Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 desember 2003

Anna Lindh (1957-2003)Heitast í umræðunni - pistill Björns
Anna Lindh fyrrv. utanríkisráðherra Svíþjóðar, var myrt í septemberbyrjun. Var ráðist á hana með hnífi í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms og lést hún af sárum sínum. Var fráfall hennar einn sorglegasti atburður ársins á Norðurlöndum. Morðið á Önnu Lindh var bæði skelfileg aðför að lýðræðinu og áminning um að bæta öryggisgæslu stjórnmálamanna á Norðurlöndum. Fljótlega eftir morðið var Mijailo Mijailovic handtekinn, grunaður um morðið á utanríkisráðherranum. Um helgina var tilkynnt að réttarhöld yfir honum verða send beint í sjónvarpsstöðinni TV4 plus. Er þetta í fyrsta skipti sem útvarpað er beint frá sænskum réttarhöldum en aðeins hljóðið verður sent út þar sem bannað er samkvæmt lögum að taka myndir í sænskum réttarsölum. Réttarhöldin munu sennilega hefjast 14. eða 15. janúar 2004 og standa í rúma viku. Munu útsendingar frá réttarhöldunum verða daglega frá klukkan 9 til 16:30 skv. sænskum vefmiðlum og munu sérfræðingar verða í sjónvarpssal til að fjalla um það sem gerist. Þá verða birtar teikningar úr réttarsalnum og önnur myndskeið sem tengist réttarhaldinu. Mikilvægt að málið fái þann endi að morðingi utanríkisráðherrans fái viðeigandi dóm, en það verði ekki sami skugginn yfir Svíum og morðið á Olof Palme 1986.

Dagný JónsdóttirSamband ungra framsóknarmanna sendi um jólin frá sér ályktun þar sem hörmuð var sú staða sem upp væri komin varðandi Háskóla Íslands og þær sparnaðaraðgerðir sem skólinn væri þvingaður til að gangast undir á næstunni. Fram kom þar að "SUF lýsi sig andsnúið því að beitt skuli fjöldatakmörkunum, inntökuprófum eða skólagjöldum inn í Háskóla Íslands eins og stjórnvöld virðist stefna leynt og ljóst að." Er undarlegt að lesa þessa ályktun SUF og ekki síður að heyra um jólin í fréttum viðbrögð Dagnýjar Jónsdóttur varaformanns menntamálanefndar þingsins og þingmanns Framsóknarflokksins um þetta mál. Þess ber að geta að hún er fyrrum formaður SUF. Hún sagði í fréttaviðtali Framsóknarflokkinn ekki stefna að skólagjöldum við Háskóla Íslands. Hún segir ljóst að þrátt fyrir aukin fjárframlög til Háskóla Íslands vanti skólann enn frekara fé. Dagný kemur sem fyrr undarlega fram og ekki í fyrsta skiptið. Í kosningabaráttunni í vor minnti hún einna helst á frambjóðanda stjórnarandstöðuflokks en ekki frambjóðanda stjórnarflokks. Réðist hún margítrekað að menntamálaráðherra í kosningabaráttunni í vor og beitti undarlegum brögðum. Er svosem ekkert nýtt að sjá þessi brögð hennar.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli vikunnar á vef sínum fjallar Björn um hugsanir sem vöknuðu hjá honum við lestur á ævisögu Jakobs F. Ásgeirssonar um Valtý Stefánsson, ritstjóra Morgunblaðsins. Orðrétt segir hann: "Hin borgaralega menningarviðleitni Valtýs Stefánssonar svífur enn yfir ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins og við framkvæmd hennar er hollt að minnast þess, hve annt honum var um að skilgreina þessa stefnu og lýsa henni fyrir lesendum blaðsins og skapa þannig ritstjórnarlegt leiðarljós. Á tímum pólitískrar rétthugsunar og tískumála er mikils virði að láta ekki stundarfyrirbrigði í dægurumræðum draga að sér alla athygli – þá er hætta á því, að siglt sé eftir villuljósum." Góður pistill og skemmtilegar pælingar sem fram koma í þessum pistli. Las þessa góðu bók um jólin, þetta er virkilega vönduð bók og vel hjá gerð hjá Jakobi. Hefur hann greinilega lagt mikla vinnu í hana rétt eins og ævisögu Péturs Ben.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í seinasta sunnudagspistli ársins 2003 fjalla ég um jólahátíðina og fór yfir þær bækur sem ég hef litið í yfir hátíðirnar. Var venju samkvæmt eytt jólunum í jólaboð, bókalestur og kvikmyndagláp. Varla var kveikt á tölvunni hátíðardagana og tekin sér algjör hvíld frá skrifum, uppfærði ég ekki bloggið í tæpa viku. Skrifaði ég sunnudagspistilinn að morgni sunnudags áður en ég hélt á skíði í góða veðrinu. Semsagt að þá var jólum eytt í rólegheitum og afslöppun. Las nokkrar góðar bækur og á eftir að fara yfir fleiri. Í pistlinum fjalla ég ennfremur um ráðherraskipti sem verða í menntamálaráðuneytinu á gamlársdag, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tekur þá við embætti af Tómasi Inga Olrich sem hættir í stjórnmálum eftir að hafa verið menntamálaráðherra í tæp 2 ár og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í tæp 13 ár.

