Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 maí 2004

Myers og Rumsfeld sverja eiðHeitast í umræðunni
Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kom í gær fyrir hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, ásamt Richard Myers yfirmanni bandaríska herráðsins. Í yfirheyrslunni, sem stóð í sex tíma, mun lengur en upphaflega var áætlað, baðst Rumsfeld, innilegrar afsökunar á illri meðferð bandarískra hermanna á íröskum föngum og pyntingum sem átt hafa sér stað þar. Varaði ráðherrann, þingmenn við því að það versta í sambandi við pyntingarnar ætti enn eftir að koma opinberlega í ljós. Fram hefur komið að einn þeirra sem situr í varðhaldi vegna málsins hafi sagt við yfirheyrslur að leyniþjónusta hersins hefði skipað herlögreglumönnum að gera föngunum lífið leitt til að auðveldara yrði að yfirheyra þá. Þingmenn demókrata réðust harkalega að ráðherranum í yfirheyrslunum, sérstaklega Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts. Staða Rumsfelds er um margt mjög óljós. Engan veginn er víst að hann standi þetta mál af sér. Hann hefði átt að vera búinn að benda fyrr á þetta mál og biðjast afsökunar mun fyrr, enda orðin rúm vika frá opinberri birtingu fyrstu myndanna. Er framganga hans í málinu mjög ámælisverð. Afsökunarbeiðnin sem er sjálfsögð, kemur að mínu mati fullseint.

Vinir (Friends)Einn vinsælasti sjónvarpsþáttur seinasta áratugar, Vinir (Friends) leið undir lok í vikunni er lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Rúmlega 50 milljón manns horfðu á lokaþáttinn. Þættirnir um Vini hafa notið gífurlegra vinsælda frá því að fyrsti þátturinn var sendur út þann 22. september 1994. Þættirnir hafa á þessum áratug verið sýndir í um 100 löndum. Aðalleikarar þáttanna: Courtney Cox Arquette, Matthew Perry, Jennifer Aniston, David Schwimmer, Lisa Kudrow og Matt Le Blanc (sem voru öll nær óþekkt við upphaf sýninga þáttanna), fengu við lok framleiðslu þeirra, alls eina milljón dollara, um 73 milljónir íslenskra króna, fyrir hvern þátt. Mikil leynd ríkti yfir sögulokum þáttarins og t.d. voru mörg atriði lokaþáttarins tekin upp leynilega án áhorfenda í upptökusal og leikendur og aðrir sem unnu að gerð þáttanna voru látnir sverja þagnareið. Hef ég fylgst með þáttunum um Vini allt frá byrjun fyrir 10 árum og haft mjög gaman að þeim. Sýningar á tíundu og síðustu þáttaröðinni eru langt komnar hérlendis og stutt í að lokaþátturinn verði á dagskrá Stöðvar 2. Hægt verður um langa hríð að ylja sér við hinar góðu minningar um Vinina á DVD.

TogariGreinaskrif
Í athyglisverðum pistli á vefnum 200 mílur er fjallað um Nýja-Sjáland og stöðu mála þar í sjávarútvegi. Orðrétt segir í pistlinum: "Sjávarútvegur nýtur ríkisstyrkja víða um heim, sem hvetur til ofveiði, skekkir samkeppni á mörkuðum og verð til neytenda. Fyrir skömmu lögðu Nýsjálendingar fram tillögu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um algjört bann við ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Þeir nutu til þess stuðnings meðal annars frá Íslandi, Bandaríkjunum, Noregi, Chile og Perú. Hugmynd Nýsjálendinga er sú að bann við ríkisstyrkjum verði meginreglan, en á vettvangi WTO verði unnt að semja um undanþágur sem smám saman verði síðan undið ofan af. Ekki þurfti að koma á óvart að fjöldi ríkja mótmælti tillögunni harðlega. Fram kom í umfjöllun um tillöguna að ríkisstyrkir til sjávarútvegs í heiminum væru um 20 milljarðar dollara (um 1400 milljarðar íslenskra króna). Viðbrögð Evrópusambandsins, sem er stærsti markaður Íslendinga með sjávarafurðir, voru sérstaklega athyglisverð. Fulltrúar sambandsins sögðu tillögurnar grimmilegar og koma í veg fyrir ríkisstyrki til fátækari aðildarríkja þess. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins eru ríkisstyrkir í atvinnurekstri almennt bannaðir. Í gegnum tíðina hefur Evrópusambandið hins vegar ekki litið á sjávarútveg sem alvöru atvinnugrein, heldur sem félagslegt og menningarlegt fyrirbæri. Viðbrögð þeirra við tillögum Nýsjálendinga eru til marks um viðhorfið." Hvet alla til að lesa allan pistilinn.

Ocean's ElevenSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir kvöldfréttirnar horfði ég á upptöku af Íslandi í dag. Reyni alltaf að sjá vikulegt spjall þeirra Ingva Hrafns og Stefáns Jóns. Fara þeir yfir fréttavikuna með ítarlegum hætti og óhræddir við að tjá skoðanir sínar. Horfði á Vini því næst. Alltaf gaman að þessum þáttum, en eins og fyrr er vikið að, styttist nú óðum í sögulokin hjá þeim. Horfði á Idolið því næst. George Huff datt út að þessu sinni. Var erfitt að velja á milli þessara fimm sem eftir voru, fannst þau öll standa sig með miklum ágætum. Sjónarsviptir af Huff, enda hress og fínn strákur sem lífgaði upp keppnina. Nú eru bara stelpurnar fjórar eftir og allar eru þær það hæfileikaríkar að eiga séns á sigrinum þetta árið. Eftir þáttinn horfðum við á hina mögnuðu Ocean's Eleven. Segir af fyrrum fanganum, Danny Ocean sem vill framkvæma hið fullkomna rán, ræna þrjú spilavíti í Las Vegas á sama kvöldinu. Til þess að takast ætlunarverk sitt safnar hann að sér fullkomnum hópi aðstoðarmanna og leggur í verkið. Frábær stjörnumprýdd mynd með George Clooney, Brad Pitt, Matt Damon, Andy Garcia og Juliu Roberts. Eftir hana var litið á netið, tók fyrir gestabókina mína á netinu og breytti þar aðgengi að henni, vegna tilvika sem flestum eru kunn. Hér eftir birtist þar ekkert nema ég samþykki þau skrif áður. Þetta var nauðsynlegt að gera eftir það sem á undan gekk, einfalt mál. Eftir að hafa stokkað upp gestabókina tók ég nettan og góðan vefrúnt yfir það helsta. Snorri minn góði félagi og vinur, hefur nú opnað fínan bloggvef. Hvet alla til að líta á skrifin hans.

Dagurinn í dag
1860 Kötlugos hófst - næst gaus 58 árum síðar, árið 1918. Ekki gosið frá þeim tíma
1894 Eimskipið Á. Ásgeirsson kom til landsins - fyrsta vélknúna skip í eigu Íslendinga
1945 Sex ára langri heimsstyrjöld lýkur - friði fagnað um allan heim með alheimsfriðardegi
1978 David Berkowitz játar að hafa myrt sex manns í New York sumarið 1977 - meðan hann lék lausum hala gekk hann undir nafninu Son of Sam. Var síðar dæmdur í sexfalt lífstíðarfangelsi
1984 Sovétríkin tilkynnir að það muni ekki taka þátt í Ólympíuleikum 1984 í Bandaríkjunum

Snjallyrði dagsins
Það er kraftaverki líkast að forvitnin skuli lifa af skólaskylduna.
Albert Einstein