Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 desember 2003

AlþingiHeitast í umræðunni
Meirihluti fjárlaganefndar leggur ekki fram neinar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fyrir þriðju umræðu þess á morgun, sem telst mjög óvenjulegt. Með þessu er ljóst að ekki verður veitt viðbótarfé til stofnana sem hafa að undanförnu lýst yfir mikilli fjárþörf, t.d. Landsspítali háskólasjúkrahús og Háskóli Íslands. Fjárlaganefnd Alþingis lauk umfjöllun um fjárlögin á fundi sínum síðdegis í gær. Umfjöllun þeirra um frumvarpið er því lokið, þótt 3. umræða sé eftir og þetta nokkuð sem ekki hefur gerst til fjölda ára á þingi. Í fjölmiðlum hefur Einar Oddur Kristjánsson varaformaður fjárlaganefndar, sagt að tekjuhliðin hafi verið afgreidd við aðra umræðu til að flýta nokkuð fyrir og útgjaldahliðin liggi fyrir. Þegar rætt er um þær stofnanir sem lýsa yfir fjárþörf segir Einar í viðtali við RÚV að ýmis rök séu fyrir því að verja meira fé til Háskólans og telur líklegt að svo verði, en ekki eigi það við um heilbrigðiskerfið, miklum peningum sé veitt til þeirra mála. Ekki var rætt í fjárlaganefnd um mögulegt frumvarp félagsmálaráðherra um skerðingu á atvinnuleysisbótum fyrstu þrjá daga í atvinnuleysi. Ekki er reyndar víst hvort frumvarpið verði lagt fram en það hefur ollið deilum, einkum innan Framsóknarflokksins.

Jón KristjánssonMikil umræða hefur verið seinustu daga vegna samkomulags heilbrigðisráðherra við Öryrkjabandalagið í marsmánuði. Telur Öryrkjabandalagið að ekki hafi verið að fullu staðið við gefin loforð. Vegna þessa hefur ÖBÍ auglýst mikið seinustu daga og heyrast lesnar auglýsingar frá þeim oft á dag í auglýsingatímum RÚV og í blöðum flennistórar auglýsingar. Það er greinilega nóg af peningum til sem hægt er að dæla í auglýsingakostnað meðan nóg væri eflaust hægt að gera við þann sama pening til hjálpar öryrkjum og þeirra málstað í nafni þessara samtaka sem starfa í þeirra nafni. Tel ég reyndar óþarfa að styrkja á bakvið þessi samtök með kaupum á lottómiðum og fleiru ef peningunum er eytt í þennan ósóma sem auglýsingarnar eru. Hef ég persónulega stutt mjög við bakið á þessum samtökum og kynnst vel starfsemi þeirra, enda var móðurbróðir minn Helgi Seljan þar framkvæmdastjóri í rúman áratug. Eftir stendur að ríkisstjórnin stendur að fullu við það samkomulag sem kynnt var í ríkisstjórn og heilbrigðisráðherra hafði umboð til að semja um af hennar hálfu. Engir lausar endar eru þar á. Öll gefin loforð sem samþykkt voru af ríkisstjórn standa og staðið við gefin loforð. Það er því ljóst að auglýsingaherferð Öryrkjabandalagsins er á undarlegum forsendum. Hafi heilbrigðisráðherra lofað persónulega einhverju sem hann hafði ekki umboð til að semja um, telst það hans mál.

RÚVUndanfarið hefur mikið verið fjallað um vinstrislagsíðu á fréttaskýringarþættinum Speglinum hjá útvarpsstöðvum ríkisins og verið lífleg umfjöllun víða vegna þess. Fjallaði ég aðeins um það í seinasta sunnudagspistli mínum. Þessi vinstrisveifla Spegilsins var enn og aftur staðfest í gærkvöldi með umfjöllun um Kárahnjúkavirkjun. Yfir kvöldmatnum hlustaði ég á kvöldfréttir og var að vaska upp þegar umfjöllunin um virkjunina var. Það var með ólíkindum að hlusta á þann einhliða og ómerkilega áróður sem þarna var boðinn landsmönnum í "fréttaskýringarþætti". Rætt var um áhrif virkjunarinnar á fuglalíf á Íslandi og fleira því tengt. Voru þarna viðtöl við tvo aðila úr Fuglaverndarfélagi Íslands. Gott og vel, en athygli vakti að ekki var rætt við Jón Gunnar Ottósson forstöðumann Náttúrufræðistofnunar Íslands, en hann hefur kynnt sér þessi mál mjög vel og hefði eflaust getað kynnt afstöðu til þessa máls að hálfu stjórnvalda. Ekki voru í þættinum kynntar staðreyndir um málið sem fyrir liggja og kynntar fleiri en ein hlið málsins. Fer umhverfisráðherra vel yfir umfjöllun þessa á vef sínum og ekki að undra. Eftir stendur að Spegill RÚV gerist æ oftar sekur um einhliða umfjöllun.