Sir Alfred HitchcockLeikstjóraumfjöllun
Meistari spennunnar, Sir Alfred Hitchcock fæddist í London, 13. ágúst 1899. Hann var sonur kaupmannshjóna í borginni. Alfred var alinn upp sem strangtrúaður kaþólikki og gekk í kaþólikkaskóla í æsku. Hann vann ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum í verslun föður síns fram á unglingsár, en árið 1915 hóf hann störf hjá Henley Telegraph and Cable Company. Á þessum árum vaknaði áhugi hans á kvikmyndum og kvikmyndagerð; hann fór oft í bíó og var dyggur lesandi fagrita um kvikmyndagerð. Árið 1920 fékk hann vinnu hjá kvikmyndaveri í London sem aðstoðarmaður leikstjóra. Árið 1922 fékk hann fyrsta leikstjórnarverkefni sitt upp í hendurnar. Með því hófst magnaður leikstjóraferill hans sem stóð í 55 ár. Meðal eftirminnilegustu mynda hans eru Psycho, Strangers on a Train, North by Northwest, Rebecca, Vertigo og Rear Window, svo nokkrar séu nefndar. Sir Alfred Hitchcock lést í Los Angeles, 29. apríl 1980, áttræður að aldri. Ferill Hitchcocks er einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar. Meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Ég fjalla um feril þessa einstaka kvikmyndagerðarmanns í jólaleikstjóraumfjöllun sem birtist annan dag jóla á kvikmyndir.com.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Um jólin birtust nokkrar greinar á frelsinu. Á aðfangadag birtist pistill Kristins um Reykjavík og miðbæinn, voru það skemmtilegir punktar hans. Annan dag jóla birtist stuttur pistill minn um ráðherraskiptin á gamlársdag. Í dag birtist hinsvegar á frelsinu pistill eftir Atla Rafn um fasteignamarkaðinn. Orðrétt segir hann: "Stuðningur ríkisins við fasteignakaupendur er tvíþættur eins og staðan er í dag. Annars vegar er um að ræða ríkisábyrgð á fasteignalánum og hins vegar vaxtabætur til fasteignakaupenda. Öll greiðum við fyrir þennan stuðning með hærri sköttum og vöxtum þar sem bæturnar eru bein millifærsla og ábyrgðin gerir lánshæfismat ríkisins lakara. Nú bendir allt til að Framsókn, með blessun Sjálfstæðisflokksins, auki stuðning ríkissins við fasteignakaupendur þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er að hækka hámarksfjárhæð og hámarkslánshlutfall vegna fasteignakaupa á kjörtímabilinu."

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á vef Verslunarráðs Íslands. Þar er mikið af skemmtilegum fréttum og góðu efni.

Snjallyrði dagsins
Að kveldi skal dag lofa.
Hávamál