Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 febrúar 2004

Boris TrajkovskiHeitast í umræðunni
Flugvél Boris Trajkovski forseta Makedóníu, hrapaði í þoku og rigningu í Stolak-fjöllum í S-Bosníu í morgun. Forsetinn fórst með vélinni ásamt mörgum af starfsmönnum sínum. Hann var á leið á ráðstefnu í Mostar í Bosníu, með forsetavélinni, er slysið átti sér stað. Trajkovski var lögfræðingur að mennt. Hann var kosinn forseti Makedóníu 1999. Togstreita milli Makedóna sem tala slavneskt tungumál og íbúa sem ættaðir eru frá Albaníu setti mikinn svip á 5 ára forsetatíð hans. Trajkovski stjórnaði fundum þegar Atlantshafsbandalagið hafði forystu um friðarsamninga árið 2001 sem bundu enda á margra mánaða vopnaviðskipti sem hindruðu eðlilegt líf borgaranna. Hann hafði þá sakað Bandalagið árið 1999 um að sinna ekki um spennuna milli tungumálahópa í Makedóníu og vandamálum eftir að 300.000 Albanar flúðu þangað. Honum var þakkað að samningar tókust við albanska uppreisnarmenn, þannig að komið var í veg fyrir borgarastríð. Á Vesturlöndum naut Trajokovski álits sem kraftmikill leiðtogi með alþjóða yfirsýn og hæfileika til að hafa góð samskipti við erlenda stjórnarerindreka og stjórnmálamenn. Sérsvið hans á forsetastóli var viðskipta- og atvinnulöggjöf.

Clare ShortClare Short fyrrum ráðherra í bresku ríkisstjórninni, fullyrti í dag að skrifstofa Kofi Annans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, hafi verið hleruð af Bretum í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Í samtali við BBC sagðist hún hafa lesið hljóðrituð samtöl sem áttu sér stað á skrifstofu Annans í New York. Hún sagði breska njósnara einnig hafa verið að störfum innan veggja stofnunarinnar. Short sagði af sér í maí í fyrra, eins og kunnugt er, þar sem hún var mjög ósátt við stefnu Blairs í Íraksdeilunni. Á mánaðarlegum fundi með blaðamönnum í Downingstræti 10 neitaði forsætisráðherrann að ræða ásakanir Short um að breska leyniþjónustan hefði njósnað um Annan. Sagði hann að Clare Short væri að grafa undan öryggi breskra þegna. Honum þótti ábyrgðarlaust að koma fram með slíkar ásakanir og lét aðeins hafa eftir sér að breska leyniþjónustan starfaði innan ramma breskra laga og alþjóðalaga. Fred Eckhardt talsmaður Annans, sagði að sé þetta rétt, sé um ræða ólöglegan verknað, Annan hafi ekkert að fela í störfum sínum og svona sé algjör óþarfi.

Arnaldur IndriðasonGrafarþögn, skáldsaga Arnalds Indriðasonar, er nú í 7. sæti á bóksölulista í Þýskalandi. Engin íslensk bók hefur fyrr komist svo hátt á þeim lista. Grafarþögn er nefnist Todeshauch í þýðingu Colettu Bührling hefur þegar verið prentuð tvisvar, var þó fyrsta upplagið 100.000 eintök því þess var vænst að bókin seldist vel. Það seldist upp á einungis örfáum dögum. Í Grafarþögn segir frá Sigurði Óla og Elínborgu og rannsóknum þeirra á beinafundi í grunni nýbyggingar í Grafarholtinu. Arnaldur fékk norrænu glæpasagnaverðlaunin, Glerlykilinn, fyrir Grafarþögn í fyrra. Las ég bókina í fyrra, er hún gríðarlega vel uppbyggð og vönduð. Þessi bók, er einn besti krimmi í sögu íslenskra bókmennta og skyldulesning fyrir alla sem unna sakamálasögum.

