Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 desember 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um undarlegan málflutning stjórnarandstöðunnar á þingi í Íraksmálinu. Eina málið sem andstaðan virðist með góðu geta sameinast um á þingi er það hvort Ísland eigi að vera á lista yfir stuðningsaðila innrásar í Írak, fyrir tveim árum! Leita þurfti tvö ár til baka og halda út fyrir landsteinana semsagt til að finna mál sem stjórnarandstaðan gat sameinast um. Þetta er ótrúlegt afrek og er ekki nema von þó að gárungarnir á stjórnmálavettvanginum hafi gert stólpagrín af þessum miklu tímamótum að eyðimerkurflokkarnir gætu sameinast um eitthvað og hafi byrjað á málefnum Íraks sem upphafspunkti. Þó er samhljómurinn ekki meiri en svo að hann er gaddfalskur í raun. Til harðra orðaskipta kom á Alþingi í vikunni um Íraksmálið. Þátt í umræðunum tóku ráðherrar stjórnarflokkanna og forystumenn stjórnarandstöðunnar og voru umræðurnar mjög líflegar og hvassar, fjalla ég um þær umræður í pistlinum.

Svokölluð 'Þjóðarhreyfing' sem komið var á fót í fjölmiðlamálinu í sumar hefur hlotið nýtt verkefni og hefur komist í fjölmiðla að nýju. Hyggst hin sjálfskipaða hreyfing standa fyrir söfnun á fé meðal Íslendinga til að kaupa auglýsingu í The New York Times og biðjast með henni afsökunar fyrir hönd allra Íslendinga á stuðningi Íslands við innrásina í Írak í mars 2003. Fjalla ég um þetta framtak hreyfingarinnar, sem vakið hefur mikla athygli. Alþingi samþykkti í vikunni að hækka gjöld á sterkt áfengi og tóbak. Tjái ég skoðun mína á því máli og tengdum atriðum. Að lokum fjalla ég um rógsherferð DV gegn Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara, en blaðið hefur seinustu daga ráðist harkalega að honum vegna þátttöku hans í styrktartónleikum fyrir krabbameinssjúk börn. Á föstudag fór ég í verslunarmiðstöðina Glerártorg, hér á Akureyri, þar var Kristján að árita nýjasta disk sinn, Portami Via. Það er undurfallegur diskur með ljúfum og fallegum ástarsöngvum sem Kristján syngur af krafti. Var ánægjulegt að hitta söngvarann og ræða við hann um þetta mál og fleira. Hef ég aldrei þekkt Kristján nema af góðu einu, hann er skapmikill og fylginn sér en ljúfur maður. Fullyrði ég að hann hefði aldrei náð á þann tind sem hann er á sem söngvari nema hafa þessa sterku mannkosti með í farteskinu. Tjái ég skoðanir mínar á þessu máli tengdu fréttamennsku DV og kem í lokin með ljóð sem lýsir vel umfjöllun blaðsins í kjarnyrtu máli.

BækurBókmenntaverðlaun - jólabækurnar
Tilkynnt var í Kastljósinu í kvöld hvaða 10 bækur væru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þau verða afhent á Bessastöðum í janúarmánuði og eru veitt sem fyrr í tveim flokkum, í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis annarsvegar og fagurbókmennta hinsvegar. Eftirtaldar bækur hlutu tilnefningu:

Í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis
Halldór Laxness - eftir Halldór Guðmundsson
Íslendingar - eftir Sigurgeir Sigurj. og Unni Jökulsd.
Íslensk spendýr - í ritstjórn Páll Hersteinssonar
Ólöf eskimói - eftir Ingu Dóru Björnsdóttur
Saga Íslands - 6. og 7. bindi, eftir Helga Þorláksson

Í flokki fagurbókmennta (skáldsagna)
Andræði - eftir Sigfús Bjartmarsson
Bítlaávarpið - eftir Einar Már Guðmundsson
Fólkið í kjallaranum - eftir Auði Jónsdóttur
Kleifarvatn - eftir Arnald Indriðason
Öðru vísi fjölskylda - eftir Guðrúnu Helgadóttur

