Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 september 2006

"Nú segjum við stopp!"

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar

Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2006 hafi verið skelfilegt í umferðinni. Nú þegar hafa 19 einstaklingar látið lífið í umferðinni á árinu. Staðan er mjög svört og gríðarlega sorgleg. Fjöldi þessara einstaklinga hafa látið lífið í blóma lífs síns. Það er alltof algeng sjón að sjá eða heyra andlátsfréttir ungs fólks sem hafa kvatt þessa jarðnesku tilveru í sorglegum slysum. Þetta er sorgleg þróun, sem okkur öllum ber skylda til að reyna að snúa við. Nú er kominn tími til að gera það. Í dag sjáum við í dagblöðunum auglýsingar með myndum af þeim sem látið hafa lífið og kynningu á borgarafundum sem haldnir voru um allt land nú síðdegis: undir yfirskriftinni: "Nú segjum við stopp!".

Síðustu daga hafa Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Sigmar Guðmundsson stjórnað umfjöllun í Kastljósi Sjónvarpsins um umferðarmál í ljósi þessa sorglega ástands í málaflokknum. Þar hefur verið farið yfir fjölda þátta tengdu því sem gerst hafi í umferðinni. Ljóst er af þeirri umfjöllun að mörg umferðarslysanna á þessu ári megi rekja til áhættuhegðunar ökumanna. Það er því algjörlega ljóst að þörf er á róttækri hugarfarsbreytingu í umferðinni. Ég tel að þessi umfjöllun í Kastljósi veki fólk til umhugsunar. Það getur enda varla annað verið. Sérstaklega var dapurlegast að heyra af rosalegum ofsaakstri og hversu gríðarlega algengt sé að ökumenn keyri í umferðinni á yfir 140 km. hraða. Það er hreinn manndrápsakstur og blasir við að taka verður þessi mál til umræðu og vekja fólk til meðvitundar um að breyta þessari stöðu.

Nú er komið að því að þjóðarvakning verði í umferðarmálum. Það er alveg einfalt mál, miðað við stöðuna sem uppi er. Markmið þess sem gert var í dag var einkum að hvetja almenning í landinu til þess að hugleiða þær fórnir sem umferðin krefst og drúpa um leið höfði í virðingu við þá sem látið hafa lífið í umferðarslysum á árinu. Fundirnir voru allir með sambærilegu yfirbragði. Á þeim voru flutt stutt erindi fólks sem hefur upplifað það áfall og þá sorg sem fylgir alvarlegum slysum í umferðinni. Ennfremur lýstu lögreglu- eða sjúkraflutningamenn reynslu sinni af vettvangi auk þess sem samgönguráðherra flutti við athöfnina í Reykjavík ræðu og kynnti þar aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn umferðarslysum. Stutt tónlistaratriði voru svo flutt á milli erinda og öllum fundunum lauk með bæn.

Nú hefur verið opnuð vefsíða, www.stopp.is, þar sem að landsmenn geta undirritað áheit um bætta hegðun og ábyrgð í umferðinni. Ég hvet alla til að rita nafn sitt þar inn. Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur vonandi öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.