Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 maí 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, flutti í gær ítarlega ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Er þetta í síðasta sinn sem Davíð ávarpar aðalfund SA, í bili að minnsta kosti, en hann lætur af embætti forsætisráðherra eins og kunnugt er, 15. september nk. Orðrétt sagði Davíð í ræðunni: "Enginn efi er á því að EES-samningurinn hafði ýmis góð áhrif á íslenskt atvinnulíf. En það er sérstakt að hlýða á suma þá sem nú tala hvað mest um að EES samningurinn sé veikur og fullyrða gjarnan að þær efnahagsframfarir sem orðið hafa undanfarin áratug eigi allar upphaf sitt og endi í þeim samningum. Þessi skoðun er að mínu mati slík endaleysa að vart er á hana orðum eyðandi ef ekki væri fyrir þá sök að hún endurspeglar afstöðu sem ég tel mjög varhugaverða." Hann fjallaði einnig um fjölmiðlafrumvarpið í ræðunni og sagði, að það væri lagt fram af brýnni nauðsyn því ástandið á íslenska fjölmiðlamarkaðinum hefði verið orðið með öllu óviðunandi. Davíð sagði að fjölmiðlar væru ein meginstoð lýðræðisins í landinu og því mætti öllum vera ljóst að þær kröfur sem gerðar séu til fjölmiðla séu aðrar og meiri en gerðar séu til reksturs fyrirtækja almennt. Aðeins örfáar þjóðir myndu láta samþjöppun eins og hér hafi orðið afskiptalausa og þegar við bætist að aðaleigandi fjölmiðlaveldisins sé eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins þá hljóti allir sem vilja varðveita frelsi og lýðræði í landinu að bregðast við. Athyglisverð ræða hjá Davíð, sem flestir ættu að lesa og kynna sér.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, var í dag í viðtalsþætti á arabísku sjónvarpsstöðinni al-Hurra, til að reyna að endurheimta traust Arabaheimsins í kjölfar myndbirtinga í síðustu viku er sýndu pyntingar hernámsliðsins í Írak á stríðsföngum. Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að misþyrmingar á stríðsföngum með þeim hætti sem þarna hafi komið í ljós verði ekki liðnar. Hann hefur lofað að grípa til viðeigandi aðgerða gegn þeim sem brutu á föngunum í Abu Ghraib-fangelsinu. Sagt var frá því í gær í fréttum CNN að lykilyfirmenn í herlögreglu og leyniþjónustu hersins hafi ekki farið eftir gildandi lögum og reglum og því ekki komið í veg fyrir misþyrmingar á föngunum og þær hafi staðið á tímabilinu frá ágúst 2003 til febrúar 2004. Föngunum mun t.d. hafa verið hótað með 9 mm skammbyssum, köldu vatni hellt á þá, karlföngum hótað nauðgun, fangarnir barðir með kústskafti og stól, þeir svívirtir með fosfórljósi og hugsanlega kústskafti, hótað með herhundum, vírar festir við útlimi, fangar sakaðir um samkynhneigð og naktir fangar þvingaðir í vafasamar stellingar. Þetta mál er vægast sagt skelfilegt og mikilvægt að þeir sem brutu af sér verði refsað með viðeigandi hætti.

Margaret ThatcherEins og fram kom hér á blogginu í gær, voru liðin í gær 25 ár frá því að Margaret Thatcher tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands. Vék ég að þessum merku tímamótum í grein hér og ennfremur á heimasíðunni. Þessum tímamótum var fagnað í gærkvöldi í boði sem Breski Íhaldsflokkurinn hélt Thatcher. Þar voru fluttar margar ræður og verka hennar á forsætisráðherrastóli minnst. Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, flutti langa og ítarlega ræðu og sagði Thatcher einn merkasta leiðtoga hægrimanna á 20. öld og aðeins Sir Winston Churchill kæmist jafnfætis henni. Breskir hægrimenn gátu glaðst yfir fleiru en aldarfjórðungsafmæli Thatcher ismans í gær, enda birtist góð könnun í gær fyrir flokkinn, þar sem fram kemur að hann er stærsti flokkur landsins og að Howard er jafnvinsæll forsætisráðherranum. Það er vonandi stutt í að breskir íhaldsmenn nái aftur stjórn landsins.

