Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 desember 2002

Demókratar leita að leiðtoga - Trent Lott í slæmum málum
Nú þegar ljóst er að Al Gore (æ þið munið, sá sem sleikti konuna sína opinberlega) fer ekki í forsetaframboð, sýnist mér að ýmsir demókratar þurfi áfallahjálp áður en þeir velja nýjan forsetaframbjóðanda. Ljóst er að margir verða kallaðir en fáir útvaldir. Virðist slagurinn vera á milli Lieberman, Kerry og Gephardt. Annars er líklegt að Daschle fari fram líka. Það eru víst litlar líkur á að Hillary fari fram nú. Mitt í óförum demókrata seinustu vikurnar hefur Trent Lott leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, komið sér í mikið klandur og rær nú lífróður til að bjarga pólitískum ferli sínum. Lott lét umdeild ummæli falla í afmælisveislu Strom Thurmond í byrjun mánaðarins og mátti skilja þau á þann veg að hann styddi aðskilnað svartra og hvíta í Bandaríkjunum. Vandræði Lotts jukust til mikilla muna um helgina þegar forystumenn innan flokksins, þ.á.m. Don Nickles næstáhrifamesti maðurinn í þingflokknum, létu í ljósi efasemdir um forystu hans. Áður hafði Bush forseti sagt á blaðamannafundi að ummæli Lotts endurspegluðu ekki skoðanir meirihluta þjóðarinnar. Lott var endurkjörinn leiðtogi flokksins í öldungadeildinni í nóvembermánuði, en nú hefur verið ákveðið að endurtaka atkvæðagreiðsluna þann 6. janúar nk. Lott rær því lífróður og reynir allt sem hann getur til að bjarga sér frá pólitískri hneisu. Líkurnar á því að Lott hrökklist frá aukast dag frá degi.

Styttist í jólin - einstök veðurblíða - Stuðmenn klikka aldrei
Nú er ég kominn í þetta líka sallafína jólaskap, enda bara vika til jóla. Var svo vitur að skrifa öll jólakort í lok nóvember og búinn að senda þau öllsömul og svo eru allar gjafirnar búnar nema ein, mjög sérstök gjöf handa sérstakri manneskju. Fer ekkert nánar út í það. Annars er veðrið hérna fyrir norðan alveg draumur og alveg snjólaust. Alveg eins og á sumardegi. Sá í gærkvöldi frétt í tíufréttum þar sem fjallað var um að iðnaðarmenn vinna hér utandyra í blíðunni eins og á sumardegi væri. Var rætt við Mugga frænda um þessi mál í fréttinni, enda er hann formaður félags byggingarmanna hér í firðinum. Ég hef upplifað desember hér í Eyjafirði í tvo áratugi og man aldei eftir öðru eins og vona að svona verði þetta um jólin, kannski væri ágætt að fá smá snjóföl á aðfangadag, en mér er svosem alveg sama. Það koma jól engu að síður. Fór í blíðunni í göngutúr í dag og kíkti á jólastemmninguna á Glerártorgi í dag og rabbaði við fjölda fólks þar, hitti alveg ótrúlegasta fólk, meira að segja kunningja að austan sem keyrði norður í veðurblíðunni til að versla. Fór í Pennann og keypti nýja Stuðmannadiskinn sem er alveg frábær, er kominn með þvílíka æðið fyrir nýja smellinum þeirra Stuðmanna. Horfði á tónleika þeirra í Sjónvarpinu á sunnudag og hafði mjög gaman af, enda algjört Stuðmannafan. Þeir klikka aldrei. Í dag eru víst tveir áratugir síðan klassamyndin Með allt á hreinu var frumsýnd. Í tilefni þess kemur hún út á DVD. Mynd sem er alltaf frábær, besta íslenska bíómyndin að mínu mati.