Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 október 2004

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Einungis 11 dagar eru þar til bandarískir kjósendur verða að gera upp á milli þeirra George W. Bush og John Kerry. Í ræðum sínum í baráttufylkjunum í gær voru forsetaefnin að mestu leyti að fókusera sig á heilbrigðismál, og skiptust á skotum um málefni heilbrigðiskerfisins og hvað varðar stofnfrumurannsóknir, sem hafa mikið verið rædd í kosningabaráttunni. Í gær fór Kerry á veiðar í Ohio, til að reyna að auka fylgi sitt þar, einkum meðal veiðimanna og þeirra kjósenda sem eru íhaldssamir í félagsmálum. Forsetinn gerði grín að keppinaut sínum í kosningaræðu í Hershey í Pennsylvaníu. Orðrétt sagði hann: "He can run - he can even run in camouflage - but he cannot hide". Jafnframt fór hann þar yfir stefnu sína í heilbrigðismálum, á sömu stund var Kerry í ræðu í Columbus í Ohio að tjá sig um stefnu sína í sama málaflokki, einkum hvað varðar stofnfrumurannsóknir og lagði áherslu á að hann styddi heilshugar að þróa rannsóknir í þá átt. Var hann kynntur á fundinum af Dönu Reeve, ekkju leikarans Christopher Reeve, sem lést nýlega. Nú á lokasprettinum beinast sjónir allra að 8 fylkjum þar sem frambjóðendurnir eru annaðhvort jafnir eða munur milli þeirra mælist innan skekkjumarka. Ef kosningarnar verða eins jafnar og allt stefnir í á þessari stundu munu úrslitin í þessum fylkjum ráða úrslitum um það hvor þeirra verður forseti næstu fjögur árin. Frambjóðendurnir taka enga sénsa, þeir ferðast um þessi fylki og leitast eftir því að kynna sig og stefnu þeirra fyrir óákveðnum kjósendum þar. Kerry fókuserar í dag á kvennaatkvæðin en Bush á að draga fram andstæðurnar milli sín og keppinautarins hvað varðar varnarmál. Hvert atkvæði getur skipt máli ef jafn naumt verður á mununum í kosningunum og var í forsetakosningunum 2000. Forsetinn verður áfram í Pennsylvaniu framan af degi en mun síðar halda til baráttufylkjanna Ohio og Flórída. Á meðan verður Kerry á ferðalagi um Nevada og Colorado, en í báðum fylkjunum vann forsetinn sigur fyrir fjórum árum og forsetinn er með öruggt forskot þar núna, en Kerry þarf á sigri í þessum fylkjum að halda núna. Báðir verða þeir í lykilfylkinu Flórída um helgina. Kerry verður þar með fund með Al Gore, forsetaefni demókrata árið 2000, og Bush forseti, verður með fund með bróður sínum, Jeb Bush, sem er ríkisstjóri í fylkinu. Öflugur kosningaslagur heldur áfram af enn meiri krafti en fyrr.

KennslaUppúr slitnaði með samningsaðilum í launadeilu grunnskólakennara seinnipartinn í gær. Verkfall grunnskólakennara hefur nú staðið í tæpar fimm vikur, allt frá 20. september sl. Verður ekki boðað til nýs samningafundar fyrr en fimmtudaginn 4. nóvember, nema deiluaðilar ákveði annað. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari, lagði í gær fram málamiðlunartillögu í málinu. Skilaði hún ekki árangri og varð ekki til þess að menn tóku upp umræðu um efni hennar og unnu útfrá henni. Eru því að mati sáttasemjara ekki forsendur fyrir áframhaldandi viðræðum á þeim grunni eða neinum öðrum grunni því engar tillögur séu uppi í stöðunni. Er því ljóst að óbrúanlegt er á milli aðila og engin forsenda fyrir því að hafa samningafundi milli deiluaðila, meðan svona stendur á. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, tilkynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun að hann hefði boðað forystumenn launanefndar sveitarfélaga og kennara á sinn fund eftir helgina til viðræðna um málin. Þar ætlar hann að krefjast skýringa á því hversvegna slitnaði upp úr samningaviðræðunum. Jafnframt hefur forsætisráðherra tekið fram að ríkið muni ekki koma að deilunni, hvorki hvað varðar fjármagn né með tillögur beint. Tek ég undir með honum að viðræðuslitin séu mikil vonbrigði, enda var talið jafnvel að samningur væri að fæðast í Karphúsinu. Spurning er hversu langt verkfallið getur orðið áður en til tals kemur að setja lög á það. Ég hef ekki til þessa verið talsmaður þess að setja lög á verkföll, en skoða verður þann möguleika eins og aðra að ríkið höggvi á hnútinn með slíkri ákvörðun. Það mun þó enga vanda leysa vissulega. Hitt er svo annað mál að ekki er hægt að bjóða nemendum lengur upp á að menn talist ekki við og ekkert gerist í deilunni. Að mínu mati er þó ljóst að sveitarfélögin hafa teygt sig eins langt eftir lausn og mögulegt er í stöðunni. Hvert framhaldið verður, mun svo ráðast.

