Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 desember 2004

Saddam Hussein við handtöku sína í desember 2003Heitast í umræðunni
Ár er nú liðið frá því að Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, var handsamaður í Írak, en hann hafði þá verið á flótta í rúmt hálft ár, eða frá því að veldi hans og Baath-flokksins féll eins og dómínó á nokkrum vikum. Hermenn hans vildu ekki fórna sér fyrir deyjandi einræðisstjórn og stjórn Saddams féll 9. apríl 2003. Við það urðu mikil þáttaskil, 24 ára alræðisstjórn eins manns lauk með táknrænum hætti. Enn táknrænni var þó 14. desember 2003, þegar formlega var tilkynnt að einræðisherrann hefði verið handsamaður kvöldið áður, eftir flótta á milli staða eins og rotta. Það voru í senn bæði miklar og ánægjulegar fréttir að heyra af handtöku Saddams fyrir réttu ári. Heimsbyggðin hafði lengi beðið eftir þessum táknrænu endalokum í málinu. Bandarískir hermenn fundu einræðisherrann fyrrverandi í holu við bændabæ, sem þakin hafði verið einangrunarplasti og teppi. Meira var veldi hans ekki orðið undir lokin.

Athygli vakti útlit Saddams, sem sýndur var í fjölmiðlum við læknisrannsókn eftir handtökuna. Þar voru tekin úr honum DNA sýni til að staðfesta að um hann væri að ræða. Var hann gríðarlega þreytulegur, fúlskeggjaður og allur kraftur úr honum. Minnti hann helst á gamlan mann sem sætti sig við örlög sín. Fram kom í máli Raymond Odierno hershöfðingja, að þegar skeggjaði maðurinn hafi verið dreginn upp úr holunni hafi hann verið mjög ringlaður. Næst birtist Saddam, 1. júlí sl. Þá kom hann fyrir dómara í fyrsta skipti. Var hann þar öllu vígreifari en í desember 2003, nokkuð ögrandi í framkomu sinni og sveiflaði vísifingri oft að honum til að leggja áherslu á orð sín. Sagði hann réttarhöldin vera sýndarmennsku í takt við farsa. Við réttarhöldin neitaði Saddam að viðurkenna að hafa ráðist inn í Kuwait í ágúst 1990 og spurði dómarann hvernig hann gæti sem Íraki, talað um innrás þegar vitað væri sem staðreynd að Kuwait væri að eilífu hluti af Írak. Sjónvarpsstöðvar um allan heim sýndu upptöku af þessum merka viðburði. Í 24 ár var Saddam Hussein meðhöndlaður sem Guð í Írak og hafði slíka stöðu að orð hans voru aldrei véfengd. Það hljóta að hafa verið viðbrigði fyrir slíkan mann að vera kominn í stöðu hins grunaða og þurfa loks að svara til saka fyrir þá glæpi sem hann fyrirskipaði og stóð fyrir á einræðisferli sínum. Formleg réttarhöld yfir Saddam hefjast í upphafi nýs árs. Er fyrir löngu kominn tími til að maðurinn svari til saka fyrir verk sín.

HamborgariForræðishyggja vinstrimanna er jafnan öllum kunn, eða blasir við í flestum þeirra verkum eða gjörðum. Alltaf þarf að hafa vit fyrir fólki, hvað það gerir í sínu einkalífi. Nú er svo komið að gömlu sósíalistarnir eru greinilega búnir að hertaka Samfylkinguna, enda vilja sumir þingmenn flokksins nú banna auglýsingar á óhollum matvörum í fjölmiðlum og hafa borið fram tillögu um það á Alþingi. Er þetta svo absúrd rugl, að ég þurfti að láta segja mér þetta tvisvar þegar ég heyrði af þessu á sunnudaginn. Hafði verið rætt um þetta í Sunnudagsþættinum, en það var frábært af Ólafi Teiti að taka þetta mál upp þar og fjalla um með sínum hætti. Segja má með sanni að þarna sýni Samfylkingin loks sitt eina og rétta andlit. Eins og venjulega eru boð og bönn hennar helstu ær og kýr. Þetta vissu allir, en ágætt er að fá það staðfest með svo áberandi hætti.

Er ekki hægt annað en að gera gott grín að þessu rugli þingmannanna. Vissulega má ræða matarvenjur Íslendinga, en hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál? Þetta er algjörlega út í hött og algjör tímaskekkja á okkar tímum. Ríkið á semsagt að hugsa og gera allt fyrir alla, jafnvel að hafa áhrif á matarvenjur fólks. Alveg kostulegt rugl. Frelsið er meira virði en svo að menn geti með góðu samþykkt svona forræðishyggju og vitleysu. Í tillögu forræðishyggjumannanna á þingi stendur: "Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga á matvöru sem inniheldur mikla fitu, sykur eða salt með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna. Ráðherra leitist í þessu skyni m.a. við að ná samstöðu með framleiðendum, innflytjendum og auglýsendum um að þessar vörur verði ekki auglýstar í sjónvarpi fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin." Um er að ræða allverulega frelsisskerðingu óneitanlega. Afhverju þarf Alþingi að fjalla um þetta og setja lög með þessum formerkjum? Fólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með svona lagarömmum eins og lagt er til.

Jólatréð á Ráðhústorgi 2004Jólaundirbúningur og stemmningin
10 dagar eru nú til jóla og flestir komnir í gott jólaskap, búnir að skreyta og eru að klára það sem klára þarf fyrir jólin: skrifa á kortin, kaupa gjafir handa ættingjum, baka og margt fleira sem fylgir hefðbundnum jólaundirbúningi. Ég hafði mjög gaman af að lesa gestapistil Guðrúnar Pétursdóttur forstöðumanns Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands, á vef Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, sem birtist þar fyrir nokkrum dögum. Þar skrifar Guðrún um jólin, jólahefðir og tengda þætti af stakri snilld. Hvet ég alla til að kynna sér skrif hennar. Þessi pistill fékk mig óneitanlega til að hugleiða boðskap jólanna og merkingu þeirra. Auðvitað á jólaundirbúningurinn og tengd atriði að vera vettvangur gleði og ánægju fyrir alla. Það er fátt verra til en að sökkva sér í stress og læti vegna jólanna. Nauðsynlegt er að njóta tímans og þess jákvæða sem hann færir okkur.

Í pistlinum segir Guðrún t.d.: "Allur undirbúningurinn í sínum föstu skorðum, þótt tíminn sé naumur og aðrar skyldur kalli. Allt þarf að vera gert eins og í fyrra, frá A til Ö. Piparkökurnar, ostakexið, laufabrauðið, þorláksmessuskatan, hangikjötið og marengskökurnar. Sem dæmi, og ég veit að þið hafið mörg svipaða sögu að segja, þá er ég vön að fara eftir hádegið á aðfangadag út í kirkjugarð með greinar og ljós á leiði afa og ömmu, eins og mamma gerði alltaf, og það er óhugsandi að breyta því." Tek ég heilshugar undir þetta. Á þessum tíma er mikilvægt að minnast þeirra ástvina sem hafa kvatt þessa jarðvist og helga þeim hluta af hugsunum sínum, hvort sem um er að ræða ástvini sem hafa kvatt á árinu eða á seinustu árum. Ég fer alltaf fyrir jólin í garðinn hér og hugsa um leiðin sem tengjast mér eða minni fjölskyldu. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta. Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.

Bæjarmálafundur með jólaívafi
Í gærkvöldi komum við sjálfstæðismenn á Akureyri saman í Kaupangi til að ræða dagskrá bæjarstjórnarfundar og fara yfir mikilvæg málefni, en dagskrá fundarins í dag er þéttskipuð. Á fundinum var í bland við stórpólitísk mál slegið á létta strengi. Fengum við okkur kakó, jólaöl og kökur og röbbuðum saman á ljúfu nótunum yfir þessum góðu kræsingum. Var þetta góð kvöldstund og gagnleg. Ég vil sérstaklega þakka öllum sem þarna voru staddir fyrir notaleg skoðanaskipti um bæjarmálin og ekki síður gott spjall yfir kakóinu og brauðinu. Helga Ingólfsdóttir formaður Varnar, félags sjálfstæðiskvenna í bænum, sá um kakóið af sinni alkunnu snilld. Kærar þakkir til allra fyrir góða kvöldstund!

Áhugavert efni
Um forræðishyggju Samfylkingarinnar
Hugleiðingar um skattamál - pistill Elínar Gränz
Hvað er á seyði í Úkraínu - pistill Guðrúnar Ingu Ingólfsdóttur
Hugleiðingar um íslensku áfengislöggjöfina - pistill Egils Óskarssonar
Pælingar um mannréttindaskrifstofuna - pistill Hjartar J. Guðmundssonar

Dagurinn í dag
1877 Danakonungur staðfesti fyrstu lögin um tekjuskatt hér á landi - af eignatekjum varð að greiða 4% skatt en 1-4% af atvinnutekjum. Svonefndir bjargræðisvegir voru hinsvegar alveg undanþegnir
1910 Útgáfa Vísis hófst - Vísir var áberandi á blaðamarkaðnum til sameiningar við Dagblaðið 1981
1989 Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í Chile í tæp 20 ár, haldnar. Patricio Aylwin kjörinn forseti landsins. Hann tók við embætti af Augusto Pinochet sem ríkt hafði sem einræðisherra þar allt frá valdaráninu 1973. Pinochet var hinsvegar áfram áberandi í valdakerfinu, sem leiðtogi hersins til 1997
1995 Blóðugu borgarastríði lýkur formlega í Júgóslavíu með undirritun tímamótafriðarsamnings í París, kenndan við Dayton. Leiðtogar ríkjanna: Tudjman, Milosevic og Izetbegovic, skrifuðu undir
2003 Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, handsamaður í holu við sveitabæ, skammt frá fæðingarbæ sínum, Tikrit. Hans hafði þá verið leitað í rúmt hálft ár, eftir að stjórn hans féll eftir innrás Bandamanna. Hussein bíður nú réttarhalds í Írak, þar sem hann svarar til saka fyrir glæpi sína

Snjallyrði dagsins
Sé horft út í geiminn
gegnum skýlausa nótt
sést að bilin milli stjarna
mynda stjörnur
og stjörnur bilin.
Stefán Hörður Grímsson skáld (1919-2002) (Stjörnur)