Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 apríl 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum í gær. Að fundum þingflokkanna loknum svöruðu leiðtogar stjórnarflokkanna, Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, spurningum fréttamanna og fjölluðu ítarlega um málefni fjölmiðla og það sem tengist frumvarpinu sem lagt verður formlega fram á þingi seinna í vikunni og rætt t.d. í umræðum á morgun í þinginu. Var svo ítarleg umfjöllun um málið í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með einhliða umfjöllun fréttamiðla Norðurljósa á þessu, en það fyrirtæki rekur eins og flestir vita þrjár af fimm stærstu fréttastofum landsins. Lengst var gengið í umfjöllun DV, en ég sá það blað í blaðarekka í Nettó í gær er ég var að versla í matinn. Þar stóð með stríðsletri á forsíðu: "Gremja Davíðs bundin í lög". Ég ætla ekki einu sinni að ímynda mér hvernig umfjöllunin var á innsíðum blaðsins. Það ber allt að sama brunni í umfjöllun þessa sorprits, að mínu mati. Ef ekki er hægt að finna slúðurfréttir eru þær blásnar upp eða búnar til að mestu. Var umfjöllun Stöðvar 2 lítt faglegri en blaðaumfjallanir DV og Fréttablaðsins, en það er greinilegt að öll skrif þeirra blaða einkennast af panik og geðshræringu og ómálefnalegum árásum að stjórnmálamönnum. Gott dæmi var að sunnudagsskrif ritstjóra Fréttablaðsins, voru frá upphafi til enda langur og bitlítill ómálefnalegur óhróður um forsætisráðherrann.

Sjónvarpsrásir NorðurljósaEins og ég hef áður vikið að hér á vefnum hefur Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs, sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum, en það hafði legið í loftinu í rúmt ár að svo myndi fara, og voru engin stórtíðindi fyrir þá sem hafa fylgst með framgöngu Hreins almennt að undanförnu. Athyglisvert var að sjá viðtal fréttamanns Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi við Hrein. Var með hreinum ólíkindum hvernig Hreinn talaði þar af algjörri vanstillingu og virkaði hann á mig í þessu viðtali eins og hann væri að brenna yfir um af heift og illsku í garð þeirra sem treystu honum fyrir formennsku í einkavæðingarnefnd alltof lengi. Hátt er fallið fyrir húsbóndann var eitt sinn sagt um manninn þegar hann féll af hestbaki, sama gæti átt við um Hrein Loftsson, sem kallar lýðræðislega kjörna ríkisstjórn landsins, ógnarstjórn og kallar forystumenn hennar einræðisherra. Er það undarlegt í ljósi þess að sitjandi forsætisráðherra samdi sjálfur um það fyrir tæpu ári að láta af embætti í haust og annaðhvort muni þá setjast í óbreytt ráðuneyti eða hætta í stjórnmálum. Meira að segja svarnir óvinir Davíðs hafa kallað það vindskot Hreins, skot út í loftið. Það sjá allir einstaklingar sem eitthvað fylgjast með að stjórnarformaður Baugs er orðinn ofurseldur eiganda fyrirtækisins og reynir að fylgja honum í blíðu og stríðu. Öll hans ummæli verða að skoðast í því ljósi.

