Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 september 2006

Kratar missa völdin í Svíþjóð

Leiðtogar borgaraflokkanna

Skv. útgönguspám og fyrstu kosningatölum í Svíþjóð er ljóst að borgaraflokkarnir hafa sigrað sænsku þingkosningarnar sem fram fóru í dag. Það er því ljóst að vinstristjórnin undir forsæti Göran Persson er fallin. Persson hefur verið forsætisráðherra Svíþjóðar í áratug, frá árinu 1996. Þetta verður væntanlega lakasta útkoma krata í Svíþjóð og markar væntanlega endapunkt stjórnmálaferils Perssons, sem hefur verið langur og litríkur, en hann hefur verið einn forystumanna flokksins alla tíð frá valdaferli Olof Palme, sem var forsætisráðherra Svíþjóðar samtals í rúman áratug, allt þar til að hann féll fyrir morðingjahendi árið 1986.

Það blasir því við að Fredrik Reinfeldt, leiðtogi íhaldsflokksins Moderata, verður næsti forsætisráðherra landsins og borgaraflokkarnir komast til valda, en þeir stjórnuðu síðast undir forystu Carl Bildt árin 1991-1994. Það hefur verið vinstristjórn í Svíþjóð frá árinu 1994, en í raun hafa kratar ráðið þar meira og minna í áratugi. Væntanlega hefur mesta áfall kratanna í Svíþjóð orðið þegar að Anna Lindh var myrt fyrir þrem árum, en henni var í raun ætlað að leiða jafnaðarmenn í þessum kosningum. Dauði hennar veikti flokkinn gríðarlega, enda hafði hún verið krónprinsessa flokksins alla valdatíð Perssons.

Að Önnu Lindh látinni var enginn afgerandi eftirmaður og væntanlega hefur Persson skaðast af þeirri ákvörðun að fara fram aftur, en ekki láta nýtt leiðtogakjör fara fram. Það verður fróðlegt að sjá hver taki við af Persson sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, en með honum hverfur af hinu pólitíska sviði einn af öflugustu leiðtogum sænskra stjórnmála síðustu áratugina.