Helga ÁrnadóttirSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag eru tveir stórgóðir pistlar. Helga Árnadóttir fjallar í pistli sínum um menntamál og segir svo: "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti nýverið lista yfir bestu háskóla heimsins, sem unninn var af rannsóknaraðilum í Shanghai. Listinn var nokkuð sláandi, þar sem í allir nema 15 af topp 50 háskólunum voru bandarískir. Einu evrópsku háskólarnir sem náðu inn á topp 10 voru Oxford og Cambridge, en engir aðrir evrópskir háskólar náðu hærra en í fertugasta sæti. Yfirburðir bandarískra háskóla virðast því vera að aukast á meðan þeir evrópsku standa í stað eða visna. Í Bandaríkjunum er að finna fyrirmyndina að háskólum sem eru í senn öflugar, sjálfstæðar og vel fjármagnaðar menntastofnanir, og evrópskir menntamenn og stjórnmálamenn brjóta því heilann yfir því hver sé leiðin til að ná þeirra stöðu." Í pistli sínum fjallar Kristinn Már um menningarmál og segir svo: "Frjálshyggjumenn líta svo á að ríkisvaldið skuli ekki neyða borgarana til þess að láta eigið fé af hendi til ráðstöfunar í þá menningu og listir sem stjórnmálamönnum og þrýstihópum þóknast. Ljóst má vera að hafi einstaklingar og fyrirtæki þessa lands raunverulegan áhuga á því að leggja sitt fé í þessi verkefni þá munu þau halda áfram að starfa og jafnvel vaxa sem aldrei fyrr með tilkomu samkeppni og þeirra kosta sem einkaframtakið augljóslega hefur fram yfir opinberan rekstur. Hafi borgararnir ekki áhuga á því að leggja fé sitt í þessa starfsemi og þá menningu sem hið opinbera ákveður að halda úti er ljóst að þeir hafa ekki raunverulegan áhuga á því sem ríkið neyðir þá til að fjármagna að svo stöddu."

PattonKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd Patton. Stórkostleg óskarsverðlaunamynd sem er ein af allra bestu kvikmyndum áttunda áratugarins. Í henni er lýst á einkar mikilfenglegan og stórbrotinn hátt reisn og falli hershöfðingjans umdeilda George S. Patton, en hann var einn af allra snjöllustu herarkitektum seinni heimsstyrjaldarinnar og átti einna stærstan hlut að máli að sigur vannst á Nasistaríki Adolf Hitlers og veldi hans. Í myndinni er fylgst með herdeild hans og stórum sigrum allt frá innrásinni í Norður-Afríku, Sikiley og Ítalíu uns hann féll loks í ónáð fyrir augnabliksbræði. Stríðsmyndir gerast ekki mikið betri og verð ég að segja í fullri hreinskilni að mér finnst þessi mynd ein af þeim allra bestu þeirrar gerðar, bæði að gæðum, leik og ekki síst söguígildi sitt. Óskarsverðlaunaleikstjórn Franklins Schaffners er í engu ábótavant, hvort heldur sem um er að ræða miklar sögulegar stríðssenur eða þá mjög svipmiklar nærmyndir af hinni einstaklega litríku persónu hershöfðingjans sem George C. Scott túlkar á hreint einstaklega góðan hátt, en hann hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kvikmyndatakan er einnig mjög eftirminnileg og myndin öll, frá einu af allra sterkustu upphafsatriðum kvikmyndasögunnar, hinni einstaklega góðu sex mínútna einræðu hershöfðingjans, allt til loka ferils hans, er ein af allra eftirminnilegustu upplifunum kvikmyndasögunnar.

PressukvöldDægurmálaspjallið
Eftir að hafa horft á stórmyndina Patton, var litið á Pressukvöld Ríkissjónvarpsins. Þar var Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gestur þriggja fréttamanna. Var víða farið í hálftímalöngu spjalli, en mest snerist umræðan um væntanlegar hrókeringar í ríkisstjórninni í september. Sagðist hann ætla að gefa kost á sér til formennsku flokksins ef Davíð Oddsson kýs að hætta sem formaður á næsta landsfundi. Hann sagðist ennfremur ekki útiloka að hafa áhuga á að taka við utanríkisráðuneytinu í haust. Geir sagði að það væri alls ekki sjálfgefið að hann ætti tilkall til formannssætisins. Þeir sem hefðu áhuga á að bjóða sig fram ættu að gera það og svo væri það flokksmanna að ákveða, hver hlyti embættið, ef það myndi losna. Eins og heyrst hefur á spjallþáttum seinustu daga, er ekkert fararsnið á Davíð Oddssyni úr stjórnmálum, og því allar svona spekúlasjónir ótímabærar að mínu mati.

Dagurinn í dag
* 1930 Stóra bomban - grein eftir Jónas Jónsson birtist í Tímanum og leiddi til mikilla deilna
* 1986 Ferdinand Marcos hrakinn frá völdum á Filippseyjum eftir 20 ára einræðisstjórn
* 1989 Íslenska landsliðið í handbolta sigraði í B-heimsmeistarakeppninni í París í Frakklandi
* 1993 Sprengjutilræði í World Trade Center í New York - turnunum var grandað árið 2001
* 2000 18. Heklugosið á sögulegum tíma hófst - því var spáð með 18 mínútna fyrirvara

Snjallyrði dagsins
Look, I don't teach you about teachin'. Don't teach me about ducks.
Sadie í A Letter to Three Wives