Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 maí 2004

SjálfstæðisflokkurinnHeitast í umræðunni
Sjálfstæðisflokkurinn fagnaði í gær 75 ára afmæli sínu við hátíðlega athöfn í Hótel Nordica. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti við það tilefni ítarlega hátíðarræðu. Þar sagði hann m.a. að keppikefli flokksins væri frelsi allra en ekki ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka sem notuðu afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum. Fram kom í máli hans að framtíð þjóðarinnar væri björt og útlit væri fyrir góðæri að minnsta kosti til ársins 2010 ef vel væri haldið á. Sagði Davíð að sjálfstæðismenn vildu að þess yrði minnst sem góðæris sem gekk til allra en ekki fárra. Hann sagði að Ísland væri komið í allra fremstu röð en verkinu lyki aldrei. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ætíð sagt og myndi ætíð segja, að í hans stefnu væri frelsið ætíð í fyrirrúmi. Fram kom í ræðu Davíðs að það væri sjálfstætt markmið í sjálfu sér að gera hvern mann sjálfstæðan með trú á framtíðina svo hann geti fengið að njóta alls þess sem aðrir þeir, sem betur mættu sín, nytu. Orðrétt sagði Davíð: "Ef Sjálfstæðisflokkurinn tryði ekki þessu, um leið og hann trúir á frelsið og kraft einstaklinganna, þá væri hann ekki samur flokkur, þá væri hann ekki fjöldaflokkur, þá væri hann ekki flokkur sem fólkið í þessu herbergi styður". Er ástæða til að taka undir þau orð.

Ítarlegt viðtal við Davíð Oddsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins

BessastaðirForseti Íslands mun á næstu dögum fá í hendur lög um eignarhald á fjölmiðlum, sem þingið samþykkti í byrjun vikunnar. Í kjölfar þess mun koma í ljós hvort hann staðfestir þau eða synjar þeim um samþykki. Það hefur aldrei gerst í 60 ára sögu lýðveldisins að forseti gangi gegn vilja meirihluta þingsins, og myndi sú staða ef upp kæmi leiða til stjórnlagakreppu án fyrirsjáanlegra endaloka. Rúm 30.000 manns hafa nú skorað á forsetann að neita að skrifa undir lögin. Var þeim fjölda safnað í skriflegri söfnun og ennfremur á netinu, mikill meirihluti undirskriftanna kom til með síðarnefnda hættinum. Enginn vafi leikur á að slíkt fyrirkomulag er mjög umdeilt og vart við því að búast eftir stórundarlega framgöngu formanns Blaðamannafélags Íslands, að mark sé tekið á lista þar sem hver sem er getur skráð nöfn annars fólks. Formaðurinn hvatti alla til að reyna að fá sem flesta til að skrifa undir og jafnvel reyna að fá þá sem væru hlynntir til að gera það líka, semsagt beita öllum brögðum. Liggur við að blaðamenn sem svo koma fram missi allan trúverðugleika sinn sem von er, bendi ég á líflega umræðu blaðamanna á vef þeirra, þar sem tekist er á um þetta mál. Eftir stendur að forseti á að skrifa undir lögin og allar tiktúrur í þá átt að fara af þeirri braut sem mörkuð hefur verið mun leiða til harðvítugra pólitískra átaka sem forsetinn færi ósjálfrátt í sem þátttakandi. Reyndar hefur forsætisráðherra í ítarlegu viðtali við RÚV gefið sterklega í skyn að neitun forseta muni leiða til langra deilna, semsagt stjórnlagakreppu sem við höfum aldrei kynnst áður.

DalvíkTilkynnt var um það í gær að starfsfólki hjá kjúklingabúinu Íslandsfugli í Dalvíkurbyggð, alls um 30 manns, verði sagt upp störfum frá og með mánaðarmótum. Sundagarðar hf., sem eiga kjúklingafyrirtækið Matfugl hafa nú keypt allt hlutafé í Marvali ehf. sem rekur kjúklingabú Íslandsfugls og stefnir að breytingum á rekstrinum á Dalvík. Ár er liðið frá því Marval tók við rekstrinum af þrotabúi fyrirtækisins, en reksturinn hafði gengið brösuglega allt frá upphafi. Þessar breytingar hafa slæm áhrif á staðinn og þá sem þarna vinna, allt frá upphafi hefur mikil óvissa verið um reksturinn og endalausar breytingar á honum og eigendaskipti hafa haft slæm áhrif. Tek ég undir með Valdimar Bragasyni bæjarstjóra í Dalvíkurbyggð, að slæmt er að þessi rekstur hafi ekki gengið upp, enda voru miklar væntingar uppi um hann í upphafi þessarar tilraunar. Vona ég að áhrif þessa verði ekki eins slæm fyrir staðinn og nú lítur út fyrir.