Nelson Mandela og Thabo MbekiThabo Mbeki sór í morgun embættiseið sem forseti S-Afríku öðru sinni. Hann var endurkjörinn forseti landsins í kosningunum fyrir hálfum mánuði. Hlutu hann og Afríska þjóðarráðið, flokkur blökkumanna, meira en 2/3 atkvæða í bæði forseta- og þingkosningum. Tíu ár eru liðin um þessar mundir frá því að aðskilnaðarstefnan leið endanlega undir lok og blökkumenn fengu kosningarétt og fengu jöfn réttindi á við hvíta. Var Nelson Mandela kjörinn forseti S-Afríku í kosningunum 1994 og ANC hlaut þá um 65% atkvæða í þingkosningum. Mandela lét af embætti að loknu fimm ára kjörtímabili sínu árið 1999 og Mbeki var kjörinn eftirmaður hans sem leiðtogi flokksins og forseti landsins. Stjórn landsins stendur nú á vissum tímamótum, en margt gott hefur áunnist í takt við sívaxandi vandamál á öðrum sviðum: glæpir eru algengir þar, einn af hverjum níu landsmönnum er alnæmissmitaður, atvinnuleysi er nálægt 30% og misskipting auðs fer þar sívaxandi. Ávinningur felst í stöðugleika í efnahagslífi og minnkandi verðbólgu.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu heldur Jón Elvar Guðmundsson áfram skrifum í pistlaröð sinni, sem ber yfirskriftina 'Stjórnvöld gegn löggjafanum'. Orðrétt segir: "Lög um hlutafélög og einkahlutafélög á Íslandi er um margt mjög góð. Þannig eru þau nokkuð þjál og aðgengileg. Skráningarferli slíkra félaga hefur svo verið til sérstakrar fyrirmyndar og má þakka það starfsfólki hlutafélagaskrár sem áður heyrði undir hagstofu Íslands en hefur nýlega verði færð undir embætti ríkisskattstjóra af óljósum ástæðum. Framfaraspor var stigið í fyrra þegar lög nr. 52/2003 voru samþykkt á Alþingi. Í 8. gr. þeirra laga var kveðið á um heimild til þess að slíta einkahlutafélagi á einfaldan og fljótlegan hátt. Segja má að þar með hafi verið komið til móts við þarfir atvinnulífsins þar sem hlutirnir ganga hratt fyrir sig og taka örum breytingum. Sérstaklega er þessi breyting hagstæð fyrir erlenda aðila sem starfa hér á landi þar sem þeir geta, samkvæmt henni, hætt starfsemi hér og slitið félögum sínum á einfaldan og fljótlegan hátt. Þetta er eitt af því sem laðar að erlenda starfsemi, þ.e. rekstraraðilar vilja starfa í hagstæðu umhverfi og auðvitað verða þeir að geta hætt rekstri sínum án mikils tilkostnaðar í peningum eða tíma."

Íslenski draumurinnSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Var þétt og gott sjónvarpskvöld á mínu heimili í gærkvöldi. Horfði á báða fréttatímana (þar sem fréttaumfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið var mest áberandi) og á eftir því leit ég á Kastljósið þar sem Andrés Magnússon og Bjarni Harðarson voru gestir. Var þar sýnt í heilu lagi hið ótrúlega viðtal við Hrein Loftsson, sem fyrr er lýst betur. Horfði svo á upptöku af Íslandi í dag, en þar mættust Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, var þar gott spjall um frumvarpið og fjölmiðlaskýrsluna. Horfði því næst á vandaðan heimildarþátt um Gro Harlem Brundtland fyrrum forsætisráðherra Noregs og framkvæmdastjóra World Health Organization. Merk kona sem á að baki langan feril á vettvangi stjórnmálanna og hefur markað sess bæði þar og í störfum sínum hjá WHO. Eftir tíufréttirnar horfðum við á hina mögnuðu kvikmynd, Íslenska drauminn. Fjallar um draumóramanninn Tóta og ævintýri hans. Góð mynd með frábærum leikurum. Þórhallur Sverrisson fer á kostum í hlutverki Tóta, og svo eru Jón Gnarr og Gunnar Eyjólfsson flottir í sínum hlutverkum. Tónlistin í myndinni er algjör snilld. Ekta íslensk mynd!

Dagurinn í dag
1915 Gullfoss varð fyrst íslenskra skipa til að sigla til Ameríku, með íslenskum skipstjóra og íslenskri skipshöfn, allt frá dögum landafunda Leifs heppna Eiríkssonar í Bandaríkjunum
1944 Hátíðarljóð lýðveldisstofnunar valin - Hver á sér fegra föðurland og Land míns föður
1984 Umsátri við líbýska sendiráðið í London lýkur - 11 dögum eftir morðið á Yvonne Fletcher
1992 Betty Boothroyd kjörin forseti breska þingsins, fyrst kvenna í 700 ára sögu þess
1994 Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í S-Afríku - ANC og Nelson Mandela unnu stórsigur

Snjallyrði dagsins
Stærsti aðilinn að þessum fjölmiðlum (Norðurljós) lýsti því einhvers staðar yfir að hann hefði borgað þrjár milljónir í stjórnmálaflokka, og svo tók ég eftir því að Össur Skarphéðinsson, sagðist ekki hafa fengið krónu. Það verður nú gaman að vita hver hefur fengið peningana.
Davíð Oddsson forsætisráðherra