanna til forystu og nái kjöri í það verkefni. Það verður fróðlegt að sjá.