Holtasóley kosið þjóðarblóm Íslands
Rannsóknar- og nýsköpunarhús Háskólans á Akureyri tekið í notkun

AkureyriKönnun um stóriðju í Eyjafirði
Í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar kemur fram að 62,6% íbúa á Akureyri og nágrenni eru mjög hlynnt uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði. Samkvæmt könnuninni eru 26,3% andvíg stóriðju en 11,1% taka ekki beina afstöðu til málsins. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar eingöngu fyrir Akureyri er hlutfall þeirra sem eru fylgjandi stóriðju talsvert hærra, er þá orðið 66,1% en andvígum fækkar mjög, eða í 23,5% á meðan fjöldi þeirra sem taka ekki beina afstöðu helst nokkuð svipaður. Ef aðeins eru taldir með þeir sem taka afstöðu til málsins eru tæp 74% Akureyringa hlynnt uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði en rúm 26% eru á móti því að stóriðja komi í fjörðinn. Þessi niðurstaða er mjög afdráttarlaus, hvort sem litið er með á afstöðu í firðinum almennt, eða bara þeirra sem búa hér í bænum. Fagna ég þessari niðurstöðu, enda hef ég ávallt verið mikill talsmaður stóriðju í Eyjafirði. Enginn vafi leikur á því að næsta álver verður reist á Norðurlandi, gert hefur verið ráð fyrir því til fjölda ára og enginn hefur reynt að bera á móti því að svo sé, gert er ráð fyrir slíku t.d. í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Alla tíð hefur verið gert ráð fyrir að það álver yrði reist í Eyjafirði, eins og fyrrnefnd byggðaáætlun gerir augljóslega ráð fyrir að verði. Í mínum huga kemur ekki til greina að álver á Norðurlandi verði annarsstaðar en þar sem gert hefur ráð fyrir því að það verði, við Dysnes í Eyjafirði. Að því skal unnið, að því eiga sveitarstjórnarmenn í Eyjafirði að berjast fyrir.

Dagurinn í dag
1253 Flugumýrarbrenna - Sturlungar brenndu bæinn að Flugumýri í Skagafirði. Í brennunni fórust 25 manns. Gissur jarl Þorvaldsson komst naumlega undan í brennunni, með því að leynast í sýrukeri
1953 Smáríkið Laos fær fullt sjálfstæði frá Frakklandi - var undir stjórn Frakka allt frá árinu 1893
1957 Fyrstu hermenn Bandaríkjanna felldir í átökum í Víetnam - Víetnamsstríðið stóð allt til 1975
1962 Kúbudeilan hefst - bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu (sem var hertekin af kommúnistanum Fidel Castro árið 1959). John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, ávarpar þjóðina og tilkynnir um ástand mála. Heimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar milli stórveldanna í 13 daga - Sovétmenn létu loks undan og hörfuðu frá Kúbu til að forða deilum. Sú ákvörðun Nikita Khrushchev leiddi svo til þess að honum var steypt af stóli í Sovétríkjunum 1964
1964 Jean-Paul Sartre hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels - Sartre afþakkaði formlega verðlaunin

Snjallyrði dagsins
I usually make up my mind about a man in ten seconds; and I very rarely change it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands