Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 ágúst 2003

Valdabarátta - ESB og auðlindin - varnarmál - OR og hitinn
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um valdabaráttu á bakvið tjöldin innan Samfylkingarinnar - Ingibjörg Sólrún er að reyna að koma aftur undir sig fótunum í íslenskum stjórnmálum eftir að hún rann á rassinn í seinustu kosningabaráttu, nú beinast spjótin að Össuri. Henni tókst ekki að halda í borgarstjórastólinn og bjóða sig fram til þings, hún náði ekki kjöri á þing - skyldi hún, þvert á eigin orð, sækjast eftir formennsku í haust. Ennfremur fjalla ég um umræðuna um ESB og auðlindina í kjölfar erindis Franz Fischlers fyrir skemmstu þar sem greinilega kom fram að Íslendingar fá enga sérsamninga ef til aðildarviðræðna kemur, um varnarmálin í kjölfar þess að Bandaríkjamenn hættu við fyrri ákvörðun um að flytja þoturnar burt, og að lokum um hækkun á verðskrá OR að því er virðist vegna hitans í sumar ef marka má orð stjórnarformannsins. Að mínu mati ráða aðrar ástæður för.

Gísli Marteinn mættur á ný á skjáinn á laugardagskvöldi
Um helgina kom Gísli Marteinn Baldursson á skjáinn á ný eftir sumarleyfi með þátt sinn Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þátturinn er nú að hefja göngu sína annan veturinn en seinasta vetur var hann einn vinsælasti þátturinn í íslensku sjónvarpi og fékk metáhorf, rúmlega helmingur þjóðarinnar sagðist í áhorfskönnunum horfa á hann. Í fyrsta þættinum var aðalgesturinn sjálfur Hermann Gunnarsson, eða Hemmi Gunn eins og allir Íslendingar kalla hann. Hann hafði frá mörgu að segja eftir litríkan íþróttaferil og sem þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi, t.d. þegar talað var um vinsælan sjónvarpsþátt hans, Á tali með Hemma Gunn sem var í Sjónvarpinu samfellt í 10 ár, 1987-1997. Gaman var þegar Laddi kom í sjónvarpssal í gervi hinna ógleymanlegu Elsu Lund og Dengsa, sem voru með Hemma á skjánum í gamla daga. Aðrir gestir voru miðbæjarpresturinn Jóna Hrönn Bolladóttir og rapparinn Sölvi Blöndal sem tók lagið í lokin ásamt félögum sínum í Quarashi, sumarsmellinn Mess it Up. Gott að fá Gísla aftur á skjáinn. Framundan eru litrík laugardagskvöld í allan vetur.