Frelsi.isSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu ritstjórnargrein um eldsneytisskattinn margfræga sem Heimdallur og forystusveit SUS hefur tekið afstöðu gegn, enda um að ræða skattahækkun í kjölfar kosningabaráttunnar þar sem lofað var skattalækkunum. Í greininni segir orðrétt: "Skattahækkanir verða ekki góðar fyrir skattgreiðendur þó þeir fái smá fyrirvara. Ekki er heldur hægt að réttlæta skattahækkanir með vísan til þess að þær snúist um forsendur fjárlaga enda snýst gagnrýnin einmitt um forsendur fjárlaga. Heimdallur hyggst í vetur fylgjast vel með því hvaða þingmenn sýna í verki stuðning við aukið frelsi einstaklinganna og minni ríkisafskipti. Þá mun Heimdallur jafnframt greina lesendum Frelsi.is frá því hvaða þingmenn styðja skattahækkanir, aukin ríkisafskipti og takmarkanir á frelsi einstaklinga, svo dæmi séu tekin." Tek ég undir þessa umfjöllun. Ég hef farið yfir þetta mál í pistlum á vef mínum og afstaða mín ætti að vera öllum ljós, ég er alfarið á móti þessari skattahækkun.

KastljósfólkiðDægurmálaspjallið
Í gærkvöldi var líflegt spjall í dægurmálaspjallþáttunum. Í Ísland í dag komu lögreglumenn sem fyrr um daginn höfðu verið sakfelldir í héraðsdómi vegna handtöku sem þeir framkvæmdu í miðbæ Reykjavíkur og þótti óeðlileg. Áttu þeir athyglisvert spjall við Þórhall Gunnarsson. Í Kastljósinu var talsvert líf og fjör. Alþingismennirnir Einar Oddur Kristjánsson og Helgi Hjörvar mættu og ræddu mál öryrkja sem hafa verið mikið í fréttum eins og fyrr er nefnt. Kom margt fróðlegt fram í þættinum, vöktu yfirlýsingar Einars um málið athygli og gott að hann fór vel yfir þetta allt. Eftir stendur að öll gífuryrði ÖBÍ og stjórnarandstöðunnar eiga ekki við rök að styðjast. Allt sem samþykkt var í ríkisstjórn og ráðherra veitt umboð til að semja um hefur verið efnt. Svo einfalt er það.

Veikindi - afþreying
Hef verið veikur seinustu daga. Fékk sýkingu í hálsinn um seinustu helgi og leiddi það til þess að ég missti röddina. Fór ég á slysadeild síðastliðinn sunnudag og hitti þar lækni sem tók sýni vegna þessa og kannaði hann ástand mitt. Hef ég að mestu verið innandyra vegna þessa og var reyndar skipað af lækninum að vera heima við meðan sýkingin væri að minnka. Í kjölfar þess að sýkingin er farin mun ég hitta háls- nef og eyrnalækni og kanna það að fjarlæga hálskirtla mína sem eru komnir í frekar slæmt ástand. Hefur þetta háð mér mjög seinustu mánuði og er svo komið að við verður ekki unað. Verða kirtlarnir fjarlægðir fyrir jól eða snemma á nýju ári í síðasta lagi. Meðan ég hef verið heima við vegna veikindanna hef ég haft það rólegt, horft á kvikmyndir og lesið bækur og slappað af.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum að líta á kvikmyndavefinn kvikmyndir.is. Þar er skemmtileg umfjöllun um allt sem tengist kvikmyndum, umfjallanir kvikmyndaáhugamanna, trailerar og margt fleira. Magnaður vefur.

Snjallyrði dagsins
Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar og auðnir hnattarins taka við.
Hannes Pétursson skáld