Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 janúar 2004

Greg DykeHeitast í umræðunni
Eins og ég sagði frá í gær, birtist þá skýrsla Huttons lávarðar, um mál Dr. Davids Kelly sem lést í fyrrasumar og rannsókn á dauða hans og málum þeim tengdum. Í skýrslunni var skuldinni að mestu skellt á fréttaflutning BBC og forsætisráðherrann að mestu hreinsaður af þeim ásökunum sem á hann voru bornar. BBC baðst í dag formlega afsökunar vegna rangfærslna í fréttinni um Íraksskýrslu bresku stjórnarinnar í fyrra. Greg Dyke útvarpsstjóri BBC, sagði í dag af sér embætti, vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom í skýrslunni um fréttaflutning BBC. Hreinsun hefur því orðið hjá BBC, en í gær tilkynnti stjórnarformaðurinn um afsögn sína. Í afsagnarbréfi sínu sagði Dyke að í öllu málinu hefði hann lagt áherslu á að verja ritstjórnarlegt sjálfstæði BBC og hafa almanna hagsmuni að leiðarljósi. Er Dyke tók við starfi sínu fyrir nokkrum árum var hann sakaður um að vera skósveinn Blairs. Eftir formlega afsögn Dyke barst Downingsstræti 10, skrifstofu forsætisráðherrans, afsökunarbeiðni frá BBC sem forsætisráðherrann féllst á. Framtíð BBC er óráðin að mestu, endurskoðun skipurits stofnunarinnar tekur nú við. Talið er líklegt að dregið verði verulega úr sjálfstæði stofnunarinnar. Mikil reiði er meðal starfsmanna og heyrst hafa raddir um að fleiri kunni að segja upp. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var fyrir blaðið Evening Standard kom fram að 56% landsmanna telur ósanngjarnt að einungis BBC sé kennt um og 49% telja stjórnina hvítþvegna í skýrslunni. 70% landsmanna vilja óháða rannsókn á málinu.

AlþingiÞing kom saman í gær, að nýju eftir jólaleyfi. Hófust umræður þar á utandagskrárumræðu um ástandið í Írak. Málshefjandi var Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður. Vildi hann að utanríkisráðherra tjáði þinginu að stuðningur við stríð í Írak hefði verið mistök. Það gerði hann ekki. Í svari Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, kom fram að harðstjórinn Saddam Hussein hafi verið ógn við heimsfriðinn. Ráðherra lagði í umræðunni áherslu á að Íslendingar hefðu ekki ákveðið innrás í Írak. Tókust þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu á um þetta mál. Eftir sem áður er niðurstaða allra, almennur fögnuður með endalok stjórnar Saddams Husseins og fáir sakna hans af vettvangi heimsmálanna. Eftir að Saddam var handtekinn í holunni, hefur afl andspyrnuhreyfinganna í Írak dvínað mjög. Hann bíður nú réttarhalda sem verða líklega á þessu ári, þar sem hann verður væntanlega spurður margra mikilvægra spurninga.

Kosningar 2003Á sama þingfundi svaraði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fyrirspurn nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar um þingkosningarnar 2003 og framkvæmd þeirra. Í svari ráðherra kom fram að Dómsmálaráðuneytið ætli ekki að flytja tillögu um það að í lögum um kosningar til Alþingis, skuli sett ákvæði um hvenær skuli endurtelja atkvæði þegar mjótt sé á munum. Alþingi taki afstöðu til hvað rétt þyki, eins og verið hafði. Mikið var rætt um þessi mál í fyrrasumar eftir að nokkrum atkvæðum munaði að frjálslyndir næðu inn manni í Reykjavík. Vildu þeir endurtalningu vegna vafaatkvæða og að mjótt var á mununum. Frjálslyndir misstu eina þingsæti sitt í höfuðborginni í kosningunum.