Allt eru þetta áhugaverðar bækur og margar þeirra eru það spennandi að þær eru vænlegar til að lesa um jólin og að fá í jólapakkann. Ánægjulegt er að sjá að Arnaldur fær loksins tilnefningu fyrir spennubækur sínar, en hann hefur verið sniðgenginn svo eftir hefur verið tekið seinustu ár. Nú er loks komið að því að hann fái tilnefningu og vona ég að hann fái verðlaunin. Blasir að ég tel við að Halldór Guðmundsson fái þau í hinum flokknum fyrir bók sína um Laxness. Það verður allavega fróðlegt að sjá hverjir vinna verðlaunin í næsta mánuði. Það er jafnan mikið að gera hjá mér í desember, miklar annir og nóg um að vera, og það er því tilhlökkunarefni að geta um jólin sest niður og lesið góðar bækur og haft það gott. Margar bækur koma til greina sem lesefni yfir jólin. Aldrei þessu vant las ég skáldsögu Arnaldar Indriðasonar fyrir jól, áður en mesta stressið í desember skellur á og það er því frá.

Aðrar bækur sem ég hef áhuga á eru (aðeins nokkrar nefndar)
Kiljan - eftir Hannes Hólmstein Gissurarson
Halldór Laxness - eftir Halldór Guðmundsson
Málsvörn og minningar - eftir Matthías Johannessen
Bítlaávarpið - eftir Einar Már Guðmundsson
Fólkið í kjallaranum - eftir Auði Jónsdóttur
Sakleysingjarnir - eftir Ólaf Jóhann Ólafsson
Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey - eftir Matthías Viðar Sæmundsson
Barn að eilífu - eftir Sigmund Erni Rúnarsson
11 mínútur - eftir Paulo Coelho
Samkvæmisleikir - eftir Braga Ólafsson
Svartur á leik - eftir Stefán Mána
Baróninn - eftir Þórarinn Eldjárn
Karitas án titils - eftir Kristínu Marju Baldursdóttur
Til hinstu stundar - eftir Traudl Junge
Arabíukonur - eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur
Píanóleikarinn - eftir Wladyslaw Szpilman

Dagurinn í dag
1831 John Quincy Adams fyrrum forseti Bandaríkjanna, tók sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings - Adams varð fyrstur af fyrrum forsetum landsins til að taka sæti á þingi landsins eftir forsetatíð sína
1932 Albert Einstein hlaut bandarískt ríkisfang - hann var einn af þekktustu vísindamönnum heims
1968 Jarðskjálfti fannst í Reykjavík. Hann mældist 6 stig á Richter og var einn snarpasti frá 1929
1989 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, endurkjörin sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Hún sigraði Sir Anthony Meyer í leiðtogakjörinu, en hann var sá fyrsti sem skoraði hana á hólm í 15 ára leiðtogatíð sinni og þau 11 ár sem hún sat á stóli sem forsætisráðherra. Thatcher hætti þátttöku í stjórnmálum tæpu ári síðar, vegna innanflokksátaka og valdabaráttu við evrópusinnaða þingmenn
1998 Þrjú stór verkalýðsfélög í Reykjavík sameinuðust: Starfsmannafélagið Sókn, félag starfsfólks í veitingahúsum og Dagsbrún-Framsókn. Nýja félagið hlaut nafnið Efling og í því voru 13.000 manns

Snjallyrði dagsins
Mundu að þakka guði
gjafir, frelsi og frið,
þrautir, raunir, náungans
víst koma okkur við.
Bráðum klukkur klingja
kalla heims um ból
vonandi þær hringja flestum
gleði og friðarjól.

Biðjum fyrir öllum þeim
sem eiga bágt og þjást
víða mætti vera meira um kærleika og ást.

Bráðum koma jólin
bíða gjafirnar
út um allar byggðir
verða boðnar kræsingar.
En gleymum ekki guði
hann son sinn okkur fól
gleymum ekki að þakka
fyrir gleði og friðarjól.
Magnús Eiríksson (Gleði og friðarjól)