Helga ÁrnadóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Helga um bandarísk stjórnmál. Í pistlinum segir: "Forsetaefni demókrata, John Kerry, hefur lýst því yfir að hann vilji stöðva ,,útflutning” bandarískra starfa. Með því er hann að vísa til þess að á síðustu áratugum hafa bandarísk fyrirtæki í auknum mæli flutt framleiðslustarfsemi sína til annarra landa í hagræðingarskyni. Það hefur óhjákvæmilega leitt til þess að sumir Bandaríkjamenn hafa misst vinnuna. John Kerry gleymir þó gjarnan að nefna að störf sem krefjast betur menntaðs vinnuafls hafa á sama tíma verið að færast í auknum mæli til Bandaríkjanna, jafnvel tvöfalt til þrefalt fleiri störf en flust hafa úr landinu. Það má vel færa rök fyrir því að stefna Kerrys í atvinnumálum sé á villigötum því jákvæð afleiðing þess að störf flytjist landa á milli er að þá nýta þjóðirnar það sem hagfræðingar kalla sína hlutfallslegu yfirburði. Hugtakið hlutfallslegir yfirburðir er notað til að lýsa því þegar þjóð getur framleitt vöru með minni tilkostnaði en önnur þjóð." Ríkisdagblaðið, tímarit gefið út af Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, kom út í gær og er í því fjöldi af góðu efni. Allir geta kynnt sér efnið með því að smella á fyrrnefndan tengil. Ennfremur bendi ég á netviðtal við Ástu Möller hjúkrunarfræðing, þar sem fjallað er um heilbrigðismál.

The MatrixFundur - kvikmynd
Eftir kvöldfréttirnar var litið á fréttirnar hjá Aksjón, var þar ítarleg umfjöllun um fréttir af Rekstrar- og viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Horfði á bæjarstjórnarfund á Aksjón, þar sem tekist var á um bæjarmálin. Mikið rætt um öldrunar- og jafnréttismál að þessu sinni, sérstaka athygli vakti sem fyrr undarleg framganga Oktavíu Jóhannesdóttur leiðtoga Samfylkingarinnar, í bæjarstjórn. Guðmundur Jóhannsson varabæjarfulltrúi, hélt góða ræðu um skipulagsmál. Oddur Helgi tók Oktavíu í kennslustund um siði í bæjarstjórn. Ágætisfundur, en alltaf jafnmerkilegt að fylgjast með umræðunum. Horfðum að útsendingunni lokinni á kvikmyndina The Matrix. Mögnuð mynd sem gerist einhvern tíma í framtíðinni og fjallar um tölvuséníið Neo sem lifir að því er virðist (og hann virðist halda) ósköp venjulegu og einkar viðburðasnauðu lífi. Það á hinsvegar eftir að breytast hressilega þegar hann fer skyndilega að heyra rödd innan úr höfðinu á sér sem gefur honum fyrirmæli um að flýja frá dularfullum svartklæddum mönnum sem koma á vinnustað hans. Ómætstæðilegt tæknibrellumeistaraverk. Kláraði landbúnaðargreinina að lokinni myndinni, styttist í að landbúnaðarrit SUS komi út.

Dagurinn í dag
1639 Brynjólfur Sveinsson var vígður Skálholtsbiskup - hafði mikil áhrif í embættistíð sinni
1945 Guðmundur Kamban rithöfundur, skotinn til bana af hermanni í Danmörku
1981 Bobby Sands deyr, 27 ára að aldri - hann hafði verið í hungurverkfalli í 66 daga
1998 GSM þjónusta Tals hefst - stækkaði ört á skömmum tíma. Varð hluti af Og Vodafone 2003
2000 Össur Skarphéðinsson kjörinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar í póstkosningu

Snjallyrði dagsins
En því aðeins geta þjóðirnar til fulls þekkt sig sjálfar, að þær þekki einnig aðrar þjóðir, gefi nákvæman gaum að öllu lífi þeirra og framförum, og taki dæmi þeirra og reynslu sér til eftirdæmis og viðvörunar
Jón Sigurðsson forseti