María Margrét JóhannesdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsi.is fjallar Mæja um réttindi fólks almennt. Orðrétt segir: "Það virðist ekki skipta máli hvað rætt er um hverju sinni, í öllum málaflokkum er sífellt talað um rétt fólks til eins eða annars - til dæmis er því haldið fram að það sé réttur fólks að fá námið sitt greitt að fullu af samborgurum sínum, það sé réttur fólks að fá borgað fyrir að vera heima með nýfæddum börnum sínum í marga mánuði og það sé jafnvel réttur fólks að vera ráðið í starf fyrir það eitt að vera af réttu kyni. Umræðan er komin á villigötur því það þykir sjálfsagt að öðlast rétt á kostnað annarra. Slík umræða getur ekki verið af hinu góða. Réttindi eru óháð staðbundnum kringumstæðum, svo sem samfélagsgerð eða efnahag. Ayn Rand nefnir í bók sinni The Virtue of Selfishness: A New Concept of Egoism að það sé aðeins einn grundvallarréttur og það sé rétturinn til lífs. Rétturinn til lífs felur í sér athafnafrelsi, þ.e. frelsi til að þurfa ekki að sæta kúgun annarra. Einstaklingar hafa frelsi til að velja sér markmið og reyna að ná þeim fram og hegða sér í samræmi við eigin dómgreind. Réttur einstaklingsins hvílir þó ekki á herðum náungans nema að því leyti að menn verða að halda sér frá því að traðka á réttindum annarra. Réttur eins getur ekki brotið í bága við rétt annars." Bendi ennfremur á góðan pistil Kidda um hagvaxtarspána, sem birtist í gær. Hvet alla til að lesa þessa ítarlegu pistla.

Vef-ÞjóðviljinnPistlaskrif
Það er mjög freistandi að benda fólki enn einu sinni á skrif á Vef-Þjóðviljanum. Að mínu mati ber sú síða af öllum öðrum sem eru með dagleg skrif um þjóðmál, enda greinahöfundar þar með ferska sýn á þjóðmálin og málefni samtímans. Í dag er fjallað um skýrslu sem fréttastofa Stöðvar 2 pantaði vegna fréttaumfjöllunar um fjölmiðlafrumvarpið. Orðrétt segir: "En þegar skýrslan er lesin, í stað þess að líta aðeins á niðurstöðukaflann, má sjá að þessi samantekt höfundar skýrslunnar er hæpin í meira lagi og gefur alls ekki rétta mynd af þeim gögnum sem skýrslan hefur að geyma um umfjöllun fréttastofanna tveggja. Sem dæmi má nefna að í skýrslunni er sagt frá því hversu mikil umfjöllun fréttastofanna tveggja um fjölmiðlafrumvarpið hafi verið. Þar kemur fram að fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um frumvarpið 37 sinnum á tímabilinu sem rannsóknin náði til, 20. apríl til 7. maí, en fréttastofa Ríkissjónvarpsins aðeins 25 sinnum í aðalfréttatímanum og að auki 6 sinnum í seinni fréttatíma. Ef miðað er við þann fréttatíma sem langmest er horft á fjallaði Stöð 2 þess vegna nær 50% oftar um frumvarpið en Ríkissjónvarpið. Og jafnvel þótt seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins sé bætt við fjallaði Stöð 2 nær 20% oftar um frumvarpið." Grein, sem mælt er með að allir lesi.

Dagurinn í dag
1056 Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, var vígður biskup að Skálholti
1845 Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur, deyr í Kaupmannahöfn, 37 ára að aldri
1968 Hægri umferð tekin upp á Íslandi - vinstri umferð hafði áður verið í tæpa sex áratugi
1983 Fyrsta ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 1987
2002 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist eftir kosningasigur R-lista ekki stefna á þingframboð í kosningunum 2003 - ákvað þó þingframboð síðar sama ár og varð að segja af sér í kjölfarið

Snjallyrði dagsins
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)

Að lokum skal bent á að allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa orðið forsætisráðherrar, ekki bara 6 af 7 eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Fyrsti formaður flokksins, Jón Þorláksson, var forsætisráðherra, 1926-1927, en það var vissulega í tíð Íhaldsflokksins. En allir formenn flokksins hafa orðið forsætisráðherrar.