Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 nóvember 2003

Bush forseti í LondonHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, kom í gærkvöld í opinbera heimsókn til Bretlands, fyrstur bandarískra forseta til að koma þangað í konunglega heimsókn. Það var Woodrow Wilson forseti, sem síðast naut þess heiðurs að gista í konungshöllinni í heimsókn árið 1918, en hann sat á forsetastóli 1913-1921. Gríðarleg öryggisgæsla er í Lundúnum vegna heimsóknar Bush forseta. Búist er við talsverðum mótmælum í dag og næstu daga. Bush var boðinn formlega velkominn í morgun við hátíðlega athöfn í Buckinghamhöll af Elísabetu Englandsdrottningu og Filippus hertoga af Edinborg. Í dag ætlar hann m.a. að skoða konunglega listasafnið, ræða við ættingja fólks sem fórst í hryðjuverkaárásunum 11. september 2001 og hitta leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna í Bretlandi, Michael Howard og Charles Kennedy. Breska blaðið Daily Mirror greinir frá því í dag að þrátt fyrir miklar öryggisráðstafanir hafi einn af blaðamönnum þess fengið vinnu í Buckingham-höll sem þjónn með fölsuð meðmæli. Hafin er rannsókn til að kanna hvernig svo gat farið.

SUSÁ fundi ríkisstjórnarinnar í gær var samþykkt að leggja fyrir þingflokka ríkisstjórnarflokkanna frumvarp til breytinga á lögum um sjóntækjafræðinga. Mun breytingin ganga út á að heilbrigðisráðherra geti með setningu reglugerðar heimilað sjóntækjafræðingum að mæla sjón en til þessa hefur það einungis verið á sviði augnlækna. Þá er gert ráð fyrir því að fleirum en sjóntækjafræðingum verði heimilað að selja bæði gleraugu og linsur. Ungir sjálfstæðismenn hafa seinustu ár margoft ályktað um þetta mál og mjög ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin taki þetta skref til samræmis við ályktanir Sambands ungra sjálfstæðismanna. Síðast var ályktað um málið af okkar hálfu á þingi SUS í september.

Valgerður SverrisdóttirUtandagskrárumræða var á þingi í gær um afkomu bankanna. Málshefjandi var Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður VG og sagði hún að einkavæðing bankanna hefði mistekist því hún hefði ekki skilað neytendum betri vöxtum eða þjónustu. Var Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra til andsvara. Hún sagðist ekki undra að almenningur sypi hveljur yfir hagnaði bankanna en sameiginlegur hagnaður þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins næmi tæpum 12 milljörðum króna. Sagðist hún telja að einkavæðingarferlið væri einhver best heppnaða aðgerð stjórnvalda í langan tíma. Ennfremur kom fram að teikn væru á lofti um að útlánaskriða væri að hefjast hjá bönkunum og í því sambandi verði menn að fara að öllu með gát.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist pistill minn um bruðl í utanríkisþjónustunni. Hafði ég lengi planlagt að skrifa um þetta efni, enda þarft að fjalla um þetta. Í ríkisreikningi sem kynntur var fyrir nokkrum vikum kom fram að utanríkisráðuneytið hefði eytt 5,5 milljörðum króna á síðasta ári. Óhætt er að fullyrða að þetta er gríðarleg útgjaldaaukning á nokkuð skömmum tíma. Telst hún 170% miðað við t.d. árið 1996, en vísitala neysluverðs hækkaði hinsvegar aðeins um 26% á sama tíma. Það ár námu útgjöld utanríkisráðuneytisins 2 milljörðum króna. Aukast útgjöldin því jafnt og þétt þó að á þessu tímabili hafi reikningsskilum verið breytt. Má ljóst vera að útgjaldaaukningin stafi að töluverðu leyti af því að sendiherrum og sendiráðum Íslands, hefur verið fjölgað. Eyðsla fjármuna skattpeninga með þeim hætti sem ríkisreikningur gefur til kynna er ekki verjandi. Taka verður til endurskoðunar og stokka upp utanríkisþjónustuna og leita leiða til að hagræða þar.

Oliver StoneLeikstjóraumfjöllun
Oliver Stone fæddist í New York, þann 15. september 1946. Á hann að baki meistaraverk á borð við Platoon, Born on the Fourth of July, JFK, Nixon og Wall Street. Myndir hans eru glöggur vitnisburður þess að hann hefur tekið á hitamálum á sinn hátt og ekki verið hræddur við að tjá skoðanir sínar gegnum myndir sínar. Myndir hans eru lýsingar hans á þessum hitamálum og hann hefur gert upp þau mál með sínum hætti. Ég fjalla um feril Oliver Stone í nýjustu leikstjóraumfjöllun minni á kvikmyndir.com.

Bókalestur - kvikmyndagláp
Kláraði í gær að lesa loks Grafarþögn eftir Arnald. Alveg hreint mögnuð bók sem vert er að mæla með við þá sem ekki hafa enn lesið. Hafði ég mjög gaman af henni, hörkuspennandi og góð út í gegn, rétt eins og Mýrin. Nú tekur við að lesa ævisögu Jónasar frá Hriflu eftir Guðjón Friðriksson. Las þær fyrir sjö eða átta árum, en nú verður þetta lesið á ný. Skrifaði pistil í gærkvöld fyrir frelsi.is, eftir það horfði ég á hina klassísku stórmynd, To Kill a Mockingbird með Gregory Peck. Þar fer hann á kostum í óskarsverðlaunahlutverki sínu. Magnað meistaraverk frá leikstjóranum Robert Mulligan.

BBCVefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef BBC. Þar eru ferskar fréttir og lífleg umfjöllun alla daga. Ómissandi vefur fyrir fréttafíkla.

Snjallyrði dagsins
Vits er þeim þörf sem víða ratar
Hávamál