Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 október 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, mun í kvöld flytja stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar, í fyrsta skipti. Mun hann þar fjalla um þau verkefni sem framundan eru á vegum ríkisstjórnarinnar, áhersluatriði hennar á þingvetrinum. Í framhaldinu fara fram umræður um ræðuna og stjórnmálaástandið almennt. Í þeirri umræðu mun t.d. Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flytja ræðu, en þetta er í fyrsta skipti í 13 ár sem hann tekur ekki þátt í umræðunum sem forsætisráðherra, en hann flutti samtals 17 stefnuræður á 13 ára forsætisráðherraferli sínum. Í dag birtir DV brot úr stefnuræðu forsætisráðherra sem flytja á í kvöld. Annað árið í röð er trúnaður brotinn á efni stefnuræðunnar og um hana fjallað í fjölmiðlum fyrirfram. Stefnuræðan er afhent þingmönnum þrem dögum fyrir flutning hennar á þingi, sem trúnaðarmál. Í fyrra fjallaði Stöð 2 um ræðu Davíðs. Sagði hann þá að það væri nauðsynlegt að breyta þingsköpum til að taka á svona leka. Halldór Blöndal forseti Alþingis, sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir: "Ég tók þetta mál fyrir með formönnum þingflokka í fyrra. Mér er óhætt að segja að formenn allra þingflokka brýndu það fyrir sínum þingmönnum að slíkt mætti ekki endurtaka sig. Ef hins vegar ekki er hægt að halda trúnaði er eins gott fyrir forsætisráðherra að halda blaðamannafund og kynna stefnuræðuna áður en hann fer með hana inn á Alþingi. Það yrði auðvitað óþolandi fyrir stjórnarandstöðuna að búa við slíkt." Er óhætt að taka undir þetta, með ólíkindum er að þingmaður sem vill láta taka sig alvarlega leki trúnaðargögnum með þessum hætti. Er mikilvægt að afhjúpa þann sem þetta gerði svo það megi verða honum og öllum öðrum þingmönnum framtíðarinnar að sannri lexíu.

Kerry fer í vasa sinnSkv. nýjustu skoðanakönnunum í Bandaríkjunum hefur John Kerry saxað á forskot George W. Bush, eftir frammistöðu sína í kappræðunum á fimmtudagskvöld. Deilt er um það í dag hvort Kerry hafi unnið heiðarlega á bakvið tjöldin í kappræðunum, enda hafa í dag birst myndir og upptökur sem sannar án nokkurs vafa að Kerry þreifar í vasa sinn fyrir upphaf kappræðnanna og nær í einhvern hlut þangað, blöð eða einhverja aðra hluti. Það þýðir lítið fyrir talsmenn Kerrys að reyna að beina umræðunni í aðrar áttir með því að gefa í skyn að umræða um þetta hefjist á þeim forsendum að ráðast að Kerry. Það er erfitt að trúa því að nokkur frambjóðandi sé svo skyni skroppinn að brjóta vísvitandi reglur kappræðnanna sem hann samþykkti sjálfur. Það er erfitt að skilja afhverju frambjóðandi brjóti með þessum hætti þau skilyrði sem samþykkt voru af báðum framboðum og hvaða tilgangi það þjóni. Í reglum um kappræðurnar segir: "No props, notes, charts, diagrams, or other writings or other tangible things may be brought into the debate by either candidate.... Each candidate must submit to the staff of the Commission prior to the debate all such paper and any pens or pencils with which a candidate may wish to take notes during the debate, and the staff or commission will place such paper, pens and pencils on the podium". Það er því von að spurt sé hvað hafi verið í vasanum. Afhverju segir frambjóðandinn ekki bara hvað hann var að þreifa eftir í vasanum. Það er afskaplega mikilvægt að það liggi fyrir, með hliðsjón af þeim reglum sem hann samþykkti sjálfur. Það er auðvitað svosem erfitt að viðurkenna eitthvað ef maður hefur rangt við.

Fyrstu kappræður George W. Bush og John Kerry

Stefán Friðrik StefánssonMálsvörn þingforseta
Í pistli mínum á frelsi.is fjalla ég um ræðu forseta þingsins á föstudag og umfjöllun um hana. Þar kemur t.d. eftirfarandi fram: "Enginn vafi leikur á því að mikið átakasumar er að baki í íslenskum þjóðmálum. Hart var tekist á um þjóðmál í sumarblíðunni, óvenjuharkalega miðað við fyrri ár. Segja má að þau átök séu undir niðri enn til staðar og gleymast ekki. Nú þegar rykið hefur fallið eftir þau miklu átök sem urðu á pólitískum vettvangi og í samfélaginu um hlutverk forsetaembættisins og stöðu stjórnarskrárþátta tengdu embættinu, blasir við að landslagið hefur breyst. Ekkert er samt. Það er ljóst að aðför Ólafs Ragnars Grímssonar að þinginu, með því að synja fjölmiðlalögum staðfestingar, og rjúfa þar með 60 ára gamla hefð, mun leiða til uppstokkunar á stjórnarskrárþáttum tengdum forsetaembættinu. Blasti við að þó ríkisstjórnin hafi ákveðið að beina fjölmiðlamálinu í annan farveg að forsetaembættið stendur gjörbreytt eftir. Það er langt í frá hægt að ætlast til eða biðja um að forseta landsins sé hampað sem einhverju því sameiningartákni sem hann hefur verið hin seinustu ár og áratugi: fulltrúa allra landsmanna á tignarstundum. Landslagið sem blasir við forsetaembættinu er breytt, ásýnd embættisins er breytt. Skoðanir manna á þeim sem gegndi embættinu í sumar og sveigði eðli þess og hlutverk af leið eru ólíkar og hann er umdeildur. Á þessu leikur enginn vafi, þetta liggur allt vel ljóst fyrir. Taflið hefur snúist við. Forseti Íslands er ekki lengur óumdeilt friðartákn á sínum stóli."

Dagurinn í dag
1908 Þórhallur Bjarnarson var vígður biskup yfir Íslandi - hann sat á þeim stól til dauðadags, 1916
1925 Lesbók Morgunblaðsins kom út í fyrsta skipti - hefur verið hluti af Mogganum alla tíð síðan
1957 Fyrsta geimfari sögunnar Sputnik, var skotið út í geiminn - um borð var hundurinn Laika
1970 Söngkonan Janis Joplin lést í Los Angeles, 27 ára gömul. Varð heimsfræg vegna sérstakrar raddsetningar sinnar og markaði mikil þáttaskil í tónlistarsögu 20. aldarinnar með söngstíl sínum
1984 Verkfall BSRB hófst - það hafði mikil áhrif, t.d. lá skólahald niðri, strætisvagnar gengu ekki, útsendingar ríkisfjölmiðlanna lágu niðri, svo fátt eitt sé nefnt. Verkfallið stóð allt til 30. október

Snjallyrði dagsins
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra
Við hin sem lifum lifum í trú
á að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni

Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða
þú vekur hann með sól að morgni.
Bubbi Morthens (Kveðja)