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Tveir hörkugóðir pistlar eru á frelsinu. Hjölli fjallar í pistli sínum um heilbrigðismál og segir orðrétt: "Ýmsir eru gjarnir á að halda því á lofti að ríkinu beri skylda til að veita öllum þegnum landsins bestu heilbrigðisþjónustu sem möguleg er. Með þessa yfirlýsingu að vopni heimta menn jafnan sífellt meiri pening til að leysa öll vandamál kerfisins, og bregðast ókvæða við öllum tilraunum til að skera niður kostnað. Ef það er eitthvað sem hægt er að læra af reynslunni, er það sú staðreynd að vandamál heilbrigðiskerfisins verða ekki leyst með endalaust meiri fjárútlátum. Hin gríðarlega peningaeyðsla, sem oft á tíðum virðist hálf stjórnlaus, er nefnilega sjálf stærsta vandamálið. Það væri mikil framför ef framangreindri yfirlýsingu væri breytt á þann veg að veita bæri sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt." Í pistli sínum fjallar Bjarki um menntamál og segir orðrétt: "Það er eðlilegt að þátttaka einstaklings við kostnað menntunnar sinnar aukist því lengra sem líður á námið. Þegar skyldumenntun lýkur, þ.e. að segja grunnskólaprófi, er áframhaldandi menntun einstaklings hans fjárfesting í auknum lífsgæðum og er eðlilegt að einstaklingurinn taki þátt í þeim kostnaði sjálfur. Menntamál eru alltaf á dagskrá og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Til að stuðla að áframhaldandi sókn í menntamálum á Íslandi þarf að tryggja að einkaframtakinu sé tryggður rekstrargrundvöllur í lögum og að Háskóli Íslands fái að innheimta þau skólagjöld sem hann telur nauðsynleg til að tryggja nemendum góða kennslu og aðstöðu. Virkilega góðir pistlar og fróðlegir hjá þeim félögum.

Pressukvöld SjónvarpsinsDægurmálaspjallið
Það var nóg af skemmtilegu dægurmálaspjalli í kvöldþáttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi. Í Íslandi í dag voru gestir Jóhönnu og Þórhalls eftir fréttirnar, alþingismennirnir Einar K. Guðfinnsson og Steingrímur J. Sigfússon. Umræðuefnið var Íraksstríðið og utandagskrárumræða stjórnarandstöðunnar á þingi í gær um hvort rétti hafi verið af Íslendingum að lýsa yfir mórölskum stuðningi við Bandamenn við innrásina í Írak. Þeir voru ekki beint sammála eins og við mátti búast og voru hvassar umræður um þetta mál. Í Kastljósinu á sama tíma ræddu þær Hanna Birna Kristjánsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir skipulagsmál í borginni, en til stendur að breyta ásýnd Laugavegarins, skv. nýju skipulagi svæðisins sem kynnt var í vikunni. Í Pressukvöldi RÚV var gestur þriggja fréttamanna, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, og var rætt um Íraksmálið, málefni spítalanna og ráðherrahrókeringar framsóknarmanna sem verða í september nk.

All the President?s MenKvikmyndir
Eftir fréttir og dægurmálaþættina var komið að góðu sjónvarpskvöldi. Horfðum við á meistaraverk Alan J. Pakula, All the President's Men. Hér er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta í innbrotinu í Watergate-bygginguna, sem á endanum lyktaði með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna. Með afbrigðum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin af tveimur vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem fer á kostum í hlutverki ritstjóra Washington Post, Ben Bradlee. Hlaut hann óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Ein af allra bestu myndum hins mistæka Alan J. Pakula. Hún er ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hún er vel þess virði. Mögnuð mynd og virkilega vel leikin.

Vefur dagsins
Félagi minn og nafni, Stefán Einar Stefánsson, heldur úti góðri heimasíðu á Netinu, þar sem hann tjáir sig um málefni samtímans og fer yfir það sem mestu máli skiptir. Hvet alla til að líta á félaga Stefán Einar í dag á vefrúntinum.

Snjallyrði dagsins
I'lll make him an offer he can't refuse.
Don Vito Corleone